07.05.1926
Neðri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1776 í B-deild Alþingistíðinda. (1504)

92. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Meiri hl. fjhn. leggur til, að frv. verði samþykt óbreytt. Það er engin sanngirni í því að skoða þetta fasteignagjald sem endurgjald fyrir sóthreinsun, salernahreinsun, sorphreinsun etc., eins og hv. minni hluti vill halda fram. Enda sjá allir, hve fjarri slíkt er öllum sanni, þegar t. d. verður að greiða í fasteignagjald af alþingishúsinu einu 7800 krónur á ári. Ef hjer væri um að ræða borgun fyrir sóthreinsun o. s. frv., þá hygg jeg, að margur mundi vilja taka það að sjer fyrir auk heldur 600 kr., svo að það nær engri átt, að þetta sje ekki nema hæfilegt gjald fyrir unnin verk. Auk þess ber líka að gæta að því, að bæjarsjóður hefir mikið óbeint hagræði af þeim húseignum, sem hjer er um að ræða, þar sem t. d. er mentaskólinn, kennaraskólinn, stýrimannaskólinn — og landsspítalinn, þegar hann kemur upp. Eftir gjaldinu af alþingishúsinu ætti fasteignagjald af landsspítalanum að verða a. m. k. 5 þús. kr. á ári. Slíkt nær engri átt og verður nýrra bragða að leita. Og til þess er þetta frv. fram borið. Það er sem sje ljóst, að hjer er blátt áfram um skatt í bæjarsjóð að ræða, sem ríkinu er alveg óskylt að greiða. En sýni það sig, að vatnsskatturinn, sem bærinn leggur á, sje ekki nægur til þess að endurgjalda bænum það, sem hann leggur fram vegna þessara húseigna, þá er ekki annað en fela ríkisstjórninni að semja um borgun fyrir það. Nú verður t. d. að greiða 1 þús. kr. á ári í fasteignagjald af dómkirkjunni. Sennilega þarf að hreinsa reykpípurnar tvisvar á ári. Sorphreinsun mun ekki vera til muna mikil og salernahreinsun kemur ekki til. Jeg held, að þúsund krónur sjeu heldur rífleg borgun fyrir að hreinsa reykpípur kirkjunnar tvisvar á ári! Nei, það er vitanlegt, að þetta gjald er einn af þeim háu, beinu sköttum, sem Reykjavíkurbær leggur á sína borgara. En það er ekki sanngjarnt, að ríkisstofnanir, sem bærinn hefir kannske fyrst og fremst hagnað af, skuli verða að sæta slíku strandhöggi sem raun ber vitni. Úr því á frv. að bæta.