07.04.1926
Neðri deild: 47. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1726 í B-deild Alþingistíðinda. (1423)

26. mál, ritsíma og talsímakerfi

Frsm. (Klemens Jónsson):

Jeg vil byrja með því að taka það fram, að jeg býst við, að það sje rjett, að þessar nýju símalínur eigi ekki allar jafnan rjett á sjer. Þar kemur til kasta landssímastjóra að gera upp á milli þeirra. Hæstv. atvrh. skýrði frá því, að í ráði væri að leggja sem fyrst línuna í Barðastrandarsýslu og á sínum tíma línuna frá Vík í Mýrdal til Hornafjarðar. Það mun vera meiningin, að Barðastrandarlínan verði lögð þegar að sumri, en hvað snertir línuna Vík–Hornafjörður, á hún að leggjast á þrem árum. Mun það vera meining hæstv. ráðherra, að flestar línur verði að bíða þangað til þessar tvær línur eru fullbúnar: En það eru margir aðrir orðnir langeygðir eftir framkvæmdum á þessu sviði, og þar á meðal ekki síst þeir, sem eiga línur ákveðnar í ritsímalögum, sem þó hafa ekki verið lagðar enn. Og jeg álít, að það megi ekki dragast að leggja sumar af þessum línum, einkum afdalalínurnar, þangað til báðum þessum stóru línum er lokið.

Háttv. aðalflm. mintist á það, að þetta mál hefði verið lengi á leiðinni í nefnd. Það er satt, en ástæðan er sú, að samgmn. hefir fundi á morgnana frá 10–12 og getur ekki haft þá á öðrum tímum, vegna þess að nefndarmenn eru bundnir við önnur störf. Hinsvegar er heilsu landssímastjóra svo farið, að hann getur ekki sótt fundi nefndarinnar á morgnana, og varð hún því að halda aukafundi til þess að geta haft tal af honum; en eins og jeg hefi tekið fram, voru örðugleikar á því. Af þessum ástæðum hefir þetta nú dregist svona lengi. En hvort það hefir haft mikil áhrif á það, að brtt. hefir fjölgað, það tel jeg mjög vafasamt. Hv. flm. brtt. hafa nú talað fyrir þeim, og álít jeg erfitt að gera upp á milli þeirra. Jeg skal þó geta þess, að þeim till., sem nefndin mælir með, hefir landssímastjóri mælt með; en hinum hefir hann að minsta kosti ekki mælt með, þó hann hafi ekki lagst á móti þeim. Ennfremur skal jeg geta þess, að jeg hefi nú, eftir að þessi fundur byrjaði, átt tal við landssímastjóra í síma, og hefir hann tjáð mjer, að hann geti verið meðmæltur þrem fyrstu till., á þskj. 227, 228 og 271, og skal jeg nú minnast á þær hverja fyrir sig og ekki vera langorður. Hv. 2. þm. Skagf. (JS) flytur vatill. á þskj. 227, um nýja línu að Selnesi á Skaga, og hefir hann nú gert grein fyrir henni. Hv. þm. (JS) skýrði frá því, að af þeim 4 leiðum, sem landssímastjóri hefði talið, að um væri að velja, gætu 2 ekki komið til mála, vegna þess að þær lægju um óbygð svæði og ófær. Hinar tvær, sem hv. þm. telur færar og að álitamál geti verið um, eru frá Sauðárkróki að Tindastóli, sem mun vera um 35 km. og kostnaður um 21 þús. kr., eða frá Kálfshamarsvík að Skagatá, sem er um 36 km. og kostnaður áætlaður um 25500 kr. Landssímastjóri hefir hinsvegar ekkert um það sagt, hverja leið skuli velja, með því að það sje alveg órannsakað enn.

Þá er vatill. á þskj. 228, og hefir hv. þm. Borgf. (PO) skýrt frá henni og tekið fram, að landssímastjóri leggi til, að línan verði lögð frá Hesti og fram Lundarreykjadal, en að hitt verði ákveðið síðar, í samráði við hlutaðeigandi hjeraðsstjórnir, hvort endastöðin verði á Hóli eða Lundi. — Viðvíkjandi hinni línunni, sem hv. þm. Borgf. fer fram á, að lögð verði fram í Hvítársíðu, hefir hann upplýst, að þarna er mikil þörf á síma, vegna þess, hve hjeraðið er afskekt. Nefndin er því samþykk, að þessar línur verði lögteknar.

Sama má segja um línur þær, sem hv. þm. S.-Þ. (IngB) fer fram á á þskj. 271. Það er skiljanlegt, að menn, sem búa í afskektum afdalahjeruðum, hafi mjög brýna þörf fyrir síma.

Allar þessar beiðnir um nýjar símalínur sýna það hvorttveggja mjög vel, bæði hve þörfin er víða mikil og svo hitt, hve vænt mönnum alment þykir um þetta ágæta samgöngutæki. Og það er ekki nema eðlilegt, að óskir komi fram í þessa átt. —

Viðvíkjandi símalínum þeim, sem hv. þm. S.-Þ. fer fram á, hefi jeg skilið landssímastjóra svo, að engin kostnaðaráætlun hafi enn verið gerð um þær. Sjálfur hafði hv. þm. (IngB) það eftir honum, að línan frá Ljósavatni fram Bárðardal mundi kosta um 15 þús. kr. og línurnar undir b- og e-lið á þskj. 271 um 20 þús. kr. Jeg skal geta þess, að jeg hefi átt tal við landssímastjóra um þessar línur, og leggur hann til, að línurnar undir b- og c-liðum í brtt. frá hv. þm. S.-Þ. verði settar saman í eitt sem lína fram Fnjóskadal, og vænti jeg þess, að hv. þm. hafi ekki neitt á móti því, að þessu verði breytt þannig að vilja landssímastjóra.

Þá kem jeg að síðustu viðaukatill., á þskj. 272, frá hv. þm. N.-M. (ÁJ og HStef). Hv. 1. þm. N.-M. (H Stef) hefir talað fyrir henni og lýst nauðsyn þess að fá síma á þessum svæðum. Jeg skal geta þess, að um þetta hafa engin skrifleg gögn legið fyrir nefndinni, en jeg hefi heyrt, að nú væri búið að ráðstafa línu frá Egilsstöðum að Birnufelli, og ætti þá till. að vera óþörf, en um það getur væntanlega hv. l. þm. N.-M. betur sagt.

Jeg skal taka það fram, að það er auðvitað ekki meining mín á nokkurn hátt að mæla á móti, línunni frá Þórshöfn til Skála, enda er hún í lögunum frá 1923. Hún er nú orðin 3 ára gömul í lögunum og ætti að öðru jöfnu að ganga fyrir.

Jeg vil svo enda mál mitt með því, að jeg treysti því fastlega, að hæstv. stjórn og landssímastjóri vinni að því að koma þeim línum, sem samþyktar verða, í framkvæmd svo fljótt sem verða má og eftir því sem nauðsyn er til. Og jeg vil skjóta því til hæstv. atvrh., að það er hreint ekki rjett að draga á langinn að leggja þær línur, sem ákveðnar hafa verið með lögum, og jeg vil leyfa mjer að skora á hann að taka ritsímalögin til gagngerðrar endurskoðunar og koma fram með breytingar á þeim eftir að leitað hefir verið umsagnar hlutaðeigenda. Það gæti orðið til þess að spara umr. á þingi um þetta á næstunni.

1424