27.04.1926
Efri deild: 60. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1770 í B-deild Alþingistíðinda. (1486)

25. mál, sauðfjárbaðanir

Atvinnumálaráðherra (MG):

Frv. þetta er komið frá Nd., var flutt af allmörgum hv. þm. þar og var í byrjun þess efnis, að þá eina breytingu skyldi gera á baðlyfjalöggjöfinni, að nota mætti hið svonefnda Coopers duft án löggildingar. En í neðri deild tók það þeirri breytingu, að bændur sjálfir mættu ráða, hvaða baðlyf þeir notuðu. Vegna þessa eru úr gildi numin lög nr. 21, 4. júní 1924. og ennfremur ýms ákvæði laga nr. 58. 30. nóv 1914, um þrifabaðanir. Þessu máli er þannig varið, að utan af landi hafa komið mjög sterkar raddir um að mega nota Coopers duft. Hafa margir svo mikla trú á þessu baðefni, að þeir telja það hið eina örugga. Þess vegna var frv. í byrjun eins og jeg hefi þegar tekið fram. En jeg og fleiri gátum ekki sætt okkur við þetta. Við vildum ekki taka eitt baðlyf út úr og leyfa notkun þess ólöggilts, ekki síst þar sem það að áliti dýralæknis er ekkert betra en mörg önnur. En til þess að þurfa ekki að ganga á móti þessum sterku óskum, sem jeg gat um, var ekki annað ráð betra en að gefa baðlyfjaverslunina frjálsa, og að því ráði hvarf neðri deild. Vildi jeg því mælast til, að þessi háttv. deild gerði það líka, því jeg býst við, að það yrði geysimikil óánægja, ef ekki verður leyft að nota Coopers duftið.

Jeg veit ekki, hvort landbúnaðarnefnd hjer í deildinni hefir unnið með landbúnaðarnefnd Nd. í þessu máli. Hafi hún ekki gert það, þá vænti jeg, að málinu verði vísað til landbúnaðarnefndar.