08.04.1926
Neðri deild: 48. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1645 í B-deild Alþingistíðinda. (1268)

33. mál, húsaleiga í Reykjavík

Pjetur Þórðarson:

Jeg hefi orðið í minni hl. í nefndinni, og þótt jeg að vísu tæki fram og gerði grein fyrir sjerstöðu minni við 2. umr. þessa máls, þykir mjer þó rjett að segja hjer nokkur orð um málið.

Það er kunnugra en svo, að þörf sje að fara mörgum orðum um ágreining þann, sem orðið hefir milli manna í Reykjavík út af efni laganna frá 1917 og 1919 um húsaleigu í Reykjavík; það var og vitanlegt fyrirfram, að þessi lög mundu verða óvinsæl meðal húseigenda og þeirra, er rjeðu yfir meira húsnæði en þeir sjálfir notuðu, og urðu að leigja það út frá sjer. En það má einnig gera ráð fyrir því, að þessi lög hafi að sama skapi orðið vinsæl af þeim, er þurftu þeirra við, sem nutu verndar af húsaleigulögunum. þ. e. af öllum fjölda leigjenda í barnum. Þetta hefir þá skifst nokkuð jafnt niður: vinir og óvinir laganna hafa verið fremur jafnir, enda sjest þetta og bert í bæjarstjórn Reykjavíkur, sem er skipuð báðum flokkum, húseigenda og leigjenda, að þar er líkt á komið með þeim báðum. Munurinn er þar ekki mikill, og af þessu þykist jeg geta ráðið, að það sje alllíkt á komið með vinsældir og óvinsældir laganna hjer í bænum.

Það hefir verið talað um, að lögin hafi verið sett sem sjerstakar og einstæðar ráðstafanir á alveg sjerstökum tímum, þ. e. á ófriðarárunum, þegar öll viðskifti manna á meðal rugluðust meira eða minna og sveifluðust á ýmsa vegu. En með því að jeg fæ ekki sjeð, að þessar sömu, sjerstöku ástæður hafi breyst mjög mikið síðan lögin voru sett, að því er húsnæðisleysi og eftirspurn eftir húsnæði snertir, eða að húsaleigan sjálf hafi breyst mjög mikið síðan, sje jeg ekki, að ástæður sjeu til að nema lögin úr gildi að svo komnu. Jeg hefi því tekið mjer stöðu í þessu máli þeim megin og þeim til liðveislu, sem mjer virðist, að mundu verða harðast úti af hlutaðeigendum, er lögin falla úr gildi. Það er sýnilegt, að leigjendur, einkum fjölskyldufólk, stendur mun lakar að vígi eftir en áður, ef lögin verða numin úr gildi. Þetta er svo þýðingarmikið mál fyrir Reykjavík, að ekki getur neinum í ljettu rúmi legið, ef hlutur alþýðu er mjög fyrir borð borinn með afnámi húsaleigulaganna.

Jeg hefi heyrt því haldið fram, að húsaleigan í Reykjavík væri einn aðalþátturinn í því, að dýrtíðin minkaði ekki þar að neinum mun, þó langt sje nú umliðið frá lokum ófriðarins. Það er því af þessu tvennu, — bæði vegna þeirra, sem lakar verða settir við afnám laganna, og vegna hinnar almennu dýrtíðar, sem hjer ríkir enn, og sem að miklu leyti stafar frá húsaleigu og húsnæðisvandræðum — að jeg hefi þá afstöðu til þessa máls, sem jeg hefi nú lýst. Jeg verð því eindregið á móti því að nema lögin úr gildi að þessu sinni.

Jeg hefi skilið þetta mál svo, að þessi húsaleigulög hafi á tvennan hátt haft áhrif sem hemill á sveiflum þeim, sem orðið hafa á þessari tegund viðskifta manna á meðal — leigu á íbúðum —, en þær sveiflur hefðu án laganna orðið óviðráðanlegar og mjög óþægilegar fyrir meiri hluta almennings. Annarsvegar hafa lögin verið hemill á óheyrilegri hækkun á húsaleigunni, en hinsvegar hafa þau verið hemill á hrakningum, sem þeir, er erfiðast eiga með að taka íbúðir á leigu, hefðu ella lent í, og það hefði helst verið fjölskyldufólk með mörg börn, enda sýnir reynslan, að þetta fólk hefir einna helst notið verndar þessara laga.

Það hefir líka komið fram í dómum manna um lögin með og á móti, að mikill hrakningur liggur fyrir slíku fólki, er lögin verða úr gildi numin. Það viðurkenna líka þeir, sem vilja afnema lögin. Og að lögin hafi verið hemill á hækkun húsaleigunnar, er greinilega viðurkent með brtt. hv. meiri hl. allshn., sem jafnvel hefir sjeð að afnám laganna gæti orðið orsök í óhóflegri hækkun á húsaleigu. og hefir því viljað með brtt. sinni koma í veg fyrir, að sú hækkun kæmi þó fyr en lögin væru að fullu og öllu úr gildi numin. Þetta sýnir betur en alt annað, hvers má vænta, er lögin eru úr gildi feld. — húsaleigan hækkar þá úr hófi fram, og hefir þó enginn neitað því, að hún er fullhá eins og nú er. (HK: Svo?). Já, jeg held að lögin hafi aldrei haft þau áhrif, að húseigendur hafi borið skarðan skjöld af hólmi í viðskiftum sínum við leigjendur. Jeg hygg að þeir hafi fengið fullsæmilegar rentur af sínu fje og haft góðan hag af því að leigja út hús sín, enda veit jeg, að hv. þm. Barð. (HK) dettur ekki í hug að ósanna þetta. En eins og málinu er nú komið, hefir meiri hl. þessarar hv. deildar þegar ákveðið að nema lögin úr gildi, og þar með hefir þingið afsalað sjer íhlutunarrjetti sínum um þessi mál. Jeg álít, að nógu langt sje farið, þó hv. deild færi ekki lengra en að afnema aðeins aðallögin, og hafi þar með slept íhlutunarrjetti sínum um þetta mál. Jeg tel ekki rjett að útiloka það alveg, að til sje hemill á þessum hlutum og Reykjavíkurbær geti sjálfur ráðið einhverju um þau. Þess vegna er brtt. mín á þskj. 295 fram komin, um að heimildarlögin frá 27. júní 1921 skuli fá að standa um hríð ennþá.

Hv. frsm. meiri hl. allshn. (JK) hefir skýrt frá því, að þessi heimildarlög hafi ekki ennþá komið að neinum notum, eða eins og til var ætlast, er þau voru gefin út, og hann taldi sýnt, að bæjarstjórn Reykjavíkur hefði gefist upp við að notfæra sjer þessi heimildarlög. En þetta er alls ekki víst ennþá. Lögin hafa ekki verið sönnuð að vera til einskis nýt, eða til hins verra, og þegar aðallögin, eru úr gildi numin, geta vel komið fyrir þau atvik að það væri ekki lakara, að Reykjavíkurbær hefði einhverjar heimildir til að setja reglur eftir eða gefa út reglugerð um húsaleigu eða annað, er þessi mál áhrærir. Þó það væri svo, að bæjarstjórnin hefði örvænt um að geta staðið á móti sveiflum í þessum viðskiftum manna á meðal, er það þó alls ekki víst, að hið sama yrði aftur ofan á í bæjarstjórninni, ef það hefði sýnt sig, að mjög hafi verið óheppilegt að afnema húsaleigulögin sjálf.

Jeg hefi svo ekki meira að segja um þessa brtt. mína; hún fer fram á, eins og jeg hefi nú skýrt frá, að láta þó þá lagaheimild halda áfram að vera til, sem næg er til þess að Reykjavíkurbær geti ráðið fram úr þessum málum á einhvern annan hátt en tilviljun ein eða hending annars mundi gera. Þetta getur heldur ekki verið neinum til meins, þó að þessi heimildarlög fái að standa, er allir álíta, að lítil líkindi verði til, að verði notuð; en aðalatriðið er, að sjálf húsaleigulögin eru nú úr gildi numin með samþykt þessa frv.

Mín tillaga er meinlaus, þó litlar líkur sjeu til, að hún komi að liði, en hún er ekki þess eðlis, að hugsanlegt sje, að hún geti gert nokkurn skaða. Skal jeg svo ekki ræða meira um þetta, en vænti þess, að hv. deild geti samþykt tillöguna.