21.04.1926
Neðri deild: 59. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1672 í B-deild Alþingistíðinda. (1315)

75. mál, sala á kirkjujörðinni Snæringsstöðum í Vatnsdal

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Nefndin hefir orðið sammála um að mæla með því, að þetta frv. verði samþykt. Ástæðurnar fyrir því eru teknar fram í greinargerð, sem frv. fylgir, og er engu við það að bæta. Eins og hv. þdm. sjá, þá fer frv. fram á það, að Snæringsstaðir sjeu seldir Áshreppi, handa barnaskóla hreppsins, sem á að byggja þar. En það verður að telja nauðsynlegt fyrir hverja sveit að eiga það land, sem skóli hennar er reistur á. Það var mál fyrir þinginu í fyrra, sem sýndi, að það getur valdið óþægindum, ef ekki er vel um slíkt búið. Jeg skal taka það fram, að það er upplýst í þessu máli, að ábúandi á ekki forkaupsrjett á jörð þessari, þar sem sýslunefnd hefir látið í ljós, að jörð þessi væri heppileg til skólaseturs. Þegar ábúandinn, sem jafnframt er ábúandi á Undirfelli, fór fram á að fá báðar þessar jarðir keyptar, þá hafði sýslunefnd ekki á móti sölu Undifells, en gerði þessa aths. um Snæringsstaði. Það eru því tilmæli nefndarinnar, að frv. verði samþykt óbreytt.