10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

1. mál, fjárlög 1927

Atvinnumálaráðherra (MG):

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) beindi til mín nokkrum spurningum út af útvarpinu. Hann spurði m. a., hvernig á því stæði, að sala á móttökutækjum væri bundin sjerstöku leyfi, sem yrði að fá brjef fyrir hjá landssímastjóra. Ástæðan til þessa er sú, að það þótti sjálfsagt að reyna að fyrirbyggja, að menn notuðu tæki, sem ekkert stofngjald hefði verið greitt af. Þetta eru því tryggingarákvæði fyrir sjerleyfishafa. Erlendis hefir oft farið svo, að það hefir verið fjöldi móttökutækja í notkun án þess að nokkurt gjald hafi náðst af þeim. Meira að segja, það hafa sumstaðar erlendis orðið svo mikil brögð að þessu, að það hefir orðið að loka útvarpsstöðvunum, vegna þess að af meiri hluta móttökutækjanna hefir hvorki náðst stofngjald eða árgjald. Það er ekki hægt að koma í veg fyrir, að hvaða tæki sem eru nái í það, sem varpað er út, ef menn vilja koma sjer hjá því að greiða útvarpsstöðvunum lögboðin gjöld, eða hafa upp á, hvar þessi tæki eru. Þessi hætta er engu minni hjer á landi, nema síður sje.

Þá spurði hv. þm. (JBald), með hvaða heimild sú kvöð væri lögð á, að stofngjald skuli einnig greiða af hlutum í móttökutæki, þó ekki sje keypt heilt tæki. Jeg get svarað þessu með því, að jeg álít, að í því meira felist einnig það minna. Ef heimild er til að leggja stofngjald á heil tæki, þá er líka heimild til að leggja sama háttar gjald á hluta úr tækjunum. Þessi ákvæði eiga við það, ef menn vilja kaupa sjer hluti til tækjanna og setja þau svo sjálfir saman, og er þetta gert til þess að ljetta undir með fátækum mönnum til að eignast tækin, því stofngjaldið verður með þessu móti minna en ef heilt tæki væri keypt í einu.

Jeg get ímyndað mjer, að hv. þm. (JBald) hafi spurt um þetta vegna þess, að honum hafi þótt gjöldin vera há. En það var engin önnur leið fær en hafa gjöldin há, ef nokkur átti að fást til að taka þetta sjerleyfi, og það var ekki hægt að fá þetta ódýrara. Þó var sá varnagli sleginn við þessu, að ef fjelagjð græðir meira en ríkisstjórnin telur vera hæfilegt, má lækka öll gjöldin. Mjer er það áhugamál, að hægt verði að koma þessu útvarpi á fót, því jeg tel víst, að það eigi mikið erindi hingað til lands. Þó tel jeg líklegt, að tiltölulega fáir verði til að fá sjer þessi tæki fyr en góð reynsla er fengin um það, hvernig útvarpsstöðin reynist. En ef ráðast á í þetta, verður að vera talsvert fje handbært til þess að kaupa tæki fyrir. Með þessu tel jeg, að nægilega sje svarað spurningum hv. 2. þm. Reykv.

Um þær brtt., sem hjer liggja fyrir, skal jeg ekki verða margorður. Þó vil jeg nefna hjer eina brtt. frá hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), um að auka 7 þús. kr. við það fje, sem ætlað er til markaðsleitar, og skulu þessar 7 þús. kr. ganga til ákveðins manns sem ferðastyrkur til Norður-Afríku og Balkanlandanna, til þess að athuga þar markaðshorfur fyrir ísl. fisk. Það er rjett, sem þessi háttv. þm. sagði, að erindi um þetta kom fyrir sjútvn., en hún klofnaði um málið, urðu þar 3 á móti, en 2 með þessu, eftir því, sem mjer hefir skilist á svari nefndarinnar við þessu. Jeg hefi sagt þessum manni, að jeg teldi ekki fært að veita honum þennan styrk á meðan við höfum dýran mann í okkar erindum þarna suður frá, í nágrenni við þau lönd, sem nefnd voru. Ef þess yrði talin þörf að leita fyrir sjer um markað sunnan eða austan Miðjarðarhafsins, mætti láta þann erindreka, sem við höfum nú þarna, gera það. Pjetur Ólafsson konsúll hefir einnig fundið mig að máli og spurt um, hvort hann ætti ekki að fara til Balkanlandanna í þessum erindum, en jeg svaraði því, að jeg teldi það ekki fært, við gætum ekki varið fje til þess, er íslenskur umboðsmaður væri þarna suður frá í nágrenni við þessi lönd.

Jeg dreg alls ekki í efa, að maður þessi, sem um styrk þennan sækir, sje eins og háttv. 1. þm. S.-M. segir vel fær til þessa starfs, t. d. að hann uppfylli þau skilyrði, sem verður að telja nauðsynleg til þessa. þ. e. að vera vel fær í þeim málum, sem þarna koma til greina, — en jeg þekki manninn ekkert persónulega. Samt treysti jeg mjer ekki til að greiða atkvæði með þessari brtt.

Þá er ein brtt. á þskj. 329, frá háttv. 2. þm. Skagf. (JS) og hv. þm. Borgf. (PO), um aðstoðarmann í efnarannsóknarstofu ríkisins, og samkvæmt brtt. á að einskorða fjárveitinguna við það, að maðurinn hafi sjerþekkingu í landbúnaðarefnafræði. Jeg veit ekki, hvort hægt er sem stendur að fá mann, sem uppfyllir þessi skilyrði, en maðurinn verður líka að vera fær í algengri efnafræði. En þarna vantar aðstoðarmann, og þeim, sem hefir lært almenna efnafræði, veitir mjög ljett að setja sig inn í alt það, sem að landbúnaði lýtur í efnafræðinni. Jeg tel því ekki heppilegt að einskorða þessa fjárveitingu við landbúnaðarefnafræði, en það mætti þó gera þessum manni að skyldu að afla sjer frekari þekkingar á þessu sviði. En eins og störfum er nú háttað í efnarannsóknarstofunni, gengur lítið undan af því, sem henni er ætlað að leysa af hendi, þar sem þar er aðeins einn maður, sem verður í öllu að snúast, og er því ekki að vænta, að hann komi miklu í verk. Meðan nauðsynin er jafnknýjandi á að fá aukna starfskrafta í rannsóknarstofuna, sje jeg ekki, að hægt sje að bíða eftir manni, sem geti uppfylt þau skilyrði, sem brtt. ræðir um. Jeg vil því heldur óska, að brtt. verði ekki samþykt, en þetta ákvæði verði látið standa eins og það er í frv., en þó má vel taka tillit til þessara óska, sem koma fram í brtt.