08.04.1926
Efri deild: 45. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (1368)

46. mál, skattur af lóðum og húsum í Siglufjarðarkaupstað

Frsm. (Eggert Pálsson):

Þetta frv. er ekki nýr gestur hjer. Það kom fram á síðasta þingi og var þá vísað til allsherjarnefndar. Skilaði hún nál., en svo var ekki lengra farið.

Ástæðan til þess, að frv. dagaði uppi þá, mun hafa verið ein till. frá allshn., sem minst er á í greinargerð frv. nú. Sú till. gekk út á, að bæjarsjóður Siglufjarðarkaupstaðar tæki að sjer að öllu leyti viðhald sjóvarnargarðsins frá þeim tíma, er lögin gengin í gildi. Í greinargerð frv., sem þá lá fyrir, var tekið fram, að kaupstaðurinn hefði tekið að sjer viðhald garðsins. En þetta stafaði af prentvillu, að sagt er. Var ætlast til, að bærinn kostaði viðhaldið að helmingi móti ríkissjóði. Allshn. hefir því ekki haldið fast við skoðun sína frá í fyrra í þessu efni.

Að öðru leyti hefir nefndinni þótt ástæða til að bera fram nokkrar brtt. við frv. Í nál. er gerð grein fyrir þeim, og nægir að mestu leyti að vísa til þess.

1. brtt. nefndarinnar er á þá leið, að skattur sje hafður jafn af húsum og lóðum. Þar sem gert er ráð fyrir; að ríkið kosti viðhald garðsins að hálfu leyti, virðist ekki sanngjarnt, að skatturinn á eignum þess sje þyngri, heldur sje jafn skattur á hvorutveggja.

Jeg get búist við, að hv. flm. (EÁ) líki þessi brtt. nefndarinnar miður. Það liggur í hlutarins eðli, að íbúar Siglufjarðar kjósi, að ríkið borgi hlutfallslega meira en bærinn.

Um tölulið c. er ekkert að segja. Það leiðir af sjálfu sjer, að 2. tölul. fellur niður, ef fyrri brtt. nefndarinnar er samþykt.

Um d-liðinn er sama að segja og kom fram í frv. um skatt í Vestmannaeyjum, að minni upphæð en 100 kr. skuli ekki tekin til greina. Nefndinni þótti rjett að greina sundur skattskyldu húseigenda og lóðaleigjenda. Einnig þótti henni nægilegt að ákveða innheimtulaun 2%, þar sem lögtaksrjettur fylgir.

Nefndin leggur til, að frv. sje samþ. með þeim breytingum, sem hún ber fram.