07.05.1926
Neðri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1786 í B-deild Alþingistíðinda. (1512)

92. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Þetta mál er svo einfalt, að það er ekki þörf að vera að ræða það lengi. En jeg verð að halda því fram, að þetta gjald, vatnsskatturinn, sem er 4‰, sje nægilegt í öll þessi gjöld. Við skulum segja, að af alþingishúsinu mundu verða greiddar nær 900 kr., vatnsskattur 500 kr., sótaragjald 50 kr., sorphreinsun 125 kr. og til brunaliðs 225 kr., því jeg hygg, að menn vilji ekki ganga inn á skyldur við húseigendur, sem ekki borga brunagjald, því að þá mundi verða sagt við þá: þið verðið sjálfir að kosta slökkvilið, svo að þið sjeuð í jafnlítilli hættu gagnvart eldsvoða eins og hinir, sem við sjáum um. Þeir borga þann skatt, sem er langt fyrir ofan alt, sem þarf til að borga gjöldin af vatnsveitunni.

Það var áætlað, að fasteignaskattur af lóðum og húsum myndi gefa um 360 þús. kr. tæpar, en mjer er sagt af manni, sem lesið hefir bæjarreikninginn, að hann gefi yfir 500 þús. kr., enda er það venjulegt hjá bæjarstjórnum, sem eru að reyna að útvega sjer nýjan gjaldstofn, að flíka ekki þeim hæstu tölum, sem má búast við, heldur er reynt að hafa áætlunina sem lægsta, til þess að borgararnir hræðist ekki skattinn eins mikið, og það er enginn vafi á því, að þessi skattur er 1/3 hærri en bæjarstjórnin áætlaði. Að bæjarsjóður Reykjavíkur greiði fasteignagjald til ríkisins, er ekki nema eðlilegt. Það gera allir bæjarsjóðir og stofnanir, sem hafa slíkar eignir, en því verður ekki í móti mælt, að Reykjavík og bæjarbúar hafa mjög mikil þægindi af að hafa þessi hús í bænum, og stórmiklar tekjur líka. Jeg get hugsað, að Ísafjarðarkaupstaður og Akureyrarkaupstaður myndu gjarnan vilja lofa mentaskólanum að standa hjá sjer fyrir ekki neitt, ef hann væri fluttur til þeirra. Jeg hygg, að hv. þm. Reykv. neiti því ekki, að Reykjavík hefir stórkostleg hlunnindi af því að hafa mentaskólann hjer, fram yfir aðra bæi, eða við að hafa landsspítalann hjer, þegar hann kemur. Það er líka heldur þægilegra að hafa söfnin hjer í bænum heldur en einhversstaðar annarsstaðar. Jeg er alls ekki að telja þetta eftir, en hinsvegar, þegar á að taka svona gjöld af húseignum ríkissjóðs, þá finst mjer það alls ekki rjett, því að þá er bersýnilega verið að gera ríkissjóði harðari kosti heldur en alment er gert öðrum, nema þeim, sem hafa beinar tekjur af framkvæmdum sínum í bænum.