10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

1. mál, fjárlög 1927

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg vil staðfesta fyrri ummæli mín um þetta atriði, að jeg hafi aldrei framsett neinar staðhæfingar eða dylgjur í garð stjórnar Bandaríkjanna. En hinu hefi jeg haldið fram, að þessi stjórnarvöld gátu verið í góðri trú það, að rjettmætt væri gagnvart okkur að setja á ullartollinn.

Annars vil jeg geta þess, út af því, sem hv. 2. þm. Rang. (KlJ) talaði um brjefið frá Philadelfia, að jeg tel ekki víst, og hefi enga tryggingu fyrir því, að „firma“ það, sem brjefið er frá, hafi vitað um einkasölusamning þann um steinolíu, sem búið var að gera á Íslandi, og þess vegna eigi getað haft hugmynd um, hvort steinolíusamningurinn hefði nokkur áhrif á ullartollinn. Við erum ekki það stórir, að öllum heiminum verði okkar stjórnarráðstafanir kunnar, en stjórn Bandaríkjanna hefir lýst því yfir í ársbyrjun 1923, að hún vissi þá um ráðstafanir okkar í steinolíumálinu, og sjest það í Alþingistíðindunum 1923.