10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (144)

1. mál, fjárlög 1927

Klemens Jónsson:

Jeg skal ekki þreyta háttv. deild með langri ræðu.

Jeg hjelt, að hæstv. fjrh. myndi láta sjer segjast við þær alveg ótvíræðu upplýsingar, sem jeg gaf hjer í deildinni í dag um ástæður til hækkunar ullartollsins.

Jeg hafði margtekið það fram, að jeg hefði haft fulla ástæðu til að halda, að ullartollurinn í Bandaríkjunum hefði komist á í ársbyrjun 1922, eftir þeim upplýsingum, sem sendiherrann í Washington gaf, og hvorki mjer nje nokkrum öðrum gat dottið í hug að vjefengja það, að sendiherrann vissi, hvenær ullartollurinn hefði verið hækkaður, en það hlaut, eftir ummælum hans, að hafa verið áður en steinolíusamningurinn var gerður. En nú hefir það verið upplýst, að hann hafi komið á um áramótin 1923. Og hæstv. fjrh. sagði, að það gleddi sig, að jeg hefði viðurkent, að mjer hefði skjátlast í þessu efni.

Jeg skammast mín ekkert fyrir það, þó að jeg geti tekið nýjum upplýsingum, eða yfir höfuð að tala látið sannfærast. Það er hreint og beint skylda allra þingmanna. En því miður get jeg ekki gefið hæstv. fjrh. sömu „kompliment“ á móti. Hann hefir ekki látið sannfærast af alveg skýlausum rökum og skjallegum, að það er ekki og hefir aldrei verið neitt samband milli ullartollslækkunarinnar og steinolíusamningsins.

Hefði það verið, myndi sendiherrann í Bandaríkjunum hafa vitað það og utanríkisráðherra Dana myndi þá hafa sagt eitthvað á þessa leið: „Ástæðan til tollhækkunarinnar er ykkur sjálfum að kenna. Þið hafið nýlega gert samning við breskt fjelag um kaup á steinolíu, en gengið fram hjá Bandaríkjunum. Afnemið þið þessa einkasölu, og þá fáið þið ullartollinn afnuminn“ . En hann sagði ekkert á þessa leið, sem heldur ekki var von, því samningurinn stóð ekki í neinn orsakasambandi við ullartollinn.

Hugsanaferill hæstv. fjrh. virðist vera á þessa leið: Steinolíusamningurinn er gerður í ágúst 1922. Þetta er strax símað til Ameríku, til þess volduga fjelags, sem D. D. P. A. er einn angi af. Stjórn fjelagsins fer svo í ríkisstjórn Bandaríkjanna og fær hana til að hækka ullartollinn, til þess að straffa Íslendinga fyrir samninginn. Á annan hátt en þennan verða ekki orð og ummæli hæstv. fjrh. skilin.

En jeg vil ljúka máli mínu með því að segja það, að jeg verð að telja það mjög hættulegt að setja fram slíkar dylgjur eða grunsemdir í garð erlendra stjórnarvalda, eins og hæstv. fjrh. hefir gert í máli þessu. Það er honum engin afsökun nú, þótt hann vilji ekki við það kannast, því framkoma hans verður ekki skilin á annan veg.