10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

1. mál, fjárlög 1927

Jón Sigurðsson:

Háttv. frsm. fjvn., hv. þm. Str.(TrÞ), sagði í ræðu sinni í dag, að sjer kæmi það á óvart, að jeg fyndi köllun hjá mjer til að gera grein fyrir afstöðu minni til brtt. fjvn.

Í ræðu minni áðan skýrði jeg sjerstaklega frá því, hvers vegna jeg gerði þetta, og sagði, að við 2. umr. hefði jeg ekki talið ástæðu til að sýna það á annan hátt en með atkvæði mínu, þó að sitthvað bæri á milli. En þegar svo er komið, að jeg sem nefndarmaður hlýt að greiða atkvæði á móti 2/3 af þeirri fjárupphæð, er fjvn. leggur til að hækka útgjöld ríkissjóðs v ið þessa umr., þá tel jeg það skyldu mína að gera grein fyrir því, hvers vegna jeg er í andstöðu við nefndina, og jeg fæ ekki sjeð, að neinn þurfi að undrast yfir því, þó að jeg sem fjvn.-maður komi með slíka greinargerð.

Þá sagði hv. frsm. (TrÞ), að jeg sýnd stefnu Íhaldsflokksins með því að vera á móti brtt. fjvn., en því hefir hæstv. fjrh. (JÞ) svarað, svo að jeg þarf ekki við það að auka. En jeg ætla að segja háttv. þm. Str. það, að jeg hika ekki við, hvorki nú nje endranær, að beita mjer á móti útgjaldatill. og málum, sem hafa stóraukin útgjöld í för með sjer fyrir ríkissjóð, þegar tekjuhallinn á fjárlögunum er orðinn eins mikill og raun er á orðin, og útlit atvinnuveganna er þannig, að lítil von er til, að áætlaðar tekjur í fjárlögunum fáist í ríkissjóð.

Þá virtist mjer að háttv. frsm. væri móðgaður af því að jeg á einum stað nefndi Íhaldsflokkinn í sambandi við afstöðu mína til hækkunar á útgjöldunum og aukningar á tekjuhalla fjárlaganna, og hann lagði mjer í munn, að jeg hefði sagt, að við Íhaldsflokksmennirnir í fjvn. hefðum verið á móti tekjuhækkunum. Þetta sagði jeg ekki, jeg hefi þetta skrifað hjá mjer, sem jeg sagði þá. Jeg sagði, að við íhaldsmenn í fjvn. teldum of langt vera gengið í hækkun teknanna í fjárlögunum, og er það alt annað, og því gat háttv. þm. (TrÞ) algerlega sparað sjer ummæli sín út af þessu.

Hann tók það rjettilega fram, að við vorum þar allir íhaldsmennirnir á móti 50 þús. kr. hækkun á áfengistollinum, og var það út af fyrir sig nóg sönnun orða minna. En úr því að þetta hefir verið gert hjer að umræðuefni, skal jeg geta þess, að okkur þm. S.-Þ. var falið að rannsaka og gera tillögur um tekjuáætlun fjárl.frv. Tillögur þær, er við bárum sameiginlega fram, voru miðlun þann veg, að jeg gekk inn á nokkra hækkun til samkomulags, en þegar við lögðum þær fram í fjvn., þótti stjórnarandstæðingum mikils til of skamt farið í hækkunaráttina, en samflokksmönnum mínum þótti jeg hafa gengið of langt í hækkunaráttina. Jeg hefi því síst sagt of mikið um þetta.

Þá sagði hv. frsm. (TrÞ), að við hefðum greitt atkvæði á móti mestu sparnaðartill. fjvn., og átti hann þar við „tildurherrann“, sem hann nefndi svo. Beindi hann þessum skeytum til mín sjerstaklega og háttv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ). Jeg skal taka það fram, að jeg og hv. þm. Str. (TrÞ) vorum samherjar í þessu máli á undanförnum þingum, þótt nú hafi skilið leiðir. Að leiðir okkar skildu kom af því, að málið horfir nú alt öðruvísi við en áður. Við höfum síðan sendiherraembættið var lagt niður haft ágætismann til að gegna þessum störfum, mann sem var gagnkunnugur öllum störfum embættisins, og mann, sem við báðir treystum mjög vel til að fara með þessi störf fyrir hönd ríkisins. En nú liggur fyrir brjef frá þessum manni, þar sem hann óskar að vera leystur frá þessu starfi; hann treystist ekki lengur til að gegna því vegna heilsubrests og þarfnast hvíldar. Að sjálfsögðu getum við ekki þröngvað honum til þessa starfa, og það því síður, sem hann er danskur embættismaður. Enginn þm. hefir ennþá mælt á móti þessu, og enginn bent, á nokkra aðra leið til þess að skipa þessum málum en þá, sem stjórnin hefir bent á. Þegar þannig er komið, er andstaðan orðin það, sem kallað er að berja höfðinu við steininn. Viðskifti okkar við erlendar þjóðir og ríki eru orðin svo þýðingarmikil fyrir okkur, að við getum ekki verið forystumannsslausir á þessu sviði. Jeg vil þessu til sönnunar aðeins benda á kjöttollsmálið og úrlausn þess, sem áreiðanlega hefir fært bændum þessa lands miljónir króna. Þetta ætti að nægja til þess að gera grein fyrir því, hvers vegna jeg ekki á lengur samleið með háttv. þm. Str. (TrÞ) í þessu máli.

Áður en jeg sest niður vil jeg minnast á brtt., sem við háttv. þm. Borgf. (PO) eigum saman. Sumir hv. þdm. hafa lagst á móti henni, en eftir þeim upplýsingum sem við höfum fengið, gæti hún orðið til mikils gagns fyrir landið. Það hefir þótt á bresta um efnarannsóknastofuna, að hún gæti gert rannsóknir sínar þannig úr garði, að vel væri að því er snertir landbúnaðinn, enda er það von, því að erlendis þurfa efnafræðingar að leggja fyrir sig sjerstakt nám, ef þeir ætla að hafa með höndum rannsóknir fyrir landbúnaðinn. Þess vegna er í mínum augum ekkert óeðlilegt við það, þótt gerðar væru svipaðar kröfur til aðstoðarmanns við efnarannsóknastofuna hjer um sjerþekkingu á þessu sviði. Það er að vísu hugsanlegt, að sá, sem nú er efnafræðingur landsins, geti aflað sjer þessarar sjerþekkingar, og það er alls ekki tilætlan okkar að bregða fæti fyrir hann, heldur hitt, að væri kostur á manni með sjerþekkingn í þessu efni, þá væri hann valinn öðrum fremur.