15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1735 í B-deild Alþingistíðinda. (1434)

26. mál, ritsíma og talsímakerfi

Frsm. (Klemens Jónsson):

Jeg skal fara nokkrum orðum um brtt. þær, sem nú eru að koma fram á síðustu stundu. Jeg held það væri mjög gott fyrir hv. deild, ef hún gæti losnað sem fyrst við þetta mál; annars er hætt við, að streymi hingað enn inn nýjar brtt. um að fjölga símalínum. Þeim hefir rignt niður, svo að það er komið heilt flóð af talsímalínum, svo hætt er við, að þær drukni allar og að staurarnir sökkvi í kaf áður en þeir verða reistir. Jeg hygg það væri gott, ef hægt væri að binda nú enda á málið og koma því sem fyrst til Ed.

Fyrst vil jeg minnast á till., sem hv. þm. Barð. (HK) flytur, um nýja línu frá Bíldudal að Selárdal. Það liggja ekki fyrir upplýsingar um, hvað sú lína er löng, en aftur á móti upplýsingar um það, að hún muni kosta 15 þús. kr. Landssímastjóri leggur með því, að þessi lína verði tekin inn í ritsímalögin með því móti, að hjeraðið annist flutning efnis og leggi auk þess fram 5 þús. krónur af kostnaðinum.

Um þær línur, sem búið er að samþykkja í hv. deild, og tvær aðrar hefir landssímastjóri ekki tekið það fram, að viðkomandi hreppsfjelag skyldi leggja fram ákveðna upphæð, heldur að ráðgert væri, að viðkomandi sveitarfjelag ætti að leggja fram einhvern hluta af kostnaði, sem þá þætti hæfilegur a. m. k. 1/3 hluti. Um leið og jeg tek þetta fram, að landssímastjóri hefir ákveðið hjeraðinu 5 þús. kr. af kostnaði línunnar, þá verð jeg að taka það fram fyrir hönd nefndarinnar, að hún álítur sjálfsagt að láta það sama ganga yfir þessa línu og aðrar línur, að þetta hjerað eigi að borga hæfilegt tillag eins og önnur, en að það sje alls ekki bundið við ákveðið verð; því að það stendur ekkert sjerstaklega á um þessa línu. Jeg veit, að dæmi eru til um, að tillagið sje mismunandi, en þá af sjerstökum ástæðum.

Næst er brtt. á þskj. 311, frá hv. þm. Str. (TrÞ), um að leggja línu frá Sandnesi að Drangsnesi, 11 km. Þar myndi einföld lína nægja eins og víðar, og áætlar landssímastjóri kostnað við hana 10 þús. kr., auk flutningskostnaðar. Landssímastjóri hefir ekkert að athuga við, að línan sje tekin inn í símalögin, en bætir við, að búast megi við, að nokkuð lengi verði að bíða þangað til hún verði lögð. En þetta er í fullkomnu samræmi við það, sem sagt var við 2. umr., að þess verði nokkuð langt að bíða, að þessar línur, sem nú eru komnar í lögin, komi til framkvæmda.

Þessi lína á að sæta sömu skilyrðum og aðrar línur, að hlutaðeigandi hjerað leggi fram, auk flutnings, eitthvað tillag til þessarar línu.

Þar sem landssímastjóri hefir lagt með línunni, þá finst nefndinni eðlilegt, að hún sje tekin upp í ritsímalögin og vill mæla með því.

Þá er brtt. frá hv. þm. Árn., sem fer fram á þrjár nýjar línur: Frá Torfastöðum til Geysis, frá Mosfelli að Laugarvatni og frá Mosfelli að Laugarási. Fyrst nefnda línan er 20 km. og myndi kosta að sögn landssímastjóra um 15 þús. kr., auk flutnings á efni. Önnur línan, frá Mosfelli að Laugarvatni, er 13 km. og myndi kosta um 5900 kr.

Eins og kunnugt er, er búið að ákveða af sýslunefnd Árnessýslu, að Laugarvatn verði skólasetur fyrir hjeraðsskóla. Og með tilliti til þess teljum við nauðsynlegt, að þessi lína verði lögð, Landssímastjóri mælir með, að svo verði gert og samgmn. er því sömuleiðis meðmælt.

Þá er síðasta línan. Laugarás er læknissetur í Árnessýslu og lengd línunnar er 5½ km. Áætlaður kostnaður er 4 þús. kr., auk flutnings á efni. Um þessa línu segir landssímastjóri, að hana mætti fult eins vel kalla notendalínu frá Mosfelli; því að mjög fáir mundu sækja símastöðina að Laugarási. Þess vegna telur hann rjett að veita einhvern styrk til línunnar, en hún sje fullkomlega hjeraðsins eign, eins og læknisbústaðurinn er, og hjeraðið annist því viðhaldið. Landssímastjóri leggur á, móti því, að línan verði lögð á landsins kostnað, en telur rjett að veita nokkurn styrk, eins og jeg gat um, og er samgmn. honum sammála um þetta, og leggur því til, að tvær fyrri línurnar verði samþyktar, en ekki síðasta línan. Samkvæmt þessu vil jeg mælast til þess við hæstv. forseta, að þessar línur verði bornar upp hver í sínu lagi, eða a. m. k. síðasta línan sjer.

Þá hefir á síðasta augnabliki, í fundarbyrjun, komið fram brtt. frá hv. þm. V.-Þ. (BSv), um að bæta við línu frá Skógum að Skinnastöðum. Samgmn. hefir ekki haft tækifæri til að ráðgast um þessa tillögu, nje heldur hafa henni borist nein skjöl eða skilríki þessu viðvíkjandi, hvorki um lengd hennar nje kostnað, og ekki heldur hefir hún heyrt álit landssímastjóra um hana. Vona jeg, að hv. þm. (BSv) geri sjálfur grein fyrir tillögu sinni, en jeg býst við, að svo framarlega sem hv. þm. (BSv) hefir í höndum yfirlýsingu frá landasímastjóra um, að hann sje henni meðmæltur, muni samgmn. láta hana sæta sömu meðferð og hinar tillögurnar, sem landssímastjóri hefir mælt með. Eftir ritsímakortinu að dæma, sem jeg hefi hjer fyrir framan mig, virðist þessi leið vera mjög stutt, en sem sagt vænti jeg þess, að hv. þm. N.-Þ. gefi sjálfur allar upplýsingar þessu viðvíkjandi.