10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

1. mál, fjárlög 1927

Klemens Jónsson:

Hæstv. fjrh. (JÞ) tók fram í sinni löngu ræðu hjer í dag, að hann þyrfti að leiðrjetta ýmsar skakkar upplýsingar, sem fram hefðu komið um ullartollinn og steinolíumálið.

Jeg þarf líka að leiðrjetta ýmsar skakkar upplýsingar um þessi mál, þ. e. samband þeirra hvort við annað. Á þinginu 1923 kom fram fyrirspurn um steinolíueinkasöluna frá núverandi háttv. 3. þm. Reykv. Hæstv. fjrh. (JÞ) talaði í því máli, og í ræðu, sem hann hjelt þá, sagði hann svo: „Talið er, að hækkun tollsins á íslenskri ull í Bandaríkjunum standi í sambandi við þetta“. Þetta eru hans orð þá, en hann kemur ekki með neinar röksemdir fyrir því, að samband sje á milli hækkunar tollsins og steinolíueinkasölunnar, því orðin „talið er“ er engin rökstuðning, heldur dylgjur blátt út í loftið. Í svari mínu gat jeg þess þá sjerstaklega, að sendiherra Dana í Washington, sem er einhver elsti og þektasti diplomat Dana, segði í brjefi svo um þetta mál, að ef til vill mætti svara kæru um það, að gengið hafi verið fram hjá Bandaríkjunum við steinolíusamninginn á þá leið, að þar sem Bandaríkin hefðu nýlega lagt háan toll á innflutta ull, mætti ef til vill skoða þetta sem „repressalia“ af hendi íslensku stjórnarinnar, að hún gerði steinolíusamninginn við breskt fjelag. Hver maður verður að draga af þessu þá ályktun, að steinolíusamningurinn hafi verið gerður eftir að ullartollurinn var hækkaður í Bandaríkjunum. Það verður ekki skilið öðruvísi. En nú hefir hæstv. fjrh. skýrt frá því, að þetta sje ekki rjett, það hafi ekki verið 1922, sem ullartollurinn var hækkaður, heldur 1923. Þetta er ekkert aðalatriði í málinu. Aðalatriðið er það, hvort nokkurt samband sje milli ullartollsins og steinolíusamningsins. Og jeg get gefið upplýsingar um, að svo er ekki, — ekki þó út frá sömu forsendum og jeg gerði 1923.

Helsta ullarkaupafjelagið í Philadelfia, Tatterfield & Co., sem Samband íslenskra samvinnufjelaga hefir skift við og einnig Garðar Gíslason og kannske fleiri, ritaði Sambandinu brjef 30. jan. 1923, og segir þar svo:

„Gentlemen: — We have been informed by the Government that after the 15th of February Wools vill be assessed at a high rate duty . The only reason for this assessement is the possibility of Iceland sheep having been crossed with merino sheep or sheep of English blood.“

Þ. e. að stjórnin hefir skýrt fjelaginu frá, að ullartollur verði mikið hækkaður eftir 15. febrúar og eina ástæðan til þess sje sú, að íslenskt fje kunni að hafa blandast Merinofje eða fje af ensku kyni.

Þegar Sambandið fjekk brjefið, skrifaði það stjórnarráðinu hinn 3. mars 1923 og bað það um að útvega upplýsingar um það, hvort íslenskt fje hefði blandast Merinofje eða ensku fje. 5. mars sendi stjórnarráðið þetta erindi til dýralæknisins hjer í Reykjavík og sama dag settist hann niður og skrifaði afarlangt mál um þetta efni, heila ritgerð, segir hann sjálfur, og segir, að engin ástæða sje til þess að ætla, að fjeð hafi blandast. Og eins og jeg sagði í fyrradag, þá efast jeg ekki um, að þessi skýrsla og þetta álit dýralæknis hefði ráðið mestu um það, að ullartollinum var afljett í Bandaríkjunum. Og ef nokkrum ber að þakka úrslit þau, sem nú eru orðin, þá er það Sambandið, og ef til vill Garðar Gíslason, og einkum og sjer í lagi dýralæknirinn og stjórnin, þ. e. jeg, sem þá var milliliður.

Jeg hefi nú sannað, að ekkert samband var á milli ullartollsins og steinolíusamninganna, heldur eingöngu ótti um kynblöndun, sem Bandaríkjastjórnin hafði ýmigust á, og jeg vona, að þar með sje sú grýla kveðin niður og að henni skjóti ekki upp aftur.

Jeg á engar brtt. við þennan kafla fjárlaganna fremur en við fyrri kaflann. Mun jeg í flestum atriðum fylgja hv. fjvn., enda hefi jeg gert það á fyrri þingum. En um brtt. frá einstökum þm. verður lið gagnstæða ofan á, því að jeg mun verða á móti þeim flestum, sem til hækkunar horfa.