10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

1. mál, fjárlög 1927

Ingólfur Bjarnarson:

Jeg á enga brtt. við fjárlögin að þessu sinni og hafði því ekki hugsað mjer að taka til máls. En það er vegna þess, að hv. þm. Ak. (BL) fann ástæðu til þess í gær að flytja dálítið erindi til ófrægingar alþýðuskólanum í Þingeyjarsýslu, sem jeg vil segja nokkur orð. Það er samt ekki svo að skilja, að jeg telji það skifta miklu máli, þótt hv. þm. Ak. lýsi hjer þeim huga, sem hann ber til þessa skóla. Jeg geri ekki ráð fyrir, að það hafi í sjálfu sjer nein áhrif. En jeg vildi gefa skýringar á þeim atriðum, sem þm. fór ýmist villandi orðum um eða skýrði beinlínis rangt frá.

Jeg var því miður ekki inni, þegar hv. þm. flutti ræðu sína, en jeg hefi fengið glögga skýrslu um, að hann hafi sjerstaklega gert mikið úr því atriði, að enginn vissi, hver ætti þennan skóla, og sagt í því sambandi, að máske væri það Kaupfjelag Þingeyinga, og að eitthvað hefði heyrst um það, að kaupfjelagjð byggist við að gefa skólann á 40 ára afmæli sínu, og fleira í þessa átt! Þetta er nú vitanlega skáldskapur út í loftið og hefir ekki við neitt að styðjast. Þarna nyrðra að minsta kosti er öllum vitanlegt, að skólinn er hjeraðseign, þótt kannske að forminu til megi telja hann sjálfstæða stofnun í skjóli sýslufjelagsins og með ábyrgð þess að baki sjer.

Ætla jeg lítilsháttar að reyna að skýra, hvernig þessu er fyrir komið, þó að jeg raunar viti, að ýmsum hv. þdm. sje það fullkunnugt.

Upprunalega var það Samband ungmennafjelaga Þingeyinga, sem gekst fyrir fjársöfnun til þessa skóla heima í hjeruðum, og leitaði síðan til Alþingis um styrk til skólans. Og þessi undirbúningur stóð yfir í mörg ár. Þegar svo var farið að byggja skólann, höfðu ungmennafjelögin alla framkvæmd verksins. En þegar svo skólinn var fullgerður, var samin reglugerð fyrir hann um stjórn hans og starfstilhögun alla. Er þar tekið fram, að skólanum skuli stjórnað af þriggja manna stjórn, sem kosin sje af sýslunefnd SuðurÞingeyinga og ungmennasambandinu. Sú reglugerð var samþykt af sýslunefnd Þingeyinga og síðan af stjórnarráði Íslands. Jeg veit ekki, hvort venjulegt er að birta slíkar reglugerðir í Stjórnartíðindunum. En þá er hana að finna í skjalasafni stjórnarráðsins.

Nú finst mjer, að þegar málum er svo komið, að búið er að samþykkja reglugerð fyrir þennan skóla, bæði af sýslunefnd Þingeyinga og af stjórnarráðinu, þá sje það dálítið kynlegt að tala um, að enginn viti, hvernig þessum skóla sje háttað, hver eigi hann o. s. frv. Vitanlega er skólinn hjeraðseign og er stjórnað eftir ákveðinni reglugerð, samþyktri af hlutaðeigandi sýslunefnd og öðrum, sem um málið hafa fjallað. En fyrirkomulagið er vitanlega sniðið eftir erlendum fyrirmyndum. Þannig er það algengt í Svíþjóð, á Englandi og víðar, að skólar hafi sína eigin stjórn og sjálfstæðan fjárhag, með styrk ríkisins og hjeraðanna. Tel jeg víst, að þetta fyrirkomulag sje vel að skapi Alþingis, og vil í því sambandi benda á, að í fyrra, þegar Hvítárbakkaskólinn sótti um eftirgjöf á láni, var lánsuppgjöfin samþykt með því skilyrði, að skólinn yrði hjeraðseign framvegis. En þar eru nokkrir menn, sem hafa gengist fyrir því að halda skólanum uppi. Jeg veit ekki annað en að skólinn hafi fengið þessa eftirgjöf, og hafi stjórnin með því litið svo á, að Alþingisskilyrðinu væri fullnægt, þótt þarna standi nokkrir menn fyrir. Og því frekar ætti þetta þó að gilda um Laugaskólann, þar sem sýslunefndin stendur þarna á bak við með því að staðfesta reglugerðina og taka lán handa skólanum.

Jeg vil nú draga þetta saman. Sýslunefnd Þingeyinga hefir fyrst og fremst samþykt reglugerð fyrir skólann. Í öðru lagi kýs hún menn í stjórn skólans. Í þriðja lagi hefir sýslunefndin tekið lán, 25 þús. kr., fyrir skólann. Í fjórða lagi veitir hún honum rekstrarstyrk árlega. Þegar þetta er athugað, þá finst mjer það muni vera fáir, — aðrir en máske hv. þm. Ak., — sem geti lengur verið í vafa um, hvernig eignarumráðum skólans er háttað. Hefi jeg nú að minni hyggju slegið niður þessar dylgjur, sem hv. þm. var að fara með í gær viðvíkjandi fjárhagsástandi skólans. Fyrir Alþingi hafa legið skýrslur bæði frá í fyrra og í ár um allan kostnað við skólann og fjárlagsástæður hans; og vænti jeg, að hv. þm. hafi meira og minna kynt sjer þau plögg. Háttv. þm. Ak. mun hafa sagt í ræðu sinni, að ekki hafi verið lagt fram á móti ríkissjóðsstyrk nema 27 þús. kr. annarsstaðar frá. Er það ekki rjett? (BL: Jú). En þetta er rangt. Hjeraðsbúar hafa lagt fram og fengið lánað á ábyrgð sýslunnar 62228 kr. Af þessu eru vitanlega 25 þús. kr. söfnunarsjóðslán, sem sýslan hefir tekið fyrir skólann, en þó það væri dregið frá, sem jeg tel órjett, eru samt eftir 37228 kr., sem beinlínis hefir verið safnað og lagt fram — eða 10 þús. kr. meira en þm. sagði. Jeg held, að þetta söfnunarsjóðslán, sem lánað er til 20 ára og afborgast á þeim tíma, hljóti að skoðast sem fulltryggilegt framlag frá hjeraðinu, þó að það sje þannig fengið. Það er tekið á ábyrgð þeirra, sem hafa komið skólanum upp og halda honum uppi, og þótt játa megi, að æskilegra hefði verið að alt fjeð hefði legið fyrir áður en rekstur skólans byrjaði, munu flestir telja, að sýslufjelagið, með bakábyrgð margra manna, muni fulltryggur aðili þessa máls.

Jeg vil geta þess að endingu, að þótt það hafi vitanlega kostað mikið erfiði að safna fje til byggingar skólans, þá er nú svo komið, að þarna er risið upp hið ágætasta skólahús, sem meðal annars er eingöngu hitað upp með laugavatni, og gefur þannig góðar vonir um ódýran rekstur skólans og hollustuhætti. Þetta hefir meðal annars tekist fyrir góðan skilning Alþingis á þessu áhuga- og nauðsynjamáli Þingeyinga, enda má jeg líka fullyrða, að þeir eru alment mjög ánægðir og þakklátir um úrslit málsins og telja Laugaskólann hjeraðssóma og bera til hans lið besta traust um að honum takist að efla menning og þroska alþýðunnar á hollan og þjóðlegan hátt í framtíðinni. Það eru ekki nema örfáar þröngsýnar sálir, sem sýna skólanum andúð, ýmist af óvild til alþýðumentunarinnar yfir höfuð, eða þá að þeir geta ekki hugsað sjer annað blessunarríkara en að mentunin sje sótt til kaupstaðanna, og þá sjerstaklega til Reykjavíkur.

Laugaskólanum er sjerstaklega komið upp í því augnamiði, að þar starfi hollur og þroskandi alþýðuskóli, er hefði rætur sínar í þjóðlegri og trúrri sveitamenningu. Það eru líka góðar horfur á að svo verði, og gefur þetta fyrsta skólaár Laugaskólans bestu vonir um, að þessu augnamiði verði náð: aðsókn svo mikil, að skólinn er fullskipaður, eða fullir 50 unglingar, sem stunda þar nám. Skólahúsið reynst ágætlega. Og skólastjórn og skólalífið þannig, að þeir, sem hlut eiga að máli, eru sjerstaklega ánægðir yfir því og gera sjer vonir um, að þaðan berist hollir straumar vaxandi menningar út um sveitirnar.

Jeg sje svo ekki ástæðu t.il að fjölyrða frekar um þetta. Jeg hefi viljað skýra frá fyrirkomulagi skólans, af því mjer er það betur kunnugt en ýmsum hv. þm. öðrum, og má þá jafnhliða leiðrjetta mishermi það, er kom fram í ræðu hv. þm. Ak. (BL).