07.04.1926
Neðri deild: 47. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1719 í B-deild Alþingistíðinda. (1419)

26. mál, ritsíma og talsímakerfi

Pjetur Ottesen:

Það liggja nú fyrir á 6 þskj. tillögur um að taka upp nýjar símalínur, og á þessum þskj. eru ýmist tillögur um að bæta við einni eða fleiri línum. Það sem er sameiginlegt um allar þessar tillögur. Eru óskirnar um að auka símakerfið og að þörfin er brýn fyrir símann, sem kemur fram í því, að þegar þingið gengur inn á þá braut að leyfa að færa út símasambandið, þá koma hvaðanæfa að óskir um að fá síma.

Eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, af viðtali við landssímastjóra og svo eftir því, sem þeir menn segja, sem kunnugir eru á þeim stöðum, þar sem leggja á þessar línur, þá er það nokkurnveginn ljóst, að hjer er um mismunandi en þó hliðstæða þörf að ræða. Sje jeg ekki ástæðu til að tala ítarlega um hverja þessara till., en ætla að drepa á tvær línur á þskj. 228, sem við háttv. þm. Mýr. (PÞ) flytjum saman. Það er sameiginlegt um þessar tillögur, að þær fara fram á að leggja símalínur til afskektra staða, upp í afskektar sveitir, þar sem vegir eru líka slæmir, og gerir það þörfina fyrir síma ennþá brýnni.

Þessar 2 till. eru um það, að bætt sje við tveimur símalínum í Borgarfjarðarsýslu, og nær önnur þeirra inn í Mýrasýslu. Önnur línan er frá Stórakroppi um Reykholt, Stóra-Ás í Hálsasveit að Bjarnastöðum í Hvítársíðu. en hin línan er frá Hesti fram Lundarreykjadal. Var upphaflega ætlast til þess, að línan næði fram að Hóli í Lundarreykjadal með tilliti til þess, að símastöð á Hóli gæti komið að notum bæði fyrir Lundarreykjadal og Skorradal, þar sem aðeins er mjór háls á milli þessara dala. Annars er, ef um það er að ræða að leggja línuna með hagsmuni Lundarreykjadals eins fyrir augum, ef til vill heppilegra að hafa endastöðina á Lundi, því að þar er samkomuhús og fundastaður sveitarinnar og kirkja, og þess vegna hefði verið heppilegra að ákveða stöðina þar, en þar sem ennþá er óákveðið, hvort þannig skuli lögð ein lína um báða dalina eða báðir dalirnir komast í sjálfstætt símasamband, þá hefi jeg ráðið það af að láta þetta óákveðið, enda nægur tími að taka ákvörðun um þetta, þegar til þess kemur að framkvæma verkið.

Það er sameiginlegt fyrir þessar sveitir, að þær eru nú með öllu símasambandslausar, nema að símastöð er á Grund í Skorradal, næstneðsta bænum í dalnum. Vegalengdin frá Hesti að Lundi í Lundarreykjadal er um 12 km., en dálítið lengra að Hóli. Kostnaður áætlaður 8500 kr., auk kostnaðar við flutning á efni, sem hlutaðeigandi sveitir sæju um.

Um hina línuna, sem er frá Stórakroppi, um Reykholt, Stóra-Ás í Hálsasveit að Bjarnastöðum í Hvítársíðu. er það að segja, að 3 hreppar koma til með að hafa not af henni, sem sje Reykholtshreppur, Hálsasveit og Hvítársíða. Hvað Hálsasveit snertir, þá er eins ástatt um hana og Lundarreykjadal, að þar er slæmt vegasamband, ljelegir vegir. Þessi hreppur liggur upp til fjalla og á erfitt með allar samgöngur og á líka mjög erfitt með að ná til síma. Um Hvítársíðuna er það að segja, að meginhluti hennar liggur einnig fjarri símasambandi, og nær bygðin þar fram til jökla, og er henni því mikil nauðsyn, eins og hinum sveitunum, að fá símasamband. Landssímastjóri segir, að þessi vegalengd sje 22 km. og kostnaðurinn sje áætlaður 15500 kr., sem væri sömu skilyrðum bundinn og hin línan.

Um tekjur af þessum símalínum er ekki gott að segja; en jeg hygg þó, að þær yrðu nokkrar; bygðin er mikil þar, sem þær eiga að liggja, og síminn yrði mikið notaður, því að línan frá Stórakroppi að Bjarnastöðum liggur um 3 hreppa, þar sem er mikill ferðamannastraumur, sem mikið myndi nota símann.

Það er alveg eins um þessar línur og hv. þm. S.-Þ. (IngB) sagði, að þær kæmu að miklu haldi fyrir hlutaðeigandi sveitir til að ná í lækni, þar sem hann situr á Kleppjárnsreykjum og læknishjeraðið er afarvíðlent, nær yfir alla Borgarfjarðarsýslu ofan Skarðsheiðar og auk þess efstu hreppana í Mýrasýslu. Er hjer því um miklar vegalengdir að ræða og gæti í mörgum tilfellum komið að góðu liði að ná símasambandi við lækni, þar sem nú þegar er símasamband við læknisbústaðinn.

Um símasamband um Borgarfjörðinn eins og það er nú er það að segja, að Borgfirðingar ofan Skarðsheiðar hafa ekki aðrar línur en aðallínuna til Norðurlandsins, með nokkrum stöðvum á. Aðrar línur er ekki um að ræða, nema línuspotta að læknisbústaðnum.

Jeg ætla svo ekki að fara fleiri orðum um þessar tillögur og vona, að hv. deild lofi línum þessum að fljóta með inn í símalögin.