07.04.1926
Neðri deild: 47. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1723 í B-deild Alþingistíðinda. (1421)

26. mál, ritsíma og talsímakerfi

Þórarinn Jónsson:

Jeg vil með örfáum orðum minnast á þetta mál, sem upphaflega var borið fram af mjer. Mjer hefir þótt hv. samgmn. hafa haft þetta mál nokkuð lengi til meðferðar, eða 8 vikur. Verður sá dráttur með einföld smámál naumast annað en víttur, ef ekki á að svæfa málið. Hefir þetta leitt til þess, að fram eru komnar margar nýjar tillögur, meira og minna nauðsynlegar. Vil jeg enn benda á það, sem jeg tók fram í upphafi, að undirbúningur þessa máls er alveg sjerstæður, þar sem þarna er ákveðið framtíðarfyrirkomulag í heilu hjeraði. Þetta mál hefir í 3 ár verið til álita milli sýslunefndar Húnavatnssýslu og landssímastjóra, og eftir hans tillögum var frv. mitt borið fram, og gat jeg ekki búist við, að nein breyting yrði gerð á þessu. Þetta er alt annað en að taka fyrir stuttar línur um eina eða tvær sveitir, því að það er vitanlegt, að meira þarf að gera fyrir þær en þetta síðar, og ef til vill kemur það í bága við heppilegra fyrirkomulag, er síðar kæmi í ljós. Þess vegna er hjer ólíku saman að jafna. Jeg tek þetta fram vegna ummæla hv. þm. Borgf. (PO), sem taldi sjálfsagt, að ef símalögin væru opnuð á annað borð, þá mætti alveg eins samþykkja tillögur hans, ef nokkuð yrði samþykt. Þó að þessar tillögur sjeu ef til vill ekki komnar fram til þess að drepa málið, þá líta hv. þm. ekki á það, hve þessar tillögur eru misjafnlega vel undirbúnar og hve misjafnan rjett þær eiga á sjer, og væri því leitt til þess að vita, ef þær yrðu til þess að fella þetta frv., sem á fullkominn rjett á sjer. Samt vænti jeg þess, að þótt einhver þessara tillagna falli, þá verði það ekki til þess, að þeir háttv. þm., sem þær ættu, greiði atkv. á móti frv.

Jeg vil ekki vjefengja það, að þessar tillögur sjeu að ýmsu leyti nauðsynlegar, en jeg álít, að það geri ekki svo mikið til, þótt þær komi ekki inn í símalögin nú, því að línur þessar verða ekki svo fljóttlagðar. Það er alveg víst, að það tekur fjöldamörg ár uns þær verða lagðar. Mjer finst vanta upplýsingar frá hv. frsm. (KlJ) um það, hve mikla og rækilega áherslu landssímastjóri leggur á það, að frv. verði samþ., og um það, hvort hann álítur, að hinar línurnar eigi að koma inn jafnsnemma. Annars ætla jeg ekki að fjölyrða meira um þetta. Jeg sje, að nefndin hefir tekið upp í brtt. sínar að fella úr gildi lög nr. 26, 20. júní 1923. Jeg gat þess þegar jeg flutti frv., að þetta væri sjálfsagt, þó jeg tæki það ekki upp, því þetta eru einu lögin síðan 1919 um þetta efni, og það því fremur, sem aðeins ein lína er í lögunum frá 1923.

Jeg ætla svo ekki að segja meira um þetta mál. Jeg vona, að hv. deild lofi frv. mínu að lifa, og það því fremur, sem hv. samgmn. telur það á rökum bygt.