10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

1. mál, fjárlög 1927

Jón Sigurðsson:

Jeg skal ekki tefja tímann. Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) rjeðst í kvöld á mig með mikilli grimd. Það virðist svo, sem honum hafi sárnað spaugið frá mjer í gær, er jeg sagði, að nú væri af sem áður var, því að þá hefði altaf verið nei í lófanum, þegar atkvgr. fór fram um styrki til listamanna og um bitlinga, en nú væri höndin oftast á lofti, þegar um slíkt væri að ræða. Út af þessu líkti hann mjer við fakír. Jeg tel mjer enga lægingu í því, því að þeir eru einmitt mjög kunnir að því að hafa komist lengst í því að einbeita hugsun sinni að ákveðnu marki. Mjer er því ánægja að heyra, að jeg beiti hugsun minni á móti till., sem steypa ríkissjóði í glötun. Ræðumaður ljet ekki þar við sitja, heldur fór að gefa mjer meiningar, sem áttu að vera bending um það, að jeg væri með hreppapólitík, vegna þess að jeg beitti mjer fyrir fljótandi skurðgröfu og fyrirhleðslu fyrir Hjeraðsvötnin. Mjer finst hann hafa skotið hjer fram hjá markinu, ef þetta hefir átt að vera sýnishorn þess, að jeg væri með slíkt, því að skurðgrafan kemur ekki aðeins Skagfirðingnm að gagni, heldur 7–8 sýslum öðrum. Sama er að segja um fyrirhleðsluna. Hún er bjargráðaráðstöfun til þess að varðveita heilt hjerað frá eyðileggingu.

Annars finst mjer það koma úr hörðustu átt, þegar hv. 1. þm. S.-M. fer að bregða öðrum um hreppapólitík. Jeg starfaði fyrir nokkrum árum með þessum hv. þm. í samgmn., og af þeim kynnum, sem jeg hafði þá af vinnubrögðum hans, þykir mjer það ekkert undarlegt, þó að þessi hv. nefnd geti sjer nú sjerstakan orðstír fyrir togstreitu og skæklatog í ýmsum málum og komi sjer illa saman.

Menn hafa heyrt það, þegar rætt hefir verið um bátastyrki o. s. frv., að sumir hv. þm., og þá ekki síst hv. 1. þm. S.-M, hafa sjeð lítið út fyrir sitt eigið kjördæmi, eða í mesta lagi ystu skæklana af þeim næstu, og hvenær varð svo þessi hv. þm. slíkur listamannavinur og bitlinga sem hann nú er orðinn? Það varð þegar hann uppgötvaði, að til væri listamannsefni úr Mjóafirði!