07.04.1926
Neðri deild: 47. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1730 í B-deild Alþingistíðinda. (1425)

26. mál, ritsíma og talsímakerfi

Ingólfur Bjarnarson:

Jeg skal taka það fram, að jeg er mjög fús til að breyta orðalagi till. minnar á þá leið, sem hv. frsm. (KlJ) benti mjer á, að væri ósk landssímastjóra. En jeg skal geta þess, að mjer kom dálítið á óvart, að brtt. mín skyldi að orðalagi til koma í bága við vilja hans. Jeg ætlaði einmitt að orða hana í samræmi við það, sem mjer skildist á brjefi hans til hæstv. stjórnar, að vera mundi að hans skapi. Jeg vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp kafla úr brjefinu, þessu til skýringar. Þar segir svo:

„Og verði línur þessar teknar inn á ritsímalögin, álít jeg heppilegast, að línurnar eða stöðvarnar verði ekki bundnar við ákveðna bæi, heldur ákveði landssímastjóri það á sínum tíma, í samráði við viðkomandi hjeraðsstjórnir. — —“

Og síðar segir hann, þar, sem hann talar um kostnaðinn:

„Lína frá Laufási að Víðivöllum í Fnjóskadal og frá Hálsi að Fjósatungu mundi auk flutnings kosta um kr. 20 þús. úr 4 mm. einföldum járnvír. —“

Þetta bendir til, að landssímastjóri hafi ætlast til, að línurnar yrðu 2 um Fnjóskadalinn, og þess vegna orðaði jeg brtt. mína þannig. Það var einmitt meiningin, að brtt. gengi í þá átt, sem landssímastjóri lagði til. En sem sagt, eftir því, sem nú er fram komið, hefi jeg ekkert á móti því að breyta þessu, og mun jeg því leggja fram skriflega brtt. við mína fyrri till., um að í stað b- og c-liða koma: Lína um Fnjóskadal.

Jeg held, að það hafi svo ekki verið annað, sem jeg þurfti að athuga, og vil jeg leyfa mjer að afhenda forseta þessa till.