10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

1. mál, fjárlög 1927

Hákon Kristófersson:

Þótt jeg hafi nú ýmsu að svara, ætla jeg að vera stuttorður.

Siðameistari þingsins, hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), sagði, að einhver óhlutvandur maður hefði í dag fengið mig til að fleipra með sögu, sem jeg hefði líklega ekki trúað. Þetta þurfti hann ekki að segja, því að jeg tók það einmitt fram, að jeg seldi söguna ekki dýrara verði en jeg keypti og vissi ekkert um, hvort hún væri sannanleg eða ekki. En úr því að hann lítur svo á, að hjer sje um hviksögu að ræða, þá skal jeg með mestu ánægju og undir fjögur augu segja honum, hver þessi maður var, sem sagði mjer söguna. En að jeg taki aftur nokkuð af því, sem jeg sagði í þessu efni, finst mjer ekki að geti komið til mála.

Hnífilyrði hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) í minn garð í sambandi við þetta mál eða annað tek jeg mjer til inntekta, enda væri hitt miklu ógeðslegra, að mínu áliti, að verða fyrir lofi hans. Annars skal jeg trúa honum fyrir því, að jeg er mjög varkár um að trúa hviksögum, sem ganga manna á milli, og því til sönnunar skal jeg geta þess, að mjer og fleiri mönnum hefir verið sögð sú saga um hv. þm. V.-Ísf., að honum hafi fyrir nokkrum árum tekist að afla sjer styrks til guðfræðináms við Hafnarháskóla, sem bygðist á þeirri fullyrðingu hans, að hann síðar, að náminu loknu, ætlaði að gera guðfræðina að lífsstarfi sínu. Nú er vitanlegt, að hann hefir ekki horfið að því ráði enn, og hefir víst aldrei ætlað sjer það. Þar af leiðandi verð jeg að draga þá ályktun, að sagan muni vera ósönn, heldur en að ætla honum það innræti að hliðra sjer hjá því að efna gefin loforð.

Þetta vona jeg, að hv. þm. V.-Ísf. láti sjer nægja, því að náttúrlega býst jeg við, að ásakanir hans og svigurmæli í minn garð hafi verið sprottin af rjettlætistilfinningu, en ekki af einhverjum öðrum hvötum.

Að jeg hafi misboðið þinghelginni, veit jeg ekki, hvernig jeg á að taka. Hitt fullyrði jeg, að jeg hefi aldrei, hvorki fyr nje síðar, skotið mjer undir hana, og vísa því þessum aðdróttunum hv. þm. (ÁÁ) heim til föðurhúsanna sem algerlega órökstuddum sleggjudómi og honum líkum ósannindum.