15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1606 í B-deild Alþingistíðinda. (1230)

42. mál, innflutningsbann á dýrum o. fl

Jakob Möller:

Mjer þykir leitt, að hv. þm. Borgf. (PO) er hjer ekki. Það er aðallega hann, sem jeg á orðastað við. Hv. þm. sagði ýmislegt, sem þarf lítilsháttar athugunar við, og meðal annars það, að með þeim framförum, sem væru að verða í búnaði, ætti að vera óþarfi að flytja inn hey . En gallinn er bara sá, að þessar framfarir eru enn ekki orðnar, og mjer finst rjett að leyfa þeim að eiga sjer stað áður en farið er að banna innflutning á heyi. Og þó að t. d. Flóaáveitan komist í framkvæmd, þá þarf meira til en vatnið. Það þarf líka mannafla til að vinna. Hv. þm. sagði, að það hefði verið algengt, að menn tækju slægjur á leigu og heyjuðu sjálfir; en mjer skildist á honum, að nú mundi vera farið að verða minna um það. Ætli þetta skýri ekki einmitt nokkuð vel ástandið og gefi fyrirsögu um það, hvernig fara mundi, ef bannað yrði að flytja inn hey? Það eru ekki aðeins slægjurnar, sem menn verða að borga, sem stunda slíkan heyskap; ofan á það bætist, að lögð eru á þá há útsvör. Jeg get ímyndað mjer, að menn hafi nú sannfærst um það af reynslunni, að slíkt sje næstum ókleift, bæði vegna þess, hve slægjunum er haldið dýrum og annara erfiðleika, og að miklu betra sje, bæði ódýrara og fyrirhafnarminna, að kaupa útlenda heyið. Hv. þm. talaði um sláttuvjelar og fleira, sem yki heyfeng manna. Jeg hefi ferðast dálítið um landið meðal bænda, og sá jeg þessar vjelar óvíða í gangi. Jeg kom þó til eins bónda, sem átti tær sláttuvjelar í gangi, og er jeg sannfærður um, að hann hefir ekki keypt þær til þess að geta selt hey, heldur til þess að auka heyfeng sinn í því augnamiði að auka bústofninn. Það er talað um metnað bænda, en jeg er viss um, að hann er mestur innifalinn í því að vera sjálfum sjer nógur og þeir afli heyjanna til þess að nota þau sjálfir, en ekki ti1 þess að versla með þau. Þá er því haldið fram, að mikið framboð sje á heyi fyrir norðan og að margir bændur í Húnavatnssýslu og Skagafirði og víðar sjeu aflögufærir. En þó að þeir sjeu aflögufærir nú, sannar það ekki, að þeir verði það altaf, og jeg held satt að segja, að þeim væri betra að geyma sín hey. Þeir eiga það sannarlega ekki víst að fá í bráð annað eins sumar og í fyrra, og það, er ekki var síður mikils um vert, annan eins vetur á eftir. Satt að segja er mjer ekki kunnugt um þetta mikla framboð á heyi fyrir norðan, sem talað er um, og jeg hygg, að almenningur hjer viti lítið um það. Þeir, sem hjer versla með hey, auglýsa sína vöru, en það veit jeg ekki til, að þessir góðu menn fyrir norðan hafi gert. (JörB: Þeir hafa anglýst). Það kann að vera, að hv. þm. (JörB ) hafi sjeð auglýsingu um þetta, en jeg hefi aldrei lesið auglýsingu hjer í blöðunum um hey í Húnavatnssýslu eða Skagafirði. Og þó að framboð sje þar á heyi, sannar það ekki, að engin þörf sje fyrir útlent hey hjer.

Það kann að vera, að útlent hey sje verra en innlent, — jeg veit ekkert um það, — en ef þær rannsóknir, sem hv. þm. Str. talaði um, ganga í þá átt, þá trúi jeg því illa, að menn fari ekki eftir þeim, og ætti þess vegna að vera óhætt að hafa það á boðstólum og hægðarleikur að selja það í samkepni við það útlenda. Því verður ekki neitað, að það er af ýmsum ástæðum erfitt að afla heyja hjer. Verkafólkseklan í sveitunum veldur því, að bændum veitist fullerfitt að heyja fyrir sínum eigin skepnum. Það hljóta menn að skilja, að ekki verður aflað meiri heyja en vinnukrafturinn leyfir. Ef bannað væri að flytja inn hey, mundi afleiðingin verða stórkostleg verðhækkun á heyi innanlands. Það mundi að vísu gera það arðvænlegra að heyja til að selja, en þeir, sem það gerðu, yrðu þó að keppa við sjávarútveginn um vinnukraftinn. Jeg get fullkomlega skilið þann metnað að vilja vera sjálfum sjer nógur, en jeg sje ekki annað en að það væri verjandi, meðan við getum ekki verið það í þessu efni, að banna innflutning á heyi, því að það mundi gera mörgum þorpsbúanna ómögulegt að hafa skepnur. Það væri annað mál, ef ræktun landsins væri lengra komið, að leggja hæfilegan toll á aðflutt hey, sem samsvaraði því, hvað það væri verra, og þó því aðeins, að heyframleiðsla væri nóg í landinu. En jeg álít, að eins og nú standa sakir sje hvorki tímabært að banna innflutning á útlendu heyi nje að tolla það.