07.05.1926
Neðri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1782 í B-deild Alþingistíðinda. (1510)

92. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Jón Baldvinsson:

Hæstv. fjrh. (JÞ) taldi það alveg meiningarlaust, að ríkissjóður greiddi þessi háu gjöld af byggingum sínum í Reykjavík, en hv. samþingismaður minn (JakM) hefir svarað þessu nægilega, en mig langaði til að láta þann fjármálaráðherra, sem var hjer seinni hluta þings 1924, svara núverandi fjrh. (JÞ). Sá hæstv. ráðh. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Mjer þykir rjett að gera hv. þdm. grein fyrir, hverra hagsmuna ríkissjóðsins hjer sje að gæta í þessu máli. Allshn. hefir útvegað sjer upplýsingar í því skyni að sjá, hve miklu þetta munaði ríkissjóðinn, og komist að þeirri niðurstöðu, að með þessum breytingum myndu bæjargjöldin af húsum ríkissjóðs hækka úr 12700 kr. upp í 14900 kr., og getur það ekki kallast mikið. Nú á það sama við um ríkissjóðinn og einstaka menn, sem hús eiga hjer í bænum, að hann hefir sinna hagsmuna að gæta að því er snertir það, að slökkvilið bæjarins og slökkvitækin sjeu í lagi, og með því að bærinn hefir nú nýlega kostað talsverðu til að bæta þetta, þá er það rjett, að ríkissjóður sem húseigandi taki að sínum hlut á sig þá hækkun gjaldanna, sem af þessu leiðir. Frá sjónarmiði ríkissjóðsins sje jeg því ekkert til fyrirstöðu að samþykkja þessa till. um 0.87% gjald af húseignum.“

Þetta segir sá fjármálaráðherra, sem var 1924, og vona jeg, að það sje engin breyting orðin á hugarfari þess manns, jafnvel þótt hann kannske hugsi það, sem þó er ekki víst að verði, að hann losni úr því kjördæmi, sem hann nú er kosinn í og komist í annað stærra. Vona jeg, að hann sje ekki farinn að hugsa mjög í þá átt, sem fram kom í ræðu hans.

Þá kem jeg að hv. frsm. meiri hl. (JAJ), er taldi þessi gjöld, sem ríkissjóður verður að greiða í bæjarsjóð Reykjavíkur, alt of há, og tók það til, hvort ekki mætti fá mann til að flytja sorp frá þinghúsinu, heldur en að láta bæjarsjóð hirða slík gjöld fyrir að gera það. Það getur vel verið, að maður fengist til þessa eina verks fyrir lægra gjald en gjöldin eru, en jeg efast um, að ríkissjóður geti fengið þann mann til að sjá um alt það, sem þarf að sjá um fyrir þessa húseign, fyrir það gjald, sem greitt er. En það er rjett, að jeg taki það upp úr þeirri lagagrein, sem við á, svo að hv. þm. sjái, hvað ríkissjóður fær fyrir þetta gjald. Það er úr 2. gr. laganna um bæjargjöld í Reykjavík:

„Af öllum húsum, úr hvaða efni sem eru og til hvers sem þau eru notuð, skal greiða 0,8% — 80 aura af hverjum 100 krónum — af virðingarverði, enda annist bærinn, húseigendum að kostnaðarlausu, sóthreinsun, sorp- og salernahreinsun og ráðstafanir til útrýmingar rottum og gegn eldsvoða.“

Nú kostar slökkviliðið bæinn upp undir 70 þús. kr. Það er viðurkent, að það er í góðu lagi, — og vill nú hv. frsm. meiri hl. (JAJ), vill nú hæstv. stjórn leysa bæinn undan þeirri skyldu að halda slökkviliði í lagi handa húseignum ríkisins? Þora þeir að taka á sig þá ábyrgð að sleppa niður þeim skyldum, sem bærinn hefir gagnvart húseignum ríkissjóðs, fyrir þessi 0,8% í bæjarsjóðinn? Treysta þeir sjer til að gera samninga við einstaka menn um að sjá um að halda slökkviliði í jafngóðu lagi og bærinn, þegar til þyrfti að taka? En jeg sje ekki annað, ef á að fella niður alla skatta til bæjarsjóðs, þá eigi að losa bæjarsjóð við allar skyldur. (PO: Vatnsskatturinn er eftir). Vatnsskatturinn er eftir, segir hv. þm. Borgf., en það er svo, að vatnsskatturinn er miðaður við fasteignamat á húseignum, og miðaður við þann kostnað, sem bærinn hefir af sinni vatnsveitu. Vil jeg þá minna á það lán, sem tekið var síðast til hennar; það lán á að borgast upp á 20 árum, og hugsa jeg, að það þyki ekki ósanngjarnt, að þeir sem eiga að nota vatnið, greiði þetta aftur; það verður varla gert á skemri tíma, þó að bærinn fengi tiltölulega gott lán til að framkvæma verkið fyrir, og vatnsveitan verður að borga það aftur, og einhversstaðar verður að taka peninga til þess, og sje jeg enga sennilegri leið en þá, sem hjer er farin. Svo er heldur ekkert að vita, hvernig snúist verður í þessu máli; kannske einhverjir finni upp á að segja: við getum fengið einhvern mann eða konu til þess að sækja vatn fyrir okkur inn í Elliðaár fyrir miklu lægra verð en bærinn tekur fyrir það. Jeg hugsa, að það komi nei hjá einhverjum, svo framarlega sem hv. þm. láta ríkissjóð hætta að greiða þetta gjald af húsum sínum, og þá verða þeir líka að gera svo vel að undanþiggja Reykjavíkurkaupstað þeim skyldum, sem gjöldin leggja honum á herðar. Það hefir verið talið rjett að hnýta þessu frv. aftan við 3. gr. bæjargjaldalaganna, sem er um það að undanþiggja fasteignir bæjarins þessum gjöldum. En það ætti ekki að vera notað sem ástæða fyrir þessu frv., að bærinn skattleggur ekki sínar eigin fasteignir; það er aðeins til þess að þurfa ekki að vera að reikna á milli, enda væri það ekki annað en að taka úr öðrum vasanum og láta í hinn, að bærinn færi að borga sjer sjálfum. En hinsvegar er það alt annað, að undanþegnar eru þessu gjaldi lóðir og eignir annara ríkja, en ekki hús, vegna þess að gjaldið, sem tekið er af húsum, er fyrir unnið verk. Hv. 4. þm. Reykv. (MJ) benti á, að það var einu sinni reiknað út við umr. hjer í þinginu, hvern kostnað bærinn hefði vegna húseigna í bænum, og var skatturinn svo miðaður við það, þar með tekið slökkvilið og annað, sem nefnt er í 2. gr. þessara laga. Það er dálítið undarlegt að vera nú að koma með þetta frv.; það er flutt af fjhn. Ed. Alþingis, og langar mig til þess að spyrja hæstv. stjórn, hvort það sje af hennar rótum runnið, hvort það var hæstv. fjrh., sem bað þá nefnd að flytja þetta frv. Það lítur nærri því út fyrir, að hæstv. fjrh. hafi rokið í að semja þetta frv. þegar hann fjekk reikninginn frá bænum í vetur, og væri því nógu fróðlegt að vita, hvort það var hæstv. fjrh., þingmaður bæjarins, sem hefir búið til þetta frv.