08.04.1926
Efri deild: 45. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1691 í B-deild Alþingistíðinda. (1369)

46. mál, skattur af lóðum og húsum í Siglufjarðarkaupstað

Einar Árnason:

Frsm. nefndarinnar (EP) hefir skýrt frá breytingum þeim, sem hún flytur við frv. Aðalbreytingin er sú, að skattur skuli ákveðinn jafn af húsum og lóðum. Nefndin virðist byggja á því, að óeðlilegt sje, að ríkið borgi hærri skatt af sínum eignum en einstaklingar. Þetta getur valdið misskilningi. Það er ekki ætlast til, að ríkið borgi skattinn, heldur þeir einstaklingar, sem fengið hafa lóðirnar leigðar.

Þær lóðir, sem liggja að sjó, hafa upphaflega verið leigðar fyrir lítið gjald. En síðan hafa lóðarjettindin gengið kaupum og sölum, og nú er leigan orðin mjög há og lóðirnar eftirsóttar. Leigan er nú orðin svo há, að það skiftir raunar litlu máli, hvort skatturinn, sem á lóðunum hvílir, er 4 eða 6 af þúsundi. Af því að lóðirnar eru mikils virði, setja leigjendur þeirra ekki fyrir sig, þó að þeir verði að borga dálítinn skatt. Jeg hefði því talið rjettara, að það hefði verið látið standa eins og var í frv. viðvíkjandi lóðum, sem 1iggja að sjó. Að öðru leyti hefi jeg ekki ástæðu til þess að vera sjerstaklega óánægður við hv. nefnd fyrir meðferð hennar á frv. T. d. að því er snertir lóðir, sem ekki liggja að sjó, — þar sje jeg ekkert á móti því, að gjaldið sje jafnt á húsum og lóðum.

Sama er að segja um 2. og 3. brtt nefndarinnar, að jeg fellst fyllilega á þær t. d., að það sje rjett, að eigendur húsa skuli greiða skattinn. en ekki leigjendur.

Svo eru innheimtulaunin. Nefndin færir þau niður í 2% úr 4. Það finst mjer ekki skifta neinu máli, og get jeg alveg fallist á þá breytingu. Annars er það d-liðurinn í 1. brtt., sem mjer sýnist vera eitthvað gallaður, að því leyti, að ekki virðist vera rjett vitnað í frv. Því að sú setning, sem tekin er upp í brtt. undir tölulið d., er ekki til í þeim tölulið, sem númerið á við. Ef til vill kann þetta að vera prentvilla. En af því að jeg er svo kunnugur málinu, þá get jeg skilið svona hjer um bil, hvað nefndin á við.

Jeg hefi svo ekki ástæðu til að segja fleira um þetta mál. Jeg geri þessar brtt. yfir höfuð ekki að kappsmáli. En jeg tel þó rjettara, eins og jeg tók fram áður, að ákvæði frv. um lóðir, sem liggja að sjó, hefði fengið að standa.