07.05.1926
Neðri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1787 í B-deild Alþingistíðinda. (1513)

92. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Jakob Möller):

Háttvirtur framsögumaður meiri hluta (JAJ ) heldur enn fast við það, að vatnsskatturinn einn ætti að vera nægilegur til þess að borga allan þann kostnað, sem bæjarfjelagið hefir af þessum húsum. En það er nú um vatnsskattinn að segja, eins og hv. 4. þm. Reykv. (MJ) hefir þegar tekið fram, að hann er að vísu það hár, að hann gerir meira en að borga hið erlenda lán, en það eru altaf yfirvofandi bæði endurbætur og viðaukar við vatnsveituna, sem verður að safna í sjóð fyrir, eins og hv. 4. þm. Reykv. líka tók fram. Þá er og nýbúið að framkvæma einn stórkostlegan viðauka, sem varð ákaflega dýr, svo að hagurinn er þröngur, þrátt fyrir þær miklu tekjur, sem bærinn hefir af vatnsskattinum, svo að það má ekki rugla þessu saman við annað. Vatnsskatturinn er fyrir vatnið, og ekkert annað, og þess vegna kemst hv. meiri hl. nefndarinnar ekki framhjá því, að ef á að fella niður gjöldin af húsunum, þá er það sama sem að fara fram á það, að þau verk, sem þau gjöld eru miðuð við, sjeu gerð fyrir ekki neitt, og það erti þau verk, sem bæði beinlínis var felt niður gjald fyrir í lögunum frá 4. júní 1924 og önnur verk, sem ekkert sjerstakt gjald var tekið fyrir, sem lýst hefir verið að nokkru af mjer og öðrum hv. samþingismönnum mínum, og þar á ofan kostnaðarsamari verk en nemur þessu fasteignagjaldi, og þó að fasteignagjaldið komi ekki nákvæmlega heim við þann kostnað, sem bærinn hefir af hverju húsi, þá fullyrði jeg, að sá kostnaður, sem bærinn hefir af þeim í alt, er töluvert meiri en það, sem fasteignagjaldinu nemur.

Jeg hefi nú reynt að bæta úr því, að minni hl. nefndarinnar fjekk ekki tækifæri til þess að koma fram með nál., og gert þær bætur að semja hjer skriflega brtt., sem jeg vænti, að háttv. deild leyfi að komast að. Hún er á þá leið, að 1. gr. frv. orðist þannig, að á eftir orðunum „í milliríkjaerindum“ komi: svo og kirkjur. (JAJ: En ekki sjúkrahús?) Jú, ef það getur orðið til samkomulags, þá er jeg fús til að ganga inn á að bæta við: og sjúkrahús, og svo eftir efni: greinarinnar að bæta við kirkjugörðum; það fer eftir undirtektunum, meðal annars hjá hæstv. fjrh., hvort jeg bæti við þessu orði: sjúkrahús.

Þar sem hæstv. fjrh. hefir sagt mjer, að hann muni fyrir sitt leyti láta brtt. mína hlutlausa, ef jeg bæti inn í orðinu „sjúkrahús“, þá mun minni hl. ganga inn á það, þótt jeg í sjálfu sjer álíti ekki fulla sanngirni í því, að bærinn framkvæmi þessi verk fyrir þau án endurgjalds.