17.03.1926
Efri deild: 30. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1669 í B-deild Alþingistíðinda. (1306)

75. mál, sala á kirkjujörðinni Snæringsstöðum í Vatnsdal

Flm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg ætla ekki að halda langa ræðu fyrir flutningi þessa litla frv., því að ástæðurnar fyrir því eru að mestu teknar fram í greinargerð frv. Hreppsnefnd Áshrepps er það talsvert mikið áhugamál að geta fengið þessa jörð keypta, þetta niðurnídda smábýli, til þess að geta bætt þar og prýtt og bygt þar fyrir barnaskóla hreppsins.

Eins og drepið er á í greinargerð frv., hafa Snæringsstaðir ekki verið bygðir sjer síðan Undirfell var lagt niður sem prestssetur, eða yfir 20 ár, heldur bygðir með heimajörðinni, en sú jörð er nú ekki lengur eign ríkissjóðs. Engin jarðarhús eru á Snæringsstöðum.

Jeg vænti nú þess, að hv. deild líti á þetta mál með fullri sanngirni og sýni frv. þann velvilja að leyfa því að ganga fram. Það mun þykja viðeigandi, að þessu frv. sem öðrum, þótt lítið sje og óbrotið, sje vísað til nefndar, og þótt vanalegt sje, að mál þessu lík fari til allshn., held jeg, að í þessu tilfelli sje eins heppilegt, að málið fari til mentmn. Sú nefnd mun hafa lítið að gera og mjer finst, að það gæti gjarnan farið til hennar. Þó vil jeg ekki gera það að neinu kappsmáli, og getur hv. deild ákveðið annað, ef henni svo líst.