10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

1. mál, fjárlög 1927

Jón Baldvinsson:

Mjer skildist það á háttv. frsm. fjvn. (TrÞ), að nefndin væri ekki hliðholl till. mínum. Það er orðið svo títt hjá hv. frsm. að segja, að nefndin sje á móti þessu eða hinu, að maður kippir sjer ekki sjerstaklega mikið upp við það. Um eina till. eru þó óbundin atkv., og má víst til að þakka fyrir, hvað lítið sem það nú er, sem kemur af vilorðum frá þessu stórveldi.

Mjer finst það nokkuð ljeleg ástæða hjá nefndinni að bera fyrir sig, að ekki hafi legið fyrir erindi um þetta eða hitt. En jeg álít, að nefndin eigi einmitt aðeins að taka tillit til nauðsynjarinnar og meta hana, en ekki fara eftir því, hvort fyrir henni liggi letraðar beiðnir eða ekki.

Hv. frsm. (TrÞ) mælti á móti flestum till. mínum á þskj. 297, nema einni, sem atkvæði nefndarinnar eru óbundin um.

Nefndin mælti á móti þeirri tillögu okkar þm. N.-Ísf. (JAJ) að veita hreppsfjelögum nokkurn styrk til kaupa á laxa- og silungaseiðum. Tel jeg það hina mestu skammsýni að leggjast á móti fjárveitingu í þessu skyni. Það mun sýna sig, að þessi styrkur, ef til framkvæmda kemur, verður landinu í heild sinni til hagsmuna. Jeg gæti trúað því, að lax yrði ekki lítil útflutningsvara síðar meir, ef kappsamlega væri unnið að því að flytja laxaseiði frá klakstöðvum í þær ár í landinu, sem hann getur þróast í og hefir áður verið. Auðvitað kemur gagnið af þessu ekki strax í ljós, þar sem sagt er, að laxinn sje um 4 ár að vaxa þar til hann hefir náð fullum þroska. — Hv. frsm. fann það að till. okkar hv. þm. N.-Ísf. um styrk til þess að gera Einarsfoss í Laugardalsá gengan laxi og silungi, að ekki lægi fyrir áætlun um hvað verkið kostaði. Hjer er farið fram á 13 kostnaðar, en gert er ráð fyrir, að verkið kosti um 1400 krónur. Hjer er ekki um mikið nje margbreytilegt verk að ræða, þó að setja eigi nokkur skot í foss. Það gæti kostað meira en verkinu nemur að senda verkfræðing til að gera áætlun um kostnað, en hinsvegar ekki hætta á, að neitt fari forgörðum, þó að þessi litli styrkur sje samþyktur.

Þá er till. um styrk til bæjar- og sveitarfjelaga til að koma upp barnaheimilum og gamalmennahælum. Hv. fjvn. ber því við, að engin beiðni hafi legið fyrir. Það er rjett; engin skjöl lágu fyrir um þetta, en þó er till. borin fram að gefnu tilefni. Ísafjarðarkaupstaður hefir komið upp gamalmennahæli og hafði hugsað sjer að nota skemtanaskatt til að standast þann kostnað. En vegna aðgerða löggjafarvaldsins er það ekki hægt, og verður því að taka kostnaðinn með útsvörum. En bæir og sveitir hafa margt með útsvarsfjeð að gera, og má búast við, að svona framkvæmdir verði því látnar sitja á hakanum. Ísafjarðarkaupstaður hefir nú komið upp svona hæli, eins og jeg drap á, og jeg ætlaðist til, að hann nyti fyrstur góðs af þessum styrk.

Ekki þarf að kvarta yfir því að ekki hafi legið fyrir erindi viðvíkjandi næstu till. Erindi hefir legið fyrir frá Sjúkrasamlagi Reykjavíkur. En það vill senda mann út um land í þeim erindum að koma á sambandi milli allra sjúkrasamlaga í landinu. Sjúkrasamlögin vinna mjög í þágu bæjar- og sveitarfjelaga, og er full þörf á að styrkja þau.

Hv. frsm. fjvn. mælti ekki á móti næstu till., um styrk til styrktarsjóðs verkamanna, og kann jeg honum þökk fyrir það. Aftur lagði hæstv. fjrh. á móti þessari till. vegna þess, að sjóðurinn hefði fengið fje sitt vegna opinberrar tilstuðlunar, og auk þess væri hann svo stór, að hann þyrfti ekki meira. Það er rjett, að sjóðurinn var stofnaður af fje, sem lagt var fram sem nokkurskonar sárabætur til verkalýðsins fyrir sölu togaraflotans 1917. Sjóðurinn hefir starfað síðan án þess að njóta nokkurs opinbers styrks. Hæstv. fjrh. telur, að sjóðnum sje ekki fjárvant, en því meira, sem hann hefir undir höndum, því meira getur hann styrkt þá, er fyrir slysum verða eða verða fyrir langvarandi veikindum. Það er svo ástatt nú, að hann getur ekki sint þeim öllum, er styrks þyrftu að njóta úr sjóðnum, og þeir eru víðsvegar af landinu.

Jeg hefi þá lokið að tala fyrir tillögum mínum. Eins og menn muna tók hv. frsm. (ÞórJ) vopn að láni hjá mjer til að berja á járnbrautarburgeisunum Jeg vil nú taka vopnið aftur til þess að berja á fjvn.-burgeisunum. Get jeg varla sett minna upp fyrir að lána þetta vopn en að fjvn. veiti tillögum mínum sinn stuðning.

Þá kem jeg að öðru efni. Hæstv. ráðherrar hafa svarað fyrirspnrnum þeim, er jeg beindi til þeirra fyrir nokkrum dögum. Jeg vildi gjarnan, að þeir væru hjer viðstaddir, því ef til vill vilja þeir skýra nánar einstök atriði eftir að þeir hafa heyrt mál mitt.

Hæstv. fjrh. (JÞ) svaraði í sömu röð og jeg spurði. Hið fyrsta var það, hvers vegna Íslandsbanki hefði ekki lækkað vextina jafnt og Landsbankinn. Hæstv. fjrh. upplýsti, að þessi vaxtalækkun væri fram komin vegna tilstuðlunar stjórnarinnar. Mjer þykir undarlegt, að Íslandsbanki skyldi ekki sjá sjer fært að fara líka að tilmælum stjórnarinnar og lækka vextina jafnt og Landsbankinn. Jeg sje ekki þann mun á aðstöðu bankanna hjer, að Íslandsbanki þurfi að hafa hærri vexti. Hann hefir meginhluta seðlanna frá ríkinu, hann hefir mikinn hluta enska lánsins, og ríkisvaldið hefir hlíft honum við að leysa inn seðlana með gulli. Honum hefir verið veittur margskonar stuðningur, en á móti kemur það, að ríkisvaldið megi ráða yfir bankanum. Jeg kalla það svo, þegar stjórnin ræður tvo af bankastjórunum. Mjer hefir skilist, að sú ráðstöfun væri gerð til þess, að stjórnin gæti ráðið starfsemi bankans í stórum dráttum. Mjer þykir því undarlegt, að bankastjórarnir, þrátt fyrir þessi beinu tilmæli stjórnarinnar, skuli ekki hafa lækkað vextina meir. Jeg er hræddur um, að þessi beinu tilmæli stjórnarinnar hafi ekki verið nógu kröftug, og jeg mælist til þess, að hæstv. stjórn gangi ríkar eftir því, að þessir þjóðkjörnu bankastjórar sýni atvinnuvegum landsins þá sanngirni að lækka vextina, svo að þeir sjeu ekki hærri en hjá Landsbankanum.

Þá svaraði hæstv. fjrh. spurningu minni um enska lánið, hvað stjórnin hefði gert til þess að fá því breytt í annað lán hentugra. Það er nú ekki mikið, sem stjórnin hefir gert. Hæstv. fjrh. segist þó hafa leitað fyrir sjer í þessu efni, en komist að þeirri niðurstöðu, að enginn kostur væri á að innleysa lánið, því að á því hvíldi sú kvöð, að það skyldi ekki greitt fyr en 1932. Það stendur í tilkynningunni um ríkislánið 1921, að það megi borga 1. sept. 1932 eða hvenær sem er þar eftir. Hitt er mönnum ekki ljóst, að ekki sje hægt að greiða það fyrstu tíu árin nema kaupa upp skuldabrjefin. Í skýrslu við Landsbankareikningana 1921 stendur, að lánið megi greiða að 10 árum liðnum með 6 mánaða fyrirvara. Svo kemur þessi setning:

„Sje lánið greitt upp áður en lánstíminn er á enda, endurgreiðast 103 sterlingspund fyrir hvert 100.“

Jeg hefi skilið þetta svo, að lánið mætti greiða upp á 10 fyrstu árunum með því að greiða eitthvað aukreitis. Jeg sje, að í Danmörku hefir verið greitt upp á síðasta ári mjög stórt og óhagstætt lán, sem sú kvöð lá þó á, að ekki mætti greiða það strax, og á þessu hafa Danir hagnast stórkostlega. Mjer dettur í hug af þessu, hvort stjórnin gæti ekki breytt enska láninu í betra horf. En ef til vill hefir verið svo frá því gengið, að það sje ekki hægt, þó peningar sjeu fyrir hendi. Mjer finst hæstv. stjórn hafa helst til lítið gert í þessu máli. Það er hægðarleikur að útvega ríkissjóði tekjur með því að hækka tolla og aðrar álögur. Aðrar leiðir virðast mjer ekki reyndar hjer. En það væri ekki lítilsvert, ef hægt væri að lækka vaxtagreiðslur ríkisins með því að útvega betri lánskjör. Bankarnir rökstyðja sína háu vexti með því, að enska lánið sje fengið með svo illum lánskjörum. Þó er vitanlegt, að það fje er lítill hluti af veltufje bankanna. Mjer þykir stjórnin ekki hafa lagt nóga rækt við þetta mál. Það hefir ekki litla þýðingu fyrir fjárhag ríkisins, og afkomu, hvernig vaxagreiðlum er háttað.

Þá svaraði hæstv. fjrh. fyrirspurn minni um gullið, sem keypt hefir verið af Íslandsbanka. Mjer þótti undarlegt það, sem hann talaði um, að samkomulag hefði orðið milli stjórnarinnar og bankans um greiðsluna, en bankinn þó áskilið sjer rjett til að fá meira með dómi. Stjórnin þurfti ekki á neinu samkomulagi að halda, því að hjer voru skýr lagaákvæði að fara eftir.

Hitt, sem hæstv. fjrh. mintist á, að þingið gæti dregið málið úr höndum dómstólanna, álít jeg alveg óþarft; jeg álít, eins og líka hæstv. ráðh. (JÞ) játaði, að rjettur landsins til að fá gullið við því verði, að 10 kr. í gulli greiðist með 10 kr. í seðlum, sje alveg skýlaus.

Þá kom hæstv. ráðh. (JÞ) að 4. atriðinu, tollgreiðslunum, sbr. lögin um afnám tóbakseinkasölunnar frá 1925. Mig langar til að segja frá því, að í fyrra, þegar þetta mál var hjer til umræðu, var bæði af mjer og öðrum bent á það, að þessi aðferð mundi reynast bæði dýr, erfið í framkvæmd og lítt tryggileg í því augnamiði, sem til var ætlast, og þeir, sem kunnugir voru tollgæslu hjer á landi, vissu vel, að þetta fyrirkomulag var dýrt og ekki fullnægjandi til að koma í veg fyrir tollsvik. Nú hefir hæstv. ráðh. (JÞ) játað, að þetta sje þegar komið í ljós, enda þótt, eins og vænta má, ráðherrann geti ennþá ekki gefið upplýsingar um þetta annarsstaðar frá en hjeðan úr Reykjavík. Hæstv. ráðherra upplýsti, að þetta fyrirkomulag hefði þegar á einum ársfjórðungi kostað hjer í Reykjavík ca. 6 þús. kr., og hann gerði ráð fyrir, að árskostnaðnrinn hjer mundi verða um 20 þús. Það má nú gera ráð fyrir, að tilkostnaðurinn úti um land verði álíka mikill eða máske nokkru meiri en hjer í Reykjavík, og má því áætla kostnaðinn við þessa tollgæsluaðferð um 40–50 þús. kr. á ári, ef gert er ráð fyrir því, að helmingur tóbaksvara sje fluttur á land annarsstaðar en í Reykjavík. Þá fer nú að koma talsvert upp í rekstrarkostnað landsverslunarinnar á tóbaksversluninni. Ef það kostar ekki minna en 50 þús. kr. á ári að líma á tollmiðana á þessari einu tollvörutegund, þá fer að verða vafasamt, að breytt hafi verið um til hagnaðar fyrir ríkissjóð með niðurfellingu tóbakseinkasölunnar.

Þá kem jeg að hinu atriðinu, hversu trygt þetta fyrirkomulag sje til þess að varna tollsmyglun. Ráðherrann (JÞ) virtist vera í vafa um, hvort rjett væri að halda í þetta fyrirkomulag framvegis og hann taldi varhugavert að taka, þessa einu tollvöru út úr og kosta svona miklu til hennar, en þess er að gæta, að tollurinn á tóbaki er nú orðinn svo afskaplega hár, að það er feiknalega freistandi fyrir menn að koma sjer hjá því að greiða þennan toll; t. d. er tollurinn á sígarettum 16 kr. á hvert kg., og eftirliti á innflutningi til landsins er þannig varið, að mjög auðvelt er að fara á bak við tollgæsluna, og er því ekki að undra, þótt eitthvað geti út af borið í þessu efni. Mjer er sagt, að úti um land sje þessu sumstaðar svo háttað, að lögreglustjórarnir „hringi upp“ sumar verslanirnar í umdæmum sínum og spyrji þær, hvort þær vilji ekki fá þessa tollmiða til álímingar, og jeg hefi heyrt, að þeir hafi stundum verið spurðir um það, hvort öllum verslunum væri ætlað að líma á tollmiða, og að þá hafi lögreglustjórarnir svarað, að það væru aðeins „betri“ verslanirnar, sem ætlast væri til af, að gerðu þetta. Þegar svona er komið, að eftirlitið er ekki tryggara en svo, að lögreglustjórarnir ákveða sjálfir, hverjir eigi að fá þessa miða, þykir mjer útlitið ekki glæsilegt um árangurinn. Hverjar eru þessar „betri“ verslanir? Heiðarlegir menn líklega, sem reka þessa atvinnu. Verslunarleyfi fá ekki aðrir en þeir, sem hafa óflekkað mannorð, hafa t. d. ekki verið dæmdir fyrir verk, sem er svívirðilegt að almenningsáliti, og þá verður þetta svo, að nær því hver sem vill getur fengið þessa miða í hendur. Með öðrum orðum, eftirlitið með tollgreiðslunum er þá falið tóbaksverslununum sjálfum.

Mjer hefir verið sagt vestan af landi af óljúgfróðum manni, að skúffurnar hjá sumum kaupmönnum þar sjeu svo að segja fullar af þessum miðum. Hvort þetta stafar af því, að miðarnir hafi í fyrstu verið svo illa límdir á, að þeir hafi dottið af aftur, veit jeg ekki, en ef svo er, má mjög auðveldlega nota þá oftar en einu sinni, ef mönnum býður svo við að horfa. Mjer sýnist af þessu, að tryggingin við þetta fyrirkomulag á tollgæslunni sje nauðalítil, en kostnaðurinn við hana er samkv. upplýsingum hæstv. ráðherra varla undir 40–50 þús. kr. árlega. Sýnist mjer varla ástæða til að halda í þessa aðferð til lengdar.

Þegar verið var að berja í gegnum síðasta þing lögunum um afnám tóbakseinkasölunnar, var sýnt fram á, að þetta fyrirkomulag mundi ekki verða tryggara en það, sem áður var notað, og er nú sú raunin á orðin, að þetta mun síst hafa verið ofsagt þá. Nú má að vísu segja, að undir landsversluninni hafi menn átt við sömu freistingu að stríða til að svíkja tollinn, en við það er það að athuga, að allar vörur landsverslunarinnar voru stimplaðar með merkjum, sem ekki duttu af og ekki var hægt að nota aftur. Þessi tollgæsluaðferð er ekki svo glæsileg, að hægt verði að halda því fram, að breytt hafi verið til hina betra við afnám tóbakseinkasölunnar, þegar litið er á það, hverjar ráðstafanir eru gerðar til að hafa eftirlit með því, að tóbak sje ekki flutt inn fram hjá tolleftirlitinu. Það getur að vísu farið svo í eitt eða tvö ár, að mönnum verði að þeirri von, að tollur greiddur í ríkissjóð verði eitthvað hærri með þessu fyrirkomulagi, er allir geta flutt inn tóbak, sem vilja, en hitt er áreiðanlegt, að þegar fram í sækir, verður meðaltal tollupphæðarinnar árlega síst meira en meðan landsverslunin fór með þessa verslun, ef gera má ráð fyrir svipuðu árferði framvegis sem var þá. Jeg er sannfærður um, að þegar þetta verður borið saman, verður sá samanburður landsversluninni í hag. Ríkisstjórnin verður framvegis að gera gangskör að því, að ríkissjóður missi ekki stórfjár í tolli við þetta fyrirkomulag, þegar þó svona miklu fje er varið til eftirlitsins. Það er þegar orðið ljóst, að jeg hafði ekki að ófyrirsynju spurt um þetta, úr því svona auðvelt er að ná í þessa tollmiða. Þegar allir kaupmenn, sem vilja, geta fengið miðana, er þetta stórhættulegt fyrirkomulag ríkissjóði. Jeg beini þessu að vísu ekki til allra kaupmanna, að þeir svíki tollinn, en sumir þeirra hafa orðið uppvísir að því að hafa framið tollsvik á liðnum árum. Ríkisstjórnin verður því að hefjast handa og setja frekari tryggingar fyrir því, að tollsvik geti ekki átt sjer stað. Það allra minsta, sem stjórnin gæti gert, þó að þetta fyrirkomulag haldi áfram að vera svona dýrt, er það að gera gangskör að því, að engir aðrir en tollþjónar ríkisins fari með þessa miða. Að setja kaupmönnum þetta í sjálfsvald nær engri átt. Þó að einhverjir þeirra fari vel með þetta og sjeu heiðarlegir menn í því efni, er ekki treystandi á, að allir geri það, og þegar miðarnir liggja hrönnum saman í skúffunum hjá þeim, er mikil freisting fyrir þá að nota miðana aftur, því enginn kaupandi krefst þess, að þessir miðar fylgi vörunum.

Þá kem jeg að fimtu spurningu minni, sem hæstv. forseti leyfði, að mætti komast hjer að, þó að hún snerti ekki fjárlögin. Hæstv. ráðh. (JÞ) hefir svarað þessari spurningu, um steinolíuverslunina og ullartollinn, svo, að mjer eru alger vonbrigði að því svari. Hann sagði í upphafi ræðu sinnar, að hann ætlaði ekki að svara þessu, en ætlaði aðeins að koma fram með nokkrar upplýsingar í málinu og leiðrjetta skakkar upplýsingar, sem fram hefðu komið. En alt, sem hæstv. ráðherra sagði, hefir komið fram áður. Hæstv. ráðherra hlýtur að hafa einhverjar nýjar ástæður fyrir staðhæfingum sínum, og þess hefði mátt vænta, að hann hefði skjallegar sannanir fyrir sínu máli, sem hann gæti lagt fram. Að hann ekki gerði það straks og hann kom með þessar staðhæfingar sínar, gat hafa stafað af því, að hann hefði ekki haft plögg sín við hendina; en nú hefir hæstv. ráðherra ekkert til að bera fram sínu máli til stuðnings. Í þess stað les hann upp úr þingtíðindum frá 1922 og '23, sem öllum eru kunn. Það stendur því ennþá upp á hæstv. ráðherra að koma fram með sannanir fyrir þeirri staðhæfing sinni, að ullartollurinn sje að kenna steinolíusamningnum. Nú hefir háttv. 2. þm. Rang. (KlJ) komið fram með plagg í málinu, sem tekur af allan vafa um það, að tollurinn er ekki steinolíusamningnum að kenna. Hæstv. ráðherra hefir því ekkert eftir í sínum löndum til þess að standa við sín stóru orð og rjettlæta þetta frumhlaup sitt. Þetta, að stjórn U. S. A. hafi látið í ljós óánægju yfir steinolíusamningnum, vissu menn áður. Það stendur í Stjórnartíðindunum.

Eitt atriði held jeg þó, að hafi verið nýtt í ræðu hæstv. ráðherra, að það hafi einn maður vitað um samninginn, sjeð hann og lesið áður en hann var birtur, þ. e. forstjóri D. D. P. A. í Kaupmannahöfn. Nú veit jeg ekki, hvers vegna hæstv. ráðherra blandar þessu inn í þessar umræður. Það mætti draga af því þá ályktun, að hæstv. ráðherra þykist vita, að þessi maður hafi komið því til leiðar, að ullartollurinn var lagður á, í hefndarskyni fyrir steinolíueinkasöluna. Hæstv. ráðherra sagði þetta að vísu ekki, en hann skaut þessu fram í ræðu sinni á þann hátt, að þetta verður að telja líklegt sem skoðun hæstv. ráðherra. Nú hefir það verið upplýst, að 3 fjelögum í U. S. A. var gerður kostur á að selja steinolíu hingað til lands, svo að þetta er harla ólíklegt. Hæstv. ráðherra hefir ekki komið fram með neinar sannanir, ef hann á annað borð hefir nokkrar sannanir til; hann endaði ræðu sína á því, að að svo stöddu teldi hann ekki ástæðu til að leggja gögn sín fram í þessu máli. Þetta er mjög svipað framkomu hans í sameinuðu þingi, er hann var krafinn sagna um þetta mál. Þá sagði hann þetta sama, — að svo stöddu teldi bann ekki ástæðu til þess að verða við þessum kröfum þingsins. Þetta var talið líklegt þá af því að hann hefði ekki skjöl sín eða málsgögn við hendina, en nú þegar hann er enn spurður um þetta sama, finnur hann ennþá „ekki ástæðu til að svara því“. Þegar ráðherra leggur svona á flótta, hafa menn fullan rjett til að vjefengja það, að hann hafi nokkurn skapaðan hlut sem ástæðu fyrir þessum dylgjum sínum; þegar hann fund eftir fund leggur á flótta eða fer undan í flæmingi, er ekki hægt annað en álíta, að hann hafi farið með staðlausa stafi. Jeg sje nú, að hæstv. ráðherra er að gefa forseta bendingu um að hann kveðji sjer hljóðs. Jeg vænti því að hæstv. ráðherra í þetta sinn komi nú fram með stóru „kanónuna“ og skjóti nú fram öllum þessum ógurlegu sönnunum sínum; hann getur haft ullartollinn í „forhlað“.

Jeg vík þá frá þessu máli að sinni, vegna þess að hæstv. ráðherra hefir ekki gert fullkomna grein fyrir sínum málstað, eins og líka vænta mátti. Þó að þetta framferði hans sje æðigrunsamlegt, geta ef til vill einhverjir orðið til að trúa honum og haft von um, að hann kunni að hafa einhver gögn í höndum, en ef svo er, ætti ekki að þurfa að toga það með töngum frá honum.

Þá kem jeg að spurningu minni til hæstv. atvrh. (MG) um það, með hvaða heimildum hann hafi sett í útvarpsreglugerðina ákvæði um, að það þurfi sjerstakt leyfi til að selja tæki, og með hvaða heimild skattur er lagður á einstaka hluti til tækjanna. Sannast að segja gaf hann ekki neitt ákveðið svar við þessu. Hann kom að vísu með nokkrar skýringar, en er jeg spurði, hvaða stoð þetta hefði í lögunum, sagði hann aðeins, að þetta hefði verið nauðsynlegt, því ella væri erfitt að ná inn stofngjöldunum og menn gætu sett upp tæki án þess að útvarpsstöðin vissi af því. Það var rjett athugað hjá hæstv. ráðh. (MG); jeg tel stofngjöldin alt of há og tel þetta mjög misráðið, því það verður áreiðanlega til þess að tefja fyrir því, að menn komi sjer upp móttökutækjum og árlegar tekjur útvarpsstöðvarinnar verða því minni en ella. Hitt getur verið, að einhverjir fái sjer tæki án þess að stöðin viti af því, en hjer er svo strjálbygt, að það er ekki sambærilegt við útlönd, og því ætti að vera auðvelt hjer að komast fyrir, hverjir eiga tæki, og láta þá sæta sektum fyrir, ef þeir gera tilraun til að koma sjer undan rjettmætum gjöldum til útvarpsstöðvarinnar. En jeg geri ráð fyrir, að menn mundu fúslega segja til sín og greiða árgjöld sín, ef gjaldið væri lægra; um þetta yrði því varla að ræða, eða í svo smáum stíl, að engu næmi.

Að leggja þennan skatt á hluta úr tækjunum er að mínu áliti ólöglegt og alveg ófært. Mjer skilst, að þá þurfi að greiða hann í hvert skifti, sem kaupa þarf einhverja smávarahluti, t. d. „spólur“ o. fl., og að þá geti stofngjaldið á þennan hátt orðið langt yfir 85 kr. Þó ekki eigi ef til vill að greiða skattinn af öllum varahlutum, verður erfitt að greina þetta í sundur, og því væri best að fella þennan skatt niður.

Mjer skilst það verði dálítið erfitt í framkvæmdinni, þegar á að greina á milli þeirra, sem hafa heimagerð tæki, og hinna, sem kaupa þau erlendis. Jeg álít ekki fullkomna stoð í lögum til þess að leggja skatt þannig á, jafnvel þótt hæstv. ráðh. (MG) telji þetta tryggilega aðferð til þess að ná inn stofngjaldi fyrir útvarpsrekendur. Það getur verið, að árgjöldin sjeu ekki of há, ef til vill ekki hærri en búast má við; en það eru sjerstaklega stofngjöldin, sem jeg álít, að hæstv. ráð herra ætti að gera sitt til að fella niður. Jeg er sannfærður um, að það borgar sig fyrir útvarpsfjelagið, að minsta kosti þegar þau vasatæki koma hingað, sem mun hafa verið sagt frá í blöðunum í dag.

Það er þá ekki fleira, sem jeg hefi að taka fram við þessa umræðu. Ef jeg skyldi nauðsynlega þurfa á að halda, þá vænti jeg, að hæstv. forseti leyfi mjer að gera stutta athugasemd. Jeg heyri, að þær sjeu komnar í „móð“ aftur hjer í hv. deild.