06.04.1926
Neðri deild: 46. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1637 í B-deild Alþingistíðinda. (1264)

33. mál, húsaleiga í Reykjavík

Magnús Jónsson:

Jeg vil fyrst og fremst sem 1. flm. þessa máls þakka hv. meiri hl. allshn. fyrir góða meðferð og greiða afgreiðslu þessa máls, og hv. meiri hl. hefir ekki gert aðrar breytingar á frv. en þær, sem jeg benti þegar á við flutning þess við 1. umr. hjer í deildinni, að farsælast mundi að flytja uppsagnardaginn til vors, í stað þess að í frv. var fyrst gert ráð fyrir, að segja mætti upp í haust.

Hv. frsm. minni hl. (JBald) vil jeg segja það, að jeg held það sje best að fara ekki í langt karp um málið að þessu sinni. Ástæður allar eru of kunnar, bæði með og móti, til þess að nokkurs verði að vænta upp úr umræðum um þær. Jeg heyrði líka á ræðu hans, að hv. frsm. minni hl. hafði ekki neitt nýtt til brunns að bera, enda var þess ekki að vænta. Það er satt, að fleiri ástæður eru til þess en húsaleigulögin, að lítið er bygt, en það þarf þó ekki annað en að líta á óvinsældir þessara laga til þess að sjá, að þau valda miklu þar um. Jeg held, að þeir húseigendur sjeu fáir, sem ekki er meinilla við húsaleigulögin, enda væri það á móti öllu mannlegu eðli, ef lögin, sem öllum er illa við, hefðu ekki gert sitt til að draga úr vilja manna til að leggja fje sitt í fasteignir, sem þeir svo fá ekki að hafa umráð yfir.

Annars voru aðalrök hv. frsm. minni hl. eins og vant var, að svo eða svo margar fjölskyldur mundu verða húsnæðislausar, ef frv. yrði að lögum. Kom hann með samanburðaráætlun um þetta við það, sem skeð hefði í Álaborg í Danmörku, og gerði ráð fyrir, að 700 til 1000 fjölskyldur mundu allar fara til bæjarstjórnarinnar og krefjast af henni að ráða fram úr vandræðum þeirra. Það er satt, að það er ekki óhugsandi, að eitthvað af fólki mundi taka til þessa ráðs, og hefir stundum gert það jafnvel meðan húsaleigulögin voru í gildi, en jeg spyr hv. þm. (JBald): Hvað heldur hann, að verði um þessi þúsund húsnæði, sem fólkið flytur úr? Vill hv. þm. eða nokkur annar trúa því, að þau verði látin standa auð, meðan hægt er að fá þá húsaleigu, sem nú gelst? Nei! Það yrðu vitanlega aðeins örari flutningar en áður, en húsnæðin munu leigjast jafnótt. Það munu ýmsir verða að flytja, sem ella hefðu setið, eins og fram að þessu, í skjóli húsaleigulaganna, og aðrir kæmu í þeirra stað; þá sætu og sumir kyrrir, sem áður hafa oft orðið að flytja sig. Flutningarnir yrðu aðeins örari en áður, og jeg skal segja hv. frsm. minni hl. það, að til eru og hafa verið fjölskyldur, sem eru húsnæðislausar vegna húsaleigulaganna. Jeg tek til dæmis, að jeg eigi hús (sem jeg raunar ekki á, segi þetta sem dæmi) með óleigðri íbúð; jeg á kost á að leigja hana fjölskyldu, en af því að jeg þekki hana ekki og líst ekki meira en svo á leigjendurna, þá hika jeg, þegar jeg veit, að fjölskylda, sem komin er einu sinni inn í íbúðina, situr þar föst, hvort sem mjer líkar betur eða ver. Íbúðin stendur svo óleigð á meðan. Það eru þess vegna ekki fáir, sem hafa lausar íbúðir vegna húsaleigulaganna, því þeir geta ekki losað þær aftur, ef þess þarf með, og þar af leiðandi margir, sem eru húsnæðislausir vegna þessara sömu laga. Þegar menn vita, að ekki er hægt að losna aftur við leigjanda, er ekki svo lítil ábyrgð því samfara að veita honum svo að segja lífstíðaríbúð, ef hann aðeins geldur tiltekna leigu, án tillits til nokkurs annars, sem kann að vera athugavert við hans þarveru. Nei! Húsnæðin munu ekki standa auð, þó að húsaleigulögin verði afnumin. — Það verður aðeins raðað öðruvísi niður fólkinu í íbúðirnar. Það kemur því ekki til neinna mála að halda lengur í aðrar eins ódæma ófriðarráðstafanir og þessi húsaleigulög eru. Því er það allbroslegt, að hv. minni hl. allshn. getur ekki talið lögunum annað til gildis í nál. sínu en að húseigendur hafi margir hagnast af þeim, vegna þess að leigjendur hafi staðið betur í skilum á leigu en áður. Það er eins og ekki hafi verið hægt að segja upp leigu á húsnæði áður vegna óskilvísi leigjanda. Nei, það eina, sem hægt er að segja um þetta, er það, að þarna var eina smugan, sem húsaleigulögin skildu eftir handa húseigendum til að þeir gætu losnað við hvimleiða leigjendur. En það er hreinn barnaskapur að þakka húsaleigulögunum annað eins og þetta, sem var alvenja áður en þau lög voru sett.

Jeg orðlengi þetta svo ekki frekar; vona aðeins, að hv. deild láti nú þetta mál ná að ganga fram, eins og hún ætlaðist til á síðasta þingi, auk þess, sem nú eru enn ríkari ástæður til að samþykkja frv. en þá.