17.04.1926
Efri deild: 53. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1657 í B-deild Alþingistíðinda. (1279)

33. mál, húsaleiga í Reykjavík

Frsm. (Eggert Pálsson):

Jeg býst við því, að ekki þurfi langa framsögu um þetta mál. Nál. er á þskj. 336, og leggur nefndin þar eindregið til, að frv. verði samþykt.

Húsaleigulög fyrir Reykjavík eru nú í þrennu lagi, svo sem nál. ber með sjer. Fyrst eru lög frá 12. sept. 1917, sem eru þau eiginlegu húsaleigulög. Er í þeim gert ráð fyrir fastri 5 manna húsaleigunefnd. Skipar yfirdómurinn formann, en stjórnin 2 menn, sinn fyrir hvora, húseigendur og leigjendur, og bæjarstjórn aðra 2 á sama hátt. Þessi lög hafa gilt síðan. En í upphafi voru þau sett vegna örðugleika þeirra, sem af styrjöldinni stöfuðu. Hafa þau þótt nauðsynleg þá í svipinn og máske gert gagn, þótt það hafi verið löngum dregið í efa af ýmsum, hvort þau væru til verulegra hagsbóta, þegar til alls kæmi. Þó varð sú niðurstaðan 1919 að lappa enn frekar upp á þessi lög, þar sem bæjarstjórn var heimilað að gera ýmsar ráðstafanir til þess að bæta úr húsnæðisvandræðum manna, bæði með því að láta byggja hús og ennfremur að hafa eftirlit með því, að ónotuð húsnæði yrðu gerð hæf til íbúðar. Svo 1921 var enn á ný slett nýrri bót á þessi lög frá 1917, með því að heimila bæjarstjórn að semja reglugerð um húsnæði. Þau lög hafa víst aldrei komið til framkvæmdar og eru því dauður bókstafur.

Hv. Nd. hefir við meðferð þessa máls komist að þeirri niðurstöðu, að það mundi vera undir öllum kringumstæðum heppilegast að afnema þessi lög, og allshn., sem hjer hefir athugað þetta frv., hefir fallist á það. Enda liggja fyrir tilmæli frá bæjarstjórn Reykjavíkur um að lögin verði afnumin. En síðan nál. var samið, hefir nefndinni borist brjef frá borgarstjóra um það, að ef til vill væri rjett að fella ekki úr gildi lögin frá 1921, og mun nefndin athuga það til næstu umræðu, en að svo stöddu hefir hún ekki haft tíma til þess að athuga það sjerstaklega.