07.04.1926
Neðri deild: 47. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (1396)

78. mál, notkun bifreiða

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg skal lýsa því yfir, að jeg er ekki á móti því, að tillagan á þskj. 263 verði samþykt, en jeg slæ þann varnagla, að það er ekki hægt um það að segja, hvenær tryggingin kemur til framkvæmda. Hv. frsm. nefndarinnar (JK) er hræddur um, að iðgjöldin verði of há og vill láta tryggja, að þau verði ekki hærri en í nágrannalöndunum. Þetta mun verða tekið til athugunar, en getur vitaskuld seinkað málinu.

Hin leiðu bifreiðarslys koma því miður alstaðar fyrir, og þeir, sem bera ábyrgð á þeim, ef um ábyrgð er að ræða, eru oft þannig efnum búnir, að þar er engar bætur að fá. En með frv. er fyrir þetta bygt, og tryggingarupphæðin er svo há, að sjaldan eru greiddar hjer á landi hærri skaðabætur en þetta. Jeg veit ekki, hvort leitað hefir verið álits bifreiðafjelaganna hjerna. Það er reyndar ekkert afgerandi fyrir mjer, en þetta gæti leitt af sjer hækkun á töxtunum, þó að iðgjöldin sjeu að vísu svo lág, að varla sje um það að ræða.