15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1605 í B-deild Alþingistíðinda. (1229)

42. mál, innflutningsbann á dýrum o. fl

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg get ekki fallið frá, að það sje ósamræmi í því að setja þessa till. inn í frv. um aðflutningsbann á dýrum. Enda hafa báðir hv. flm. viðurkent, að annað lægi eiginlega á bak við en hættan á innflutningi húsdýrasjúkdóma. Þeir hafa talað um, hve óheilbrigt væri að flytja það inn, sem framleiða mætti í landinu sjálfu. Jeg tel því viðurkent, að annað efni sje í till. en í frv. sjálfu.

Hv. þm. Str. (TrÞ) virtist halda því fram, að það hefði engin áhrif á kaup á norsku heyi, þótt það sannaðist, að það væri bæði verra og dýrara. Jeg hafði nú haldið, að kaupendur á heyi væru skynsemi gæddar verur og þeir mundu heldur velja það, sem væri bæði betra og ódýrara. Auk þess er norska heyið svo stórt, að það verður að klippa það í hesta, sem ekki eru vanir átinu á því.

Út af talinu um Vestmannaeyjar vil jeg taka það fram, að þótt fje hafi verið veitt til vegagerðar, er ekki komin nein heyuppskera ennþá, og geta líklega liðið nokkur ár áður en hún kemur. Enda eru nú hreinustu vandræði að fá hey í Vestmannaeyjum. Íbúum hefir fjölgað þar svo mjög á síðustu árum, að algerlega er óverjandi að auka ekki ræktun eyjanna. Og þótt þær væru allar ræktaðar, efast jeg um, að heyuppskeran yrði meiri, í hlutfalli við fólksfjölda, heldur en hún var fyrir fám árum.

Því álít jeg rjett að láta þetta mál bíða og sjá hvað fæst út úr rannsóknum Búnaðarfjelagsins. En ef ekki verður hægt að fá innlent hey við sama verði og hið erlenda, fæ jeg ekki sjeð ástæðu til að neyða menn til að kaupa það.

Mjer dettur ekki í hug að halda því fram, að það sje af persónulegum hvötum, sem hv. flm. bera fram þetta frv. En til gamans má benda á, að hv. þm. Str. á stærra tún en flestir aðrir hjer í bæ, og þarf því tiltölulega lítið hey að kaupa.