08.04.1926
Neðri deild: 48. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1662 í B-deild Alþingistíðinda. (1287)

93. mál, skipulag kauptúna og sjávarþorpa

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það er rjett hermt, að frv. þetta hefir hv. allshn. flutt eftir minni beiðni. Og ástæðan til þess, að jeg hefi óskað eftir þessum breytingum á lögunum, er sú, að skipulagsnefnd hefir kvartað undan því, að stundum sje ekki farið eftir fyrirskipunum þeim, er hún hefir gert, og þykist hún ekki geta við það unað. Mjer finst ekki nema eðlilegt, að skipulagsnefndin, sem kostuð er af ríkissjóði, þoli illa, að hún sje að vettugi virt og starf hennar ónýtt og fótum troðið. Þetta er þá aðalástæðan fyrir því, að frv. er fram borið, og tel jeg hana fyllilega á rökum bygða.

En út af því, sem háttv. frsm. (PO) beindi til mín um starf nefndarinnar, þá er það satt, að uppdráttum hennar seinkar, og liggja til þess þær ástæður, sem hann nefndi: fje til framkvæmdanna veitt af skornum skamti, og maðurinn, sem endanlega gerir uppdrættina, hlaðinn störfum fyrir landið. En á meðan það er í lögum, að bæjarstjórnir og hreppsnefndir kauptúna megi snúa sjer til skipulagsnefndar um fyrirkomulag á staðnum, þá verður erfitt að neita þeim um uppmælingar í kauptúnum og sjávarþorpum, sem óska þeirra. Byrjunin er þó altaf sú, að framkvæma mælingarnar, því að á þeim byggjast svo uppdrættirnir. En um þá sjer hún ekki, annað en leggja gögnin til, því aðrir taka þar við af henni og fullgera uppdrættina. Jeg er því þeirrar skoðunar, að það mundi reynast óvinsælt, ef horfið yrði að því ráði um stund að neita um að byrja á nýjum mælingum. Það getur ekki hjá því farið, að hafa verður fastan mann, sem aðallega hefir framkvæmdir þessara mála; þess vegna þótti mjer leitt, að hv. fjvn. skyldi leggja til, að styrkur til þessa sje færður niður. Mjer er ljóst, að hann má ekki lægri vera en eins og hann var í frv. stjórnarinnar.

Jeg tók það fram við 2. umr. fjárlagafrv. og árjetta það nú, að þar sem lögin heimta, að starf þetta sje unnið, þá verð jeg að skoða fjárveitinguna sem áætlunarlið, sem gera má ráð fyrir, að fari fram úr áætlun.