07.04.1926
Neðri deild: 47. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1714 í B-deild Alþingistíðinda. (1417)

26. mál, ritsíma og talsímakerfi

Ingólfur Bjarnarson:

Viðvíkjandi brtt. minni á þskj. 271, sem er í þrem liðum og miðar að því að ákveða símalínur um Bárðardal og Fnjóskadal, vildi jeg leyfa mjer að segja fáein orð.

A.-liðurinn er um nýja símalínu frá Ljósavatni og fram Bárðardal. Þó að hjer kunni að þykja óljóst til orða tekið, þá er það gert eftir till. landssímastjóra, sem áleit heppilegra, að endastöðin væri ekki ákveðin nú þegar. Hreppsbúar í Bárðardal hafa óskað eftir línu frá Ljósavatni fram Bárðardal, um Stóruvelli að Sandvík. En eins og jeg drap á fyr, þótti landssímastjóra rjettara að orða brtt. eins og hún er hjer fram borin. Um kostnaðinn við að leggja þessa línu vil jeg taka það fram, að landssímastjóri hefir lauslega áætlað hann og talið líklegt, að hann mundi ekki þurfa að fara fram úr 15 þús. kr., með því að leggja til grundvallar áðurnefnda leið að Sandvík, sem vera mun fullir 20 km. En frá endastöðinni mun vera jafnlangt til fremstu bæja í dalnum. Auk þess er fjöldi bæja á Mývatnsheiði, sem liggur austan Bárðardals, svo það er stórt og víðáttumikið svæði, sem hafa mundi gagn af þessum síma.

Þá er það b.-liðurinn, um símalínu frá Hálsi fram Fnjóskadal, að Fjósatungu, en þangað eru um 10 km. frá Háls, og þó 15 km. betur til fremstu bæja. Á þessu svæði eru um 20 bæir, sem nota mundu símann. Lausleg áætlun landssímastjóra um kostnað við að leggja þessa línu er um 7000 kr.

Þá kem jeg að e.-liðnum og þeim síðasta, sem er um símalínu frá Laufási og upp í Fnjóskadal. Það er ætlast til, að sú lína liggi upp í gegnum Dalsmynni, með stöð á Þverá í Fnjóskadal, fram að Draflastöðum eða Veisu. Hjer er heldur ekki ákveðin endastöð og er það gert eftir bendingu frá landssímastjóra. En hann hefir bygt kostnaðaráætlun um lagningu þessarar símalínu á því, að endastöð hennar yrði á Víðivöllum. Þykist jeg mega fullyrða, að viðkomandi hreppsbúar hafa ekki hugsað sjer, að línan lægi lengra fram en í Draflastaði eða Veisu, svo telja má, að línan verði fjórðungi styttri en landssímastjóri byggir áætlun sína á, og ætti þá kostnaður við lagningu línunnar ekki að fara fram úr 10 þús. krónum. En eins og jeg hefi fyr drepið á, eru þessar áætlanir landssímastjóra aðeins lauslegar.

Jeg þarf ekki að taka fram, að þörfin á þessum símalínum er afarmikil. Þessar sveitir, sem hjer eiga hlut að máli, eru víðlendar mjög, veglausar svo að segja og samgöngur því slæmar. Sjerstaklega eru þó erfiðleikarnir miklir í snjóavetrum, þegar fannfergjan liggur yfir alt. Einkum er læknisvitjun tilfinnanlega erfið oft og tíðum, enda mörg dæmi þess, að tjón hefir af því hlotist á lífi manna og heilsu. Það er því mikil þörf að stytta fjarlægðirnar, og það er einmitt það, sem síminn hjálpar til. Og þó að þessar línur fáist, verður nógu langt fyrir þá, sem fjarstir búa, þó eitthvað styttist fyrir fótinn frá því, sem nú er.

Þessar símalínur, þegar þær verða lagðar, mundu bæta mikið úr þeim samgönguvandræðum, sem þessar strjálbygðu sveitir hafa við að búa. Síminn mundi mikið notaður af hjeraðsbúum sjálfum. En auk þess má nefna, að á sumrum er töluvert fjölfarin ferðamannaleið frá Akureyri um Bíldsárskarð og Vallafjall, áleiðis til Mývatnssveitar og Sprengisands, einkum af skemtifararfólki, sem fer mjög vaxandi og langferðafólki, sem „fer fjöll“. Mundi mörgum þessum ferðamönnum koma vel að geta náð í síma án þess að leggja langan krók á leið sína. En leið þessi liggur um Fjósatungu og Stóruvelli, þar sem eru fyrirhugaðar símastöðvar eftir breytingartillögu þeirri, sem jeg hefi flutt hjer.

En aðalástæðan er þó vitanlega sú að ljetta undir samgöngurnar fyrir þeim mönnum, sem á svæði þessi búa, og gera afskektu sveitirnar byggilegri. Það hefir líka viljað tíðkast, að fremstu bæirnir og þeir afskektustu hafa týnt tölunni vegna samgönguerfiðleikanna. Og jeg vil bæta því við, að alt of oft hefir hlotist manntjón af, að ekki náðist í lækni vegna þess, að um langan veg var að fara eftir honum. Síminn styttir fjarlægðirnar og lengir lífdaga einyrkjanna, sem verst eru settir í samgönguleysinu.

Landssímastjóri hefir haft þessi erindi til athugunar og talið líklegt, að hjeruðin, sem hlut eiga að máli, legðu eitthvað af mörkum upp í kostnaðinn við að leggja línurnar. Jeg tel víst, að þau muni ekki hliðra sjer hjá að greiða framlag fyrir sitt leyti á svipaðan hátt og venja hefir verið um slíkar símalínur. Og vil líka taka það — fram, eins og hv. frsm. (KlJ) gerði, að hjer er ekki farið fram á, að línur þessar verði lagðar fyr en sanngjarnt þykir að veita fje til lagningar þeim í fjárlögum.

Þessi hjeruð hafa um langan tíma beðið róleg á meðan þau sáu, að önnur fengu síma, sem talið var, að ekki mætti fresta. En þau hafa líka vonað, að síðar kæmi að sjer, og í því trausti, að þær vonir rætist áður en langt um líður, hafa þau skotið þessari málaleitun sinni til hins háa Alþingis.

Jeg ætla ekki að orðlengja frekar um þetta, en vænti hins, að hv. þdm. sjái og skilji, að hjer er um rjettmæta kröfu að ræða, og geti því greitt atkvæði með þessum brtt. mínum.