15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1611 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

42. mál, innflutningsbann á dýrum o. fl

Ólafur Thors:

Jeg hefi kvatt mjer hljóðs aðallega vegna þess, að annar flm. brtt., hv. þm. Str. (TrÞ), óskaði þess, að jeg lýsti yfir skoðun minni í þessu máli. Og þó að venjulega sje lággengi á þeim óskum, er hann ber fram við mig, vil jeg leysa þessa inn með gulli og verða við henni.

Jeg skal ræða málið með sjerstakri hliðsjón af þeim rökum, er hv. flm. hafa fært fram í deildinni í dag.

Mjer skilst, að það sje af tveimur ástæðum aðallega, að hv. flm. þykir þörf á því að bera fram þessa brtt. Hin fyrri ástæðan er trú á það, að ræktun landsins aukist. Hv. flm. brtt. hyggja, að með aukinni ræktun landsins fáist aukinn heyfengur, og því verði minni þörf á innfluttu heyi. Þetta leyfi jeg mjer að vjefengja. Jeg álít, að af aukinni ræktun leiði fjölgun búpenings, og mjer er jafnvel nær að halda að honum fjölgi meir en sem svarar ræktunaraukanum. Mundi þá meiri þörf á innfluttu heyi, og því rangt að banna innflutning á því.

Hin ástæða hv. flm. og höfuðrök eru þau, að skýrslan, sem þeir vitnuðu til, hafi fært mönnum heim sanninn um það, að erlenda heyið sje verra en hið innlenda. Jeg tók vel eftir því að hv. þm. Str. sagði, að almenningi hafi ekki verið þetta ljóst, og þess vegna hafi menn látið ginnast af útliti hins erlenda heys. En nú, er menn hafa fengið þessar nýju upplýsingar, er sanna að notagildi erlends heys er minna en haldið hefir verið, er mjög ólíklegt, að erl. hey verði eftirleiðis keypt jafnháu verði og ísl. hey. Jafnvel má telja sennilegt, að erl. hey verði nú með öllu óseljanlegt, ef ísl. hey er fáanlegt. Þetta skildist mjer einnig hv. þm. Borgf. (PO) álíta.

En sje þetta rjett, er brtt. með öllu óþörf, en getur undir vissum kringumstæðum verið skaðleg. Jeg mun því greiða atkvæði á móti henni.

Mjer brá er hv. þm. Str. kvaðst mundu geta fallið frá þessari brtt., ef nýr 12% innflutningstollur yrði lagður á erl. heyið. Hann hefir lýst yfir því að menn hafi verið mintir á heyinu. Nú vill hann leggja nýjan toll á það, svo að þeir, sem áður hafa ginnast látið, ginnist enn meir. Nú eru það meðal annars bændur, sem kaupa þetta erlenda hey. Kemur hjer í ljós annar hugur til bænda en þessi hv. þm. hefir hingað til útbásúnað.

Annars virðist mjer, sem nokkurskonar bannæði hafi gripið suma hv. þm. þessarar deildar. Í dag var gerð tilraun til þess að banna mönnum að spila billiard. Þetta bann var því broslegra, sem leikur þessi er ungs manns gaman, og væri sönnu nær að banna hann fullorðnum mönnum. Nú er gengið feti framar: Það á að fara að banna beljunum að jeta útlent hey. En af því að jeg hygg, að flestir hv. þm. sjeu gáfaðir menn, en engin naut, þá vænti jeg þess, að beljurnar verði látnar óáreittar um mataræði sitt.