08.04.1926
Neðri deild: 48. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1652 í B-deild Alþingistíðinda. (1272)

33. mál, húsaleiga í Reykjavík

Jakob Möller:

Jeg lýsti því yfir við 1. umr. þessa máls, að jeg mundi greiða atkvæði með slíkri tillögu sem tillögu háttv. þm. Mýr. (PÞ). En út af því, sem hæstv. fjrh. hefir lýst yfir sem þm. þessa bæjar, skal jeg vekja athygli á því, að þessi lög frá 1921, sem hann nú legst á móti, eru í gildi og hafa verið það í 5 ár, og mjer er nær að halda, að hæstv. fjrh., sem þá var þingmaður Reykjavíkurbæjar, eins og hann er nú, hafi greitt atkvæði með þeim lögum, en þá var í raun og veru eins ástatt um lögin og nú er að því leyti, að sú heimild var veitt til að taka við af húsaleigulögunum eftir að sjálf húsaleigulögin væru úr gildi, því að svo er fyrir mælt, að þessi reglugerð komi í staðinn fyrir húsaleigulögin í heild sinni. Hinsvegar er það ekki eins ægilegt og hæstv. fjrh. virðist halda að skilja heimildina eftir í höndum bæjarstjórnarinnar, vegna þess, að reglugerð, sem samin yrði samkvæmt þessum lögum, yrði að fá staðfestingu stjórnarráðsins, en nú er reynsla fengin fyrir því, að það leyfir ekki bæjarstjórninni að ganga lengra en góðu hófi gegnir, þar sem hæstv. stjórn hefir þegar neitað um staðfestingu á reglugerð, sem samin er eftir þessum lögum. Og þó að bæjarstjórnin og stjórnarráðið yrðu samtaka í því að setja óhæfa reglugerð, er það algerlega á valdi þingsins næsta ár að fella þá þau lög. Jeg get því ekki sjeð, að hjer sje neinn voði á ferðum. Hinsvegar lít jeg svo á, að rjettara sje að láta heimildina standa, vegna þess að ekki er fengið fult yfirlit yfir það nú, hvaða áhrif það mundi hafa að fella lögin úr gildi, en þau verða að falla úr gildi sem fyrst. Það er eina ráðið til að koma málum þessum á eðlilegan grundöll, en þrátt fyrir það hlýtur fyrst að koma erfitt tímabil. Það er ekki lægt um óákveðna framtíð að hafa þessar hömlur á húsnæði hjer frekar en annarsstaðar. Málið er með þessari aðferð komið í hendur bæjarmanna sjálfra, enda hefir þingið áður lýst sig þeirrar skoðunar, að rjettasta meðferð málsins væri þessi, og er því „konseqvent“ að þingið láti lögin nú standa.