21.04.1926
Neðri deild: 59. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1743 í B-deild Alþingistíðinda. (1450)

102. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Forsætisráðherra (JM):

Jeg er þakklátur hv. sjútvn. fyrir að hafa flutt þetta frv. og held, að hún hafi þar gert hyggilega í sínum till. Það er sjálfsagt að halda fast við að hegna fyrir veruleg brot, enda eru ákvæði laganna mjög ströng, líklega einhver þau ströngustu, sem nokkursstaðar eru. En það geta komið fyrir þau brot, sem ekki er rjett að hegna fyrir eftir þeim ákvæðum, sem nú gilda. Það hefir komið fyrir, að bæði útlendir og innlendir togarar hafa verið kærðir fyrir brot, sem eru svo lítil, að þau ættu alls ekki að varða jafnharðri hegningu og lögin ákveða nú. En jeg held, að nefndin hafi gert rjett í því að leggja til, að dómari skyldi ákveða um brotið, hvort það skuli dæmast eftir harðari eða vægari ákvæðum laganna, fremur en láta framkvæmdarvaldið hafa alræði í slíkum sökum. Jeg held, að það sje rjett að fara stranglega eftir botnvörpubannlögunum, því að það er með brot á þeim eins og brot á bannlögunum, þeim á að framfylgja án þess að líta til hægri eða vinstri. En það á að gera greinarmun á brotunum. Og það held jeg, að sje gert sanngjarnlega í frv.