10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

1. mál, fjárlög 1927

Björn Líndal:

Jeg bjóst satt að segja ekki við að þurfa að standa upp aftur, enda geri jeg það ekki til þess, að jeg ætli að taka neitt af því aftur, er jeg sagði í fyrri ræðu minni. Hinsvegar vil jeg mótmæla því, sem kom fram í ræðu hv. þm. S.-Þ. (IngB), að jeg hefði farið ófrægjandi orðum um alþýðuskóla Þingeyinga, því það er ósatt. Jeg tel það ekki að ófrægja skólann, þótt jeg segði sögu hans eins og jeg vissi hana rjettasta, eða þó að jeg talaði aðeins um undirbúning málsins og um byggingu skólans, enda mintist jeg ekki einu orði á rekstur hans eða hvernig kenslunni í skólanum væri komið fyrir.

En það verð jeg að segja, að lítið græddi jeg á ræðu háttv. þm. S-Þ. og jafnófróður er jeg eftir sem áður um það, hver eigi skólann. Nú stendur svo á hjer, að það fje, sem runnið hefir til skólans, er afturkræft, og að þeir, sem lánað hafa fje til byggingarinnar, geta gengið að skólanum.

Þess vegna þykir mjer hart, að þessi hv. þm., sem til skamms tíma hefir átt sæti í sýslunefnd Suður-Þingeyinga og ætti að vera þessu máli vel kunnugur, skuli gefa í skyn, að sýslunefndin eða hjeraðið eigi skólann, því það getur ekki verið rjett.

Jeg vil aðeins benda á eina ástæðu því til sönnunar, hve fjarri öllum sanni það er, að sýslan eigi skólann. Hún heimtar bakábyrgð einstakra manna til tryggingar láni því, er hún tók að sjer að ábyrgjast fyrir skólann. Það hefði hún ekki gert, hefði hún sjálf átt skólann.

Það sýnir sig, að þetta mál er botnlaus hrærigrautur frá upphafi til enda og þeim síst til sóma, sem hrundið hafa því á veg.

Það verður ekki hrakið, að enn er það óupplýst með öllu, hver eigi skólann, eins og hitt er líka víst, að þeir, sem komu honum á stofn, hafa ekki fullnægt þeim skilyrðum, sem sett voru fyrir fjárveitingu þeirri, er ríkissjóður lagði honum; enda ekki fyrir sjeð, nema gengið verði að skólanum hvenær sem er til lúkningar skuldum, sem á honum hvíla.

Jeg vildi, með því að minnast á þetta skólamál áðan, segja sanna sögu þess, því hún er að mínu viti sannarlega þess verð, að henni sje á lofti haldið.