10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

1. mál, fjárlög 1927

Hákon Kristófersson:

Jeg á að þessu sinni fáeinar brtt., sem jeg tel rjettara að láta fylgja nokkur orð, þó ekki sjeu þær í hækkunaráttina.

Fyrsta brtt. er við 15. grein 10, þar sem farið er fram á byggingarstyrk. Mjer fanst rjettara, að því fje væri varið til sjóðstofnunar til minningar um þann látna heiðursmann, sem um er að ræða, Pjetur Jónsson frá Gautlöndum, heldur en til sjerstakrar húsbyggingar. En úr því að Suður-Þingeyingar geta sóma síns vegna þegið þennan styrk á þann hátt, sem ráðgert er, þ. e. til húsbyggingar, stendur mjer það á engu og tek því tillöguna aftur.

Þá á jeg aðra till. á þskj. 297, XLVI. lið. Fyrri hluti till. gengur út á, að hækkaður sje styrkurinn til Sighvats Borgfirðings, úr 600 kr. upp í 800 kr. Jeg þarf ekki að fjölyrða um þennan þjóðkunna mann. Störf hans eru alkunn. Jeg þarf heldur ekki að lýsa þeim erfiðu lífskjörum, sem þessi maður á við að búa. Í raun og veru er þessi styrkur of lítill, þó hann verði hækkaður upp í 800 kr. Jeg þykist vita, að ekki þurfi að mæla mikið með þessu, þar sem nýlega var hjer haft á móti að fella niður styrk til annars manns, sem á þó enda sanngirniskröfu til styrks frá hinu opinbera, en sá heiðursmaður, sem hjer er um að ræða, á að mínu áliti mörgum fremur kröfu til viðurkenningar. Sighvatur Borgfirðingur hefir mætt samhug þingsins áður, og jeg vona að svo verði enn. — Þá er hinn hluti till. þess efnis að fella niður söguritunarstyrk til Boga Melsteds. Jeg hafði heyrt lesið hjer upp, að þessi heiðursmaður óskaði eftir, að sjer yrði ekki veittur styrkur að þessu sinni. Að hv. fjvn. varð ekki við þessum tilmælum, hjelt jeg að hlyti að stafa af gleymsku. Vildi jeg bæta úr þessu og gera Boga Melsted það til geðs að koma með þessa till. Nú hafa sagt mjer menn, sem kunnugir eru þessum heiðursmanni, að hann vegna lasleika telji sig ekki geta unnið fyrir þessum styrk, en mundi hinsvegar ekki taka það illa upp, þó að Alþingi ljeti hann standa. Með öðrum orðum, að líkt standi á og fyrir Arngrími lærða, sem baðst undan biskupstign, en vildi þó gjarnan hreppa hnossið. Að þessum upplýsingum fengnum, lýsi jeg því yfir, að jeg tek þessa till. aftur.

Þá á jeg eina till. mjög lítilsverða, sem gæti þó valdið ágreiningi. Jeg vil fella niður aths. við styrkinn til Búnaðarfjelagsins. Mjer er ekki vel ljóst, hvað hún á að þýða. Mjer finst, að trúa megi búnaðarfjelögum fyrir því að annast um útvegun nauðsynlegra verkfæra o. fl. Annars er mjer ekki verulegt kappsmál um þessa till., ef hv. deild lítur svo á, að nauðsynlegt sje, að þessi athugasemd standi. Hún um það.

Þá er ein till. í hækkunaráttina, sem jeg hefi ekki minst á. Hún fer fram á, að veittur sje lítilsháttar styrkur ekkju sjera Jónasar Hallgrímssonar frá Kolfreyjustað. Hún er efnalítið gamalmenni, 76 ára, og eftir vanalegum gangi lífsins má búast við, að þennan styrk þurfi ekki að greiða í mörg ár. En því svo yrði, er þessi tillaga mín fullkomlega hliðstæð öðru, sem þegar er komið í fjárlögin. Jeg vænti þess, að hv. deild sýni þessari heiðurskonu sömu sanngirni og öðrum, sem líkt stendur á fyrir, og mæli jeg sem best með till.

Jeg held svo, að jeg eigi ekki fleiri till. að þessu sinni, og jeg vona, að hv. þdm. verði mjer sammála um það, þegar fjárlögin fara hjeðan úr hv. deild, að það eru ekki hækkunartill. frá þingmanni Barðstrendinga, sem hafa valdið því, hvernig viðskilnaður fjárlagafrv. verður hjer í hv. deild.

Þótt það sje vitanlega ekki geðfelt verk og sje illa sjeð að tala á móti ýmsum till., sem fram hafa komið frá einstökum þm. og fjvn., þá hygg jeg það skyldu mína að láta uppi andúð mína gagnvart ýmsum þeirra.

Jeg skal þá fyrst snúa mjer að till. XXVI, frá fjvn., sem hefir verið kölluð „tillagan um póstprest“. Vitanlega verður maður að fá skýringu á svona nafni, til þess að hægt sje að átta sig á, hvað meint er. Jeg verð að segja, að margskonar till. hafa fram komið hjer, en þessi held jeg sje með þeim allra fáránlegustu. Nú á að fara að launa sjerstakan prestvígðan mann til þess að fara um landið, til þess að prjedika fyrir lýðnum. (TrÞ: Er það svo fáránlegt?). Nema því aðeins, að hv. þm. Str. (TrÞ) slái því föstu, að prestar landsins sjeu ónýtir í sínu kalli. Þetta er einmitt fáránlegt. Til hvers er þá synodus, biskup og prófastar? Eru þessir herrar ekki til þess færir að halda uppi andlegri menningu þjóðarinnar á þann hátt, sem þessi maður á að gera? Jeg býst við, að svo sje. Svo er annað. Jeg held, að háttvirtir prófessorar háskólans hafi lyft sjer upp á hverju sumri, að minsta kosti guðfræðiprófessorarnir. Hver er færari að bæta úr sálarþörf þjóðarinnar barna, sem hv. fjvn. hefir fundið til að glötunin væri vís, nema hún stofnaði hjer nýtt embætti til þess að senda þeim kennimann? En jeg fyrir mitt leyti er ekki miklu vissari um þeirra sáluhjálplegu velferð við ferðalok þessa hjervistarlífs, þó að þessi heiðurskennimaður verði út sendur, — meira að segja þótt það verði minn kæri vinur. hv. þm. Str. (TrÞ), sem jeg treysti þó í því tilliti mjög vel.

Nei, þetta sýnir það og ekkert annað, að nú virðist háttv. þm., að svo mikið sje um aurana í ríkissjóðnum, að það megi fleygja fjenu á báðar hendur. Hjer er hugsuð upp ný staða, sem jeg veit ekki til að nokkur hafi fyrirfram sótt um eða hefði það í hyggju og þess vegna þyrfti að fá styrk til fararinnar. Nei, jeg held, að það sje ekki vernlegur áhugi fyrir þessu, ef guðfræðingar háskólans vilja ekki taka það að sjer og fá til fararinnar styrk úr sáttmálasjóði, sem mig minnir að væri gengið út frá að væri meira til styrktar stúdentum en reynslan hefir sýnt.

Þá kem jeg að því, að hv. fjvn. leggur til, að veittar verði 6 þús. kr. til að reisa íþróttaskóla í Þingeyjarsýslu. Ekki man jeg nú til þess, að nefndir væru möguleikarnir fyrir þessum kostnaði, þegar var verið að mæla fyrir skóla Þingeyinga hjer í þinginu. En það er ekki lengra liðið en svo, að skólinn er rjett nýstofnaður, þegar menn hafa fundið hjá sjer hvöt til að koma með slíka till., og það meiri hluti fjvn., að því er mjer skilst. Og hv. þm. Str., minn kæri vinur, tekur það fram í gær, að meðal annara íþrótta, sem kendar verði, sjeu skíðaferðir. Jú, það vita allir, hversu nauðsynleg íþrótt þetta er, en — dettur nokkrum í hug, að það gangi í mig og aðra hv. þm., að Þingeyingar þurfi endilega að fá sjerstakan skóla og skólakennara til þess að kenna þeim skíðaferðir? Hv. frsm. fjvn. (TrÞ) leggur samt svo mikið upp úr þessu, að hann vill taka þennan ágæta mann hjeðan úr mentaskólanum til þess arna; þörfin er svo knýjandi. Maður veit eiginlega ekki, hvað á að kalla þetta; maður hefir ekki heimild til að ætla mönnum sjerkennilegar hvatir, og stæðu ekki eins heiðarlegir menn að þessu eins og hjer standa, þá segði maður þetta þingeyskt reiptog og ekkert annað.

Þetta er nú ein af þeim till., sem jeg vænti fastlega, að deildin felli niður. Jeg hjelt, að fáir vildu ætlast til, að nú væri farið að stofna til nýrra embætta þar, sem engin knýjandi nauðsyn er fyrir.

Jeg var ekki inni í gær, þegar hv. 4. þm. Reykv. (MJ) var að tala fyrir till., sem hann hefir borið fram um að veita Guðmundi nokkrum Einarssyni 4 þús. kr. til leirbrenslu til myndagerðar. Hvað sem um þetta má segja að öðru leyti, þá hygg jeg, að þetta sje þó ekki það nauðsynlegt, að ekki mætti það vel bíða. Mjer var líka sagt af bæjarmanni hjer í morgun, — en jeg ábyrgist vitanlega ekki, að sagan sje sönn, — að þetta sje sá sami Guðmundur, sem flutti inn áhöld til brennivínsgerðar, og að það hafi einnig komist svo langt, að töluvert hafi verið unnið að áfengisbruggi uppi í Miðdal, meira að segja að tvær tunnur hafi verið á stokkunum úti í fjósi. Jeg vona nú, að það eigi ekki að hafa fjárhæð þessa til þess að kaupa einhver svipuð áhöld. En samvisku minnar vegna sje jeg þó ekki annað en að það sje helst skylda mín að vera á móti þessu, hvort sem fjárhæðin ætti að vera til þessa eða annars.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) flytur brtt. við 16. gr., um að veita Kvenrjettindafjelagi Íslands 2 þús. kr. til sendiferðar til París árið 1926. Þetta virðist mjer ekki nema bera vott um, að hann skilji fullkomlega, hvað nauðsynlegt það er, að sjálfstæði landsins komi fram í sem flestum tilfellum. En jeg hefði kunnað betur við að vita, hver ætti að fara. Til slíkrar farar sem þessarar álít jeg það sje mjög svo nauðsynlegt að sje valin ein af okkar allra myndarlegustu konum og sjálegustu, og sennilega þyrfti hún líka að skilja eitthvað í frönsku o. s. frv. Ef jeg hefði átt víst um gott val til farar þessarar, þá hefði jeg greitt atkv. með till. En af því að það er uggur í mjer, að valið mistakist, ef til vill verði send einhver gömul kona, þá get jeg ekki greitt þessu atkv.

Jeg hljóp yfir eina till., sem jeg vildi gjarnan minnast á af sjerstökum ástæðum. Hinsvegar skal jeg taka það fram, að mjer þykir það slæmt, af því að hún kemur frá heiðursmanni, sem sje hv. 2. þm. Eyf. (BSt). Hann fer fram á námsstyrk til framhaldsnáms við Akureyrargagnfræðaskóla, 5 þús. kr. Þessi till. kemur mjer dálítið óþægilega, af því að jeg hefi verið með þessum skóla að ýmsu leyti. Jeg man þá tíð, að þegar skóli þessi var seinast til umr., sagði einmitt þessi sami hv. þm. að sú tilhögun, sem farið væri fram á, myndi verða ríkissjóði alveg kostnaðarlaus. Þá var fórnfýsi kennaranna svo mikil, að þeir vildu taka að sjer aukið starf fyrir ekki neitt. Mjer fanst það þá dálítið undarlegt, — því að jeg tók þetta í allri hreinskilni, — ef menn vildu ekki leyfa þetta, þar sem enginn kostnaður hlytist af því. Mjer var þá sagt af þeim, sem þá stóðu á móti þeirri málaleitun, að þetta liti svona út í byrjun, en svo yrði það ekki til lengdar. Jeg verð nú að viðurkenna, að þessir menn sáu betur fram í tímann. Af því að jeg vil ekki gera hvorki orð kennaranna eða hv. þm. og annara ómerk, þar sem þeir fullyrtu, að enginn kostnaður fyrir landið hlytist af þessari breytingu, þá leiðir það af sjálfu sjer, að jeg hlýt að vera á móti þessari tillögu.

Svona fer oft þeim mönnum, sem eru trúgjarnir á það, að mönnum gangi aldrei neitt til, sem hulið er á bak við, að þeir flaska oft og einatt á því.

Alveg yrði sama uppi á teningnum, ef farið væri að koma upp þessum leikfimisskóla við Laugaskólann. Þá yrði afleiðingin sú að það þætti brátt nauðsynlegt að koma upp slíkri stofnun við alla skóla. Hví leggur hv. fjvn. ekki til, að slíkum skóla verði komið upp við Núpsskólann t. d.? Er þörfin meiri í Þingeyjarsýslu?

Jeg dirfist nú ekki að segja það, sjerstaklega þar sem jeg þekki vel hv. flytjanda till., að það hafi verið vísvitandi blekkingar í málinu frá hans hendi, þegar hann flutti það upprunalega.

Mjer þykir rjett að geta þess aðeins, úr því að hv. 4. þm. Reykv. (MJ) er kominn hjer inn, að jeg mintist lítillega á orð hans hjer í gær í sambandi við hinn svokallaða póstprest. (MJ: Já, jeg heyrði af því). Jeg hefi samt ekki farið eins hörðum orðum um slíkt skrípi eins og vert er. Þó læt jeg hjer staðar numið að sinni. Jeg óska eftir að fá frambærileg rök um þetta mál. Mætti það þá vera veigamikill þáttur í þeim rökum, ef hv. 4. þm. Reykv. lýsti því yfir, að það væri hann, sem tæki embættið að sjer.