10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

1. mál, fjárlög 1927

Ingólfur Bjarnarson:

Hv. þm. Ak. (BL) vill ekki kannast við, að hann hafi farið ófrægingarorðum um Laugaskólann. Ber það að skilja svo að sjálfsögðu, að hann hafi ekki aflað sjer það, og þykir mjer að vísu vænt um. En jeg vil geta þess, að nokkrir hv. þm., sem hlustuðu á ræðu hans í gær, sögðu mjer, að hún hefði verið hörð árás á Laugaskólann. Hafa þeir því áreiðanlega skilið ræðuna á annan veg en hann kveðst hafa ætlast til. En þegar þess er gætt, að aðalefni ræðu hans var að tortryggja fjármálahlið skólans, og í sambandi við það farið rangt með tölur, þar sem hann taldi framlög hjeraðsins stórum minni en rjett var, eða 27 þús. kr. — þá get jeg naumast annað sjeð en að rjettmætt hafi verið að segja, að hann hefði farið ófrægjandi orðum um skólann. Og ekki síður, þegar athugað er, að þessi umsögn hans um skólann kom fram alveg tilefnislaust, því eins og kunnugt er, liggur skólinn og rekstur hans alls ekki fyrir til umræðu.

Hv. þm. Ak. heldur því fram enn, að jeg hefði í fyrri ræðu minni engar upplýsingar gefið um aðalatriði málsins og ekki svarað því, sem hann spurði um, sem sje það, hver ætti skólann. Þetta segir hann, að sje jafnóvíst enn. Ja, hann um það, hvort hann skilur mælt mál eða ekki. Jeg þóttist skýra það fullgreinilega, að skólinn hlyti að vera hjeraðseign, þar sem sýslunefndin hefði í höfuðatriðum staðið að málum hans, svo sem um samning reglugerðar, skipun í stjórn hans, sjeð um lántöku til hans og veitt honum rekstrarstyrk ásamt ýmsu fleira, sem sýslunefndin hefði látið til sín taka skólanum til framkvæmdar.

Þá vildi sami hv. þm. (BL) enn gera lántöku handa skólanum að mikilli grýlu og talaði um þá hættu, sem stafað gæti af því að fje þetta „væri afturkræft“, eða eitthvað því um líkt. Jeg satt að segja skildi ekki vel, hvað hann var að fara. En hinsvegar get jeg með engu móti sjeð, hvaða hætta ætti að geta verið samfara þessari lántöku fyrir skólann úr söfnunarsjóði — þessum 25 þús. kr., sem endurgreiðast eiga á næstu 20 árum, en eru lánaðar með góðum vaxtakjörum. Og lán þetta hefir sýslusjóður tekið með stuðningi og bakábyrgð 20 manna, sem með því sýna, að þeir bera fult traust til skólans, enda má nærri geta, að sýslan hefði aldrei tekið að sjer þetta lán, liti hún ekki björtum augum á framtíðar- og fjárhagshorfur skólans. Jeg verð því fast og ákveðið að halda því fram, að af þessu láni stafi engin hætta eins og um hnútana er búið.

Læt jeg svo máli mínu lokið og sje ekki ástæðu til að tefja umr. með því að þvæla um mál, sem ekki liggur fyrir til umræðu.