07.04.1926
Neðri deild: 47. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1717 í B-deild Alþingistíðinda. (1418)

26. mál, ritsíma og talsímakerfi

Jón Sigurðsson:

Jeg á hjer litla brtt. á þskj. 227 um símalínu að Selnesi á Skaga.

Fyrir stuttu síðan, eða við 2. umr. fjárlaganna hjer í hv. deild, var rætt um nýja símalínu til Loðmundarfjarðar, og það talið svo mikið nauðsynjamál, að taka yrði upp í fjárlögin allríflega upphæð, svo að símalína þessi yrði lögð á næstu árum. Eftir þeim upplýsingum, sem gefnar voru þá, virðist liggja í augum uppi, að aðstaða Skagabúa sje að engu betri, nema síður sje, heldur en Loðmfirðinga. Hjer er um fjölmennan hrepp að ræða, sem er sjerstaklega illa settur vegna þess, að heita má, að hann sje afskorinn frá hjeraðinu, þannig, að Tindastóll gengur þverhnýptur í sjó fram og því ekki fært með, og t. d. að vetrum verður að fara snjóþunga heiði að fjallabaki, ef komast á inn í hreppinn. Reynist því oft ókleift að ná í lækni eða meðul, enda hefir komið fyrir, að manntjón hefir hlotist af, að ekki var komist á braut til að leita bjargar. Þá má og geta þess, að talsverð útgerð er í Selvík, enda talin þar góð höfn, þó lítil sje, svo að ef sími yrði lagður þangað, mundi það allmikill ljettir fyrir útgerðina, sem eflaust mundi þá aukast. Að endingu vil jeg benda á það, að á vestanverðri Skagaströnd er komin símalína alveg út á Skagatá, en að austanverðu er ennþá engin lína. Er ekki sýnilegt, hvers þeir eiga að gjalda, sem búa að austanverðum Skaganum, því að áreiðanlega er þar engu minni búsæld en að vestanverðu og möguleikar til lands og sjávar eins miklir. Loks vil jeg geta þess að tillagan hefir verið send landssímastjóra til umsagnar, og bendir hann á það, að rjettara sje að orða hana á annan veg en jeg hafði gert. Landssímastjóri telur 4 leiðir geta komið til mála, og hefir þar farið eftir korti herforingjaráðsins danska, en okkur, sem kunnugir erum þarna, er ljóst, að um 2 af þessum leiðum getur ekki verið að ræða, því að þær liggja um óbygðir, svo að viðhald þeirra yrði ómögulegt að framkvæma og ekki hægt að hafa afnot af þeim nema að litlu leyti. Um hinar 2 leiðirnar, hvort línan ætti að liggja frá Kálfshamarsvík að Skagatá eða frá Sauðárkróki að Selnesi, vil jeg segja það, að þær geta legið á milli hluta, og vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp úr brjefi landssímastjóra það, sem hann segir um þetta:

„Framangreindar leiðir eru ennþá órannsakaðar með tilliti til símalagningar, og er því ekki unt nú sem stendur að segja með vissu um, hverja leiðina beri að velja. Jeg verð því að líta svo á, að svo framarlega sem lína þessi verður tekin inn í ritsímalögin, sem jeg frekar mæli með, beri að orða hana þannig:“ — og svo kemur orðalagið eins og jeg hefi tekið það upp í hinni endurprentuðu tillögu minni. Landssímastjóri hefir frekar mælt með henni, enda er það öllum ljóst, að þessi stóra sveit er illa sett að hafa ekki síma og getur alls ekki án hans verið. Ætla jeg svo ekki að tala lengur og vona, að hv. deild líti á þetta með velvildaraugum.