07.04.1926
Neðri deild: 47. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1734 í B-deild Alþingistíðinda. (1431)

26. mál, ritsíma og talsímakerfi

Þórarinn Jónsson:

Út af ummælum hv. þm. Barð, skal jeg segja það, að jeg veit ekki, eftir hverju á að fara, ef ekki eftir því, hvenær nauðsynin knýr þessar línur inn í lögin. Jeg held, að svo verði að líta á, að því fyr sem það verður, því nauðsynlegri eru þær.

Þá vil jeg víkja ofurlítið að öðru. Mjer skildist það á hæstv. atvrh., að það hlyti að dragast að leggja 3. flokks línur, því að það þurfi að leggja aðrar línur. En ef því væri fylgt fram, sem símalögin ákveða, að leggja 3. flokks línur fyrir tekjuafgang símans, þá mætti leggja margar 3. flokks línur líka. Jeg álít, að hægt hefði verið að leggja meiri áherslu á þessar línur en gert hefir verið, því hitt hefir verið venjan, að taka ekkert tillit til þessa lagaákvæðis.