03.03.1926
Efri deild: 18. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1688 í B-deild Alþingistíðinda. (1366)

46. mál, skattur af lóðum og húsum í Siglufjarðarkaupstað

Flm. (Einar Árnason):

Jeg þarf ekki að tala langt mál um þetta frv., bæði vegna þess, að það er kunnugt hjer frá síðasta þingi, og í öðru lagi vegna þess, að frv. og greinargerð þess skýrir sig sjálft.

Eins og tekið er fram í greinargerðinni, er frv. fram komið vegna þess, að bæjarsjóður Siglufjarðarkaupstaðar hefir haft mikinn kostnað af byggingu sjóvarnargarðsins þar. Bæjarsjóður lagði til helming byggingarfjárins, en ríkissjóður hinn helminginn. Bæjarsjóður varð að taka lán í þessu skyni og bæjarstjórnin hefir út af því ákveðið að fara þess á leit, að Alþingi leyfði henni að leggja skatt á lóðir og hús, sem vernduð eru með varnargarðinum. Þetta frv. er að mestu leyti samhljóða frv. um þetta efni í fyrra. En í þessu frv. er ákveðið, að þær tekjur, sem bæjarsjóður fær með þessu móti, gangi til þess að greiða vexti og afborganir af láninu og til viðhalds garðinum að sínum hluta. Nú er ómögulegt að segja, hvað mikið fer til viðhaldsins. En fari svo, að ekki þurfi á skatti að halda, þegar búið er að greiða lánið, er gert ráð fyrir, að hann falli niður.

Frv., sem jeg flutti á síðasta þingi, var lagt fyrir allshn. þessarar hv. deildar, og nefndin skilaði áliti og gerði brtt. við frv., sem hjer eru allar teknar til greina, nema ein. Allshn. vildi setja það að skilyrði, að ef frv. yrði samþykt, tæki bærinn að sjer alt viðhald garðsins í framtíðinni. Þegar ráðist var í byggingu garðsins, var það samningsmál milli Alþingis og Siglufjarðarkaupstaðar, að ríkissjóður kostaði bygginguna að hálfu, sem og viðhald eftir sömu reglum. Siglufjarðarkaupstaður hefir lagt út í kostnaðinn í því trausti, að þessir samningar hjeldust, enda er Siglufjarðareyrin ríkissjóðseign. Kaupstaðurinn hefir sótt, um kaup á henni til þingsins, en þingið hefir neitað, og tel jeg það mjög óheppilegt. Það er því sanngjarnast, að kostnaðinum sje skift þannig, að bæjarsjóðurinn borgi byggingu og viðhald að hálfu. Það gæti hugsast, að svo færi, að garðurinn eyðilegðist alveg. Það eru til ótal dæmi um slíkt, en óhugsandi er, að bærinn einn út af fyrir sig geti bygt garðinn upp að nýju, enda ekki sanngjörn krafa, þar sem ríkissjóður á landið. Með því að setja nú samskonar skilyrði inn í frv. og allshn. vildi setja í fyrra, yrði afleiðingin sú, að Siglufirði yrði fyrirmunað að fá þennan nýja tekjustofn, en hinsvegar yrði ríkissjóður ekkert betur settur með viðhaldið. Því ekki get jeg hugsað mjer, að Alþingi fari að neyða frv. upp á Siglufjarðarkaupstað með þessari breytingu. (JóhJóh: Frv. breytir samningunum). Það er einmitt það, sem jeg er að segja að verði, ef þetta skilyrði verður sett inn. Annars er samningum venjulega ekki breytt, nema báðir aðiljar komi þar til.

Jeg hefi gert frv. aðgengilegra fyrir nefndina, með því að setja inn það ákvæði, að skattinum skuli eingöngu varið til þess að greiða kostnað við garðinn. Jeg held þá, að jeg hafi skýrt þetta mál nokkurnveginn og þurfi ekki á þessu stigi þess að tala meira um það, en jeg vænti svo góðs af hv. allshn., að hún sæki það ekki fast, að þessi tillaga hennar frá í fyrra verði sett inn í frv.