19.04.1926
Efri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1658 í B-deild Alþingistíðinda. (1281)

33. mál, húsaleiga í Reykjavík

Jónas Jónsson:

Jeg hefði getað sagt fáein orð um þetta mál við 2. umr., en gerði það þó ekki; hinsvegar vil jeg gera grein fyrir atkvæði mínu um leið og frv. verður nú að lögum. Er þá fyrst að segja, að mjer finst þetta varasamt spor, sem Alþingi er að stíga með afnámi húsaleigulaganna. Jeg hefi ekki greitt atkvæði með frv., og mun heldur ekki ljá fylgi mitt til þess, að frv. verði nú að lögum. Jeg álít, að hætt sje við, að samþykt frv. leiði af sjer mikið rask hjer í Reykjavík, og að ganga megi út frá, að með afnámi húsaleigulaganna verði fjöldi fólks í vandræðum, sem hefir þó haft þak yfir höfuðið í skjóli þeirra. Enda mun nokkurn veginn víst, að húsaleigan verður óviðráðanlegri eftir en áður.

Á hinn bóginn skal þó játað, að það er ekki auðvelt fyrir Alþingi að hafa vit fyrir bæjarstjórn Reykjavíkur, sem þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefir ekki sýnt þann manndóm að taka í málið eins og þyrfti. Af þessum ástæðum viðurkenni jeg, að þeir, sem vilja afnema lögin, hafi nokkuð til síns máls, því bæjarstjórn hefir ekkert það gert í málinu, sem Alþingi ber sjerstök skylda til að taka tillit til.

Hinsvegar er ekki að vænta, að þeir, sem sjá ólánið fyrir, geti greitt atkv. með afnámi húsaleigulaganna.