10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

1. mál, fjárlög 1927

Björn Líndal:

Það er leiðinlegt að þurfa að deila við hv. þm. S.-Þ. (IngB) um þetta mál, sem hann er að reyna að verja, en kýs þó að fara undan í flæmingi og hliðrar sjer hjá að svara því, sem um er spurt.

Jeg neita því algerlega, að jeg hafi á nokkurn hátt verið að dylgja um fjárhag skólans nje hallast á kenslufyrirkomulagið eða skólastjórnina. Jeg hefi sagt hispurslaust skoðun mína á fjárreiðum hans, en ekkert minst á kensluna. En úr því að hv. þm. fór að minnast á hana, þá vil jeg það eitt um hana segja að þessu sinni, að sumt, sem þar er innrætt unglingum, eru ekki óþarflega þjóðleg eða gagnleg fræði. Aðalatriðið í þessu máli er það, að jeg tel alt annað að leggja fram fje, sem ekki er afturkræft, eða leggja fram fje að láni. Þess vegna er það, að jeg spyr enn: Hver er það, sem á þennan skóla? Hv. þm. S.-Þ. hefir ekki svarað því; hann hefir hopað á hæli og farið undan í flæmingi, svo ekkert er á svari hans að byggja. Jeg neita því harðlega, að Suður-Þingeyjarsýsla hafi tekið að sjer allan veg og vanda skólans, eins og helst var að fá út úr þessu loðna og óákveðna svari hv. þm. S.-Þ. Sýslunefndin hefir tekið á sig skuldbindingar vegna skólans, á þann hátt, að augljóst er, að hún telur hann ekki sína eign. Þá er spurningin sú: Hvernig hefir hv. þm. S.-Þ. hugsað sjer þessa skuld borgaða? Eru það þessir 20 menn, sem standa í bakábyrgðinni, eða er það sýslusjóður; sem á að taka það á sig?

Jeg vildi gjarnan fá góð og greið svör um það, því skólinn hefir ekki borið sig svo vel, það sem af er, að vænta megi hagnaðar af rekstri hans, enda væri það blátt áfram prettur gagnvart öllum þeim, sem lagt hafa fje til skólans, að græða fje á rekstri hans til þess að borga stofnkostnaðinn. Ef jeg fæ ekki svar við þessu, tel jeg, að háttv. þm. S.-Þ. hafi til lítils gagns talað í þessu máli, og alt þá í sömu þoku og hrærigraut um eigendur skólans og verið hefir.