15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1739 í B-deild Alþingistíðinda. (1436)

26. mál, ritsíma og talsímakerfi

Magnús Torfason:

Jeg leyfi mjer að þakka hv. samgmn. fyrir góðar undirtektir við brtt. okkar þm. Árn. um línu frá Torfastöðum til Geysis og aðra frá Mosfelli að Laugarási. Að því er línuna frá Torfastöðum til Geysis snertir, skal jeg geta þess, að hún er fyrst og fremst gerð fyrir ferðamenn. Það er langt síðan landssímastjóri hefir hugsað sjer, að þessi lína yrði lögð. En viðvíkjandi línunni frá Mosfelli að Laugarvatni, þá er hún, eins og hv. frsm. (KlJ) tók fram, meðfram sett af því, að þarna á að koma hjeraðsskóli, og er enginn vafi á, að Laugarvatn verður fjölsóttur gististaður á sumrin, þegar skólinn er kominn, því að þarna er landslag eitt hið fegursta á landinu. En hvað snertir línuna frá Mosfelli að Laugarási, skal jeg skýra frá því, að landlæknir hefir mælt mjög ákveðið með þeirri línu, en þar sem landssímastjóri hefir lagt á móti henni, munum við þm. Árn. fallast á, að hana beri fremur að skoða sem sjerstaka hjeraðslínu, þó að þarna sje reyndar ferja austur yfir Hvítá. En hvað sem því líður, vil jeg hjer með leyfa mjer að taka þessa síðustu tillögu aftur.