07.05.1926
Neðri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1777 í B-deild Alþingistíðinda. (1505)

92. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg skoða það sem hreina vangá, að það ákvæði skyldi ekki vera sett í lögin um bæjargjöld í Reykjavík að undanþiggja þær stofnanir fasteignagjaldi, sem undanþegnar eru fasteignaskatti í ríkissjóð. Af því leiðir, að ýmsar stofnanir, sem bærinn á, greiða engan fasteignaskatt til ríkisins, en tilsvarandi eignir ríkisins verða að greiða fasteignagjald til bæjarsjóðs. Nú hafa verið hjer fyrir þinginu lög um bæjargjöld í Vestmannaeyjum, og í þeim lögum er svo ákveðið, að þær eignir, sem undanþegnar eru fasteignaskatti til ríkissjóðs, skuli heldur ekki greiða fasteignagjald í bæjarsjóð. Það er ekkert annað en fyrirsláttur að halda því fram, að þetta gjald sje greitt til þess að standast kostnað við salernahreinsun, sót- og sorphreinsun. Að vísu er það rjett, að þau gjöld fjellu niður sem sjerstök gjöld, er lögin um bæjargjöld í Reykjavík voru sett. En eins og hjer hefir verið tekið fram, þá er ekkert hæfilegt hlutfall milli þess kostnaðar og fasteignagjaldsins. Þannig er salernahreinsun engin í þessum húsum, sem hjer ræðir um, sökum þess að þau salerni, sem þar kunna að vera, eru alt vatnssalerni, og borgun fyrir hreinsun á þeim felst þá í vatnsskattinum. Þá er sóthreinsun, sem mun fara fram eitthvað tvisvar á ári og, eins og áður var tekið fram, kostar aðeins örfáar krónur. Og loks er það þá sorphreinsunin, en við þau hús, sem hjer er um að ræða, fellst víst heldur lítið sorp til, og þó það sje hreinsað burt einu sinni á viku, þá er kostnaður við það hverfandi lítill. Hjer er ekki farið fram á neina breyting á vatnsskattinum. Hann er nú 3–4% af dýrleika fasteignanna, og svo hár, að bæjarsjóður ætti að vera vel haldinn, þótt ekki fengi hann neitt meira.

Það hefir komið í ljós, að það eru ekki gjöldin af þeim húsum opinberum, sem hjer hafa þegar verið reist, sem gefið hafa tilefni til þess, að þetta frv. er fram komið, heldur er það einkum borið fram með tilliti til þeirra bygginga, sem stendur til að gerðar verði, og þá einkum landsspítalans, sem ráðgert er að kosti ca. eina miljón króna. Eftir því er líklegt, að á hann muni leggjast ca. 10 þús. kr. árlegt gjald framvegis, því ekki er líklegt, að næsta fasteignamat., sem fer fram 1930, verði neðan við kostnaðarverð. Einnig stendur til, að söfnuður einn hjer í bænum láti gera kirkju, sem kosta mun um ½ miljón króna og ætti þá að koma 4 þús. kr. fasteignagjald, eftir því sem nú er. Þetta eru upphæðir, sem verða mjög tilfinnanlegar fyrir byggingar, sem ekkert gefa í aðra hönd og eingöngu eru líknarstofnanir eða reistar til almenningsþarfa. Það virðist því sjálfsagt, að fasteignagjald í bæjarsjóð fari eftir sömu reglum og fasteignaskattur í ríkissjóð hvað þessar stofnanir snertir.