18.02.1926
Neðri deild: 9. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1750 í B-deild Alþingistíðinda. (1470)

25. mál, sauðfjárbaðanir

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg get tæplega svarað fyrirspurnum hæstv. atvrh. í öllum atriðum fyrir okkur alla flm.; til þess höfum við varla borið okkur nógu vel saman. En jeg get svarað því fyrir mig um innflutninginn, að jeg hefi ekki hugsað mjer, að tilteknar yrðu sjerstakar tegundir, heldur væri heimilt að flytja þær allar inn. Það er meðal annars vegna þess, að jeg veit til þess, að fjölmargir bændur blanda þessum tegundum saman í notkun. Vel getur verið, að kæmi til mála að setja skorður við innflutningi einhverra Coopers baðlyfja, en þá hygg jeg nokkur vandkvæði á því að velja úr þær tegundir, sem mönnum yfir höfuð fellur best að nota. Því held jeg það vera vissast að hafa þetta algerlega frjálst.

Jeg skal fúslega viðurkenna, að það er ekki hægt fyrirfram að segja um, hve mikið þurfi að búa til af innlendu baðlyfi, ef innflutningur á Coopers baðlyfjum er gerður frjáls, og geta stafað af því vandkvæði nokkur. En hinsvegar hygg jeg, að tæplega verði hægt að gera við slíkum vandkvæðum, nema með því eina móti að segja fyrirfram, hvað mikinn hluta megi flytja inn af erlendu baðlyfi. Út frá því mætti svo reikna, hvað mikið þyrfti að framleiða innanlands. En þetta held jeg myndi skapa óánægju, ef þeir, sem helst vildu nota útlend baðlyf, væru ekki frjálsir að því.

Hitt getur líka vel komið til mála, að breyta löggjöfinni um þetta efni á þann veg, að gefa frjálsan innflutning á þeim baðlyfjum yfirleitt, sem mönnum líkar best, og hætta að búa til baðlyf hjer á landi öðruvísi en til reynslu eða tilrauna, til þess að prófa sig áfram.

Hæstv. atvrh. fanst það ofmælt, að flestir væru á einu máli um það, að baðefni það, er menn hafa notað nú síðustu árin, hafi oft reynst ónýtt. Jeg þekki talsvert til um þetta efni og hefi sjeð skrif um það. Allar þær umræður um þetta mál, sem jeg hefi vitað um, bæði í ræðu og riti, hafa verið alveg einróma um það, að innlenda baðlyfið hafi gefist mjög illa. Þó má reyndar segja, að einstöku menn álíta, að það hafi gefist vel, en hinir eru langtum fleiri, sem telja það alveg ónýtt. Jeg get sagt það með fullri vissu, að þar sem farið var nákvæmlega eftir þeim fyrirmælum, sem gefin eru um notkun baðlyfsins, við sauðfjárbaðanir í vetur, var lúsin lifnuð aftur á fjenu á 5. degi. (HK: Hún hefir þá bara aldrei dáið!). Vitanlega hefir hún aldrei dáið, en aðeins fengið sjer blund við baðið og vaknað svona skjótlega til lífsins aftur. En það er öldungis víst, að það var ekki hægt að kenna neinu um í notkun baðefnisins, heldur var það sjálft svona ónýtt. Það hefi jeg einnig heyrt á mönnum og sjeð í skrifum ýmsum, að fjárkláði hafi aukist á sumum stöðum upp á síðkastið. Meðal annara hefir maður nokkur, sem hefir umsjón með sauðfjárböðunum á stóru svæði, haldið þessu fram.

Mjer er kunnugt um, að dýralæknir hefir lagst á móti innflutningi Coopers baðlyfja, en með allri virðingu fyrir honum hlýt jeg að leggja meira upp úr reynslu fjölda bænda, sem hafa notað það með ágætum árangri.