07.05.1926
Neðri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1778 í B-deild Alþingistíðinda. (1506)

92. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Jakob Möller):

Jeg held eins og áður fast við það, að þetta fasteignagjald sje algerlega ósambærilegt við fasteignaskatt, því fasteignaskatturinn er ekki miðaður við neinar framkvæmdir, heldur er það beinn skattur. En fasteignagjaldið er miðað við ákveðin verk, sem bærinn lætur vinna. Og með lögunum hafa verið feld niður ýms slík gjöld, sem áður voru greidd sjerstaklega, svo sem sóthreinsunargjald o. fl. En svo er enn fleira, sem bærinn verður að annast og borga, t. d. fráræsla. Það er ekkert sjerstakt gjald lagt á húseignir vegna fráræslu. (Fjrh. JÞ: Jú, holræsagjald). Ja — menn eru að vísu látnir greiða eitthvað fyrir að koma leiðslunni frá húsinu og út í aðalleiðsluna, en ekkert árlegt gjald. Og viðhaldið á öllu þessu kostar bæinn árlega stórfje. Enn má nefna götuhreinsun, sem víða annarsstaðar er kostuð beinlínis af húseigendum sjálfum. Svo það eru ekki aðeins þau sjerstöku gjöld, sem hafa verið afnumin, sem bærinn verður að bera, heldur ýmislegur kostnaður annar. Jeg játa, að sú breyting sem hjer er farið fram á, geti komið til mála hvað snertir kirkjur. En hvað viðkemur spítölum, þá er það miklu meiri kostnaður, sem bærinn hefir af þeim, og engin sanngirni að leggja þann kostnað allan á bæjarfjelagið, er leiðir af slíkum stofnunum, sem vitanlega eru notaðar af fólki víðsvegar að. Það er því fullkomin ósanngirni og yfirgangur af hálfu Alþingis að beita slíku gagnvart bæjarfjelaginu.