28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1795 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

29. mál, almannafriður á helgidögum

Frsm. meiri hl. (Pjetur Þórðarson):

Eins og tekið er fram í nál. á þskj. 196, gerir frv. þetta, um almannafrið á helgidögum þjóðkirkjunnar, ekki miklar breytingar á núgildandi löggjöf um þetta efni. En nefndin telur þó, að þeir viðaukar, sem í frv. felast við gildandi lög, og sameining þeirra í eina heild sjeu til verulegra bóta. Nefndin hefir, eða meiri hluti hennar, eins og tekið er fram í nál., tekið málið til gagngerðrar athugunar frá ýmsum hliðum og leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem nefndin flytur og skráðar eru á áðurnefndu þingskjali. Jeg skal nú leitast við að gera nánari grein fyrir þessum brtt. meiri hl., svo að hv. þdm. geti áttað sig á þeim, og skal þó fara fljótt yfir sögu.

Breytingartillögurnar við frv. í heild ganga aðallega í þá átt að samræma ákvæðin um hinn almenna friðhelgitíma, nefnilega að ákveða hann yfirleitt frá kl. 11 árdegis til kl. 3 síðdegis. Nefndin vill draga nokkuð úr ákvæðum 1. gr. um ferming og afferming skipa á helgidögum, og leggur hún því til, að á eftir „kirkjustöðum“ verði bætt við: „þegar messað er“ og að felt verði burtu ákvæðið um það, að sækja þurfi um leyfi til lögreglustjóra, þó að til þess þurfi að taka í nauðsyn að ferma eða afferma, þegar svo á stendur, sem áður er sagt. Brtt. við fyrri málsgr. 1. gr. gengur því aðallega í þá átt að færa greinina til betra máls og fella burtu niðurlagsákvæðið.

Brtt. við 2. málsgr. sömu gr. fer einnig aðallega í þá átt að samræma ákvæði greinarinnar við önnur ákvæði frv. um hinn fullfriðaða tíma helgidagsins, sem sje frá kl. 11 árd. til kl. 3 síðdegis. Aftur leggur nefndin til, að feld sjeu burtu hin sjerstöku ákvæði 1. gr. um fiskvinnu á helgidögum, vegna þess, að síðar í sömu gr. er óbeinlínis heimilað að bjarga fiski undan skemdum, eins og fleiri jafnnauðsynlegar athafnir, sem eigi má fresta, þó þetta sje orðað öðruvísi eftir till. nefndarinnar.

Þá er önnur aðalbrtt. nefndarinnar við 2. gr., a.-liður, og er sú breyting aðallega fólgin í því að stytta ákvæði frv. Í stað þess að hafa sjerstök ákvæði um, að búðir kaupfjelaga skuli vera lokaðar á helgidögum, leggur nefndin til, að þau ákvæði sjeu færð inn undir 1. málsgr. greinarinnar. Þá er b-liður þessarar brtt. um það, að fella niður 2. og 3. málsgrein 2. gr. frv. Í 2. málsgrein 2. gr. er kveðið svo á, að þær búðir, sem taldar eru undir 4.–5. tölulið, eigi að vera lokaðar frá kl. 12–4 síðd. Þetta ákvæði þykir nefndinni ekki ástæða til að hafa í frv. og leggur til, að það falli niður. — Þá er 3. málsgr. 2. gr. Hvað snertir fyrri hluta hennar, er það í samræmi við, að nefndin hefir áður lagt til að færa ákvæðin um búðir kaupfjelaga inn undir fyrstu málsgrein 2. gr., að hún nú leggur til, að þessi hluti málsgreinarinnar falli burt. Seinni liður málsgreinarinnar er um það, að veitingasalar megi ekki á helgum dögum þjóðkirkjunnar selja mönnum áfenga drykki. Um þetta munu vera ákvæði í öðrum lögum eða reglugerðum, og þótti nefndinni því ekki hlýða að hafa þetta ákvæði í frv. og leggur til, að það falli burt. Loks leggur nefndin til, að 4. málsgr. 2. gr. verði breytt, aðallega til þess að samræma friðhelgitímaákvæðin. Þá þótti og nefndinni, til samræmis, rjett að fella niður 3. gr.

3. brtt. nefndarinnar hljóðar um það — og kemur ástæðan fram í næstu brtt. þ. e. 4. brtt. — að láta sömu reglur gilda um markaði og um aðrar hávaðasamar athafnir, og vill því orða ákvæðið öðruvísi. 5. gr. frv. hljóðar svo:

„Á helgidögum þjóðkirkjunnar má hvorki halda neinar almennar skemtanir nje heldur mega nokkrar þær athafnir, sem hávaði er að, eiga sjer stað, nema lögreglustjóri leyfi, fyr en eftir miðaftan.“

Nefndin leggur til, að þetta verði orðað öðruvísi og að tekin verði inn í greinina ákvæði 3. gr. frv., sem samkv. till. nefndarinnar fellur niður: Nefndinni þykir rjett, að þessi friðun helgidagsins fyrir þessum athöfnum nái ekki nema til kl. 3 síðdegis. Þetta bann við því að hafa um hönd nokkrar þær athafnir, sem hávaði er að, nær þá ekki lengra en til kl. 3 síðd., og er þá komið samræmi í þetta við önnur ákvæði frv. Hvað snertir skemtanir á helgidögum, sem um ræðir í 5. gr., þótti nefndinni rjett, að þær mætti ekki halda fyr en eftir kl. 3, nema lögreglustjóri leyfi.

Þá kemur 5. brtt. nefndarinnar, við 7. gr., og er hún aðeins orðabreyting eða skipulagsbreyting á setningum, sem nefndinni þótti betra að orða eins og brtt. fer fram á heldur en er í 7. gr. frv.

7. gr. frv. er þannig :

„Almenna fundi má eigi halda um veraldleg efni á helgidögum þjóðkirkjunnar fyr en um nónbil. Þá er guðsþjónusta fer fram eftir nón, er þó heimilt að halda almenna fundi samtímis, sje þess gætt, að fundurinn sje eigi haldinn svo nálægt kirkju eða bænahúsi, að guðsþjónustan verði trufluð af því.“

Þetta þykir nefndinni ekki rjett eða ekki nógu vel að orði komist, og leggur því til, að því verði breytt í þá átt, sem brtt. fer fram á.

Þá er 6. brtt. nefndarinnar, við 8. gr., og er þar aðeins litlu ákvæði bætt aftan við greinina. 8. gr. frv. er stutt, og er hún þannig:

„Bönn þau, sem talin eru í undanfarandi greinum, ná yfir allan daginn föstudaginn langa og hinn fyrra helgidag stórhátíðanna.“

Nefndinni þótti rjett að láta þetta almenna bann einnig gilda eftir kl. 6 á aðfangadag jóla. Einnig þótti nefndinni rjett, að þarna væri bætt við nýrri málsgrein, þar sem tekin eru upp svipuð ákvæði 9. gr. frv. og stytt í samræmi við það, sem í öðrum till. nefndarinnar felst.

7. brtt. nefndarinnar er um það, að 9. gr. falli niður.

Aðalbrtt. nefndarinnar ganga þá í þá átt að samræma ákvæði frv., eins og flm. hafa bent á í greinargerð sinni fyrir frv., að væri rjett. Þannig hefir nefndin lagt til, að hinn almenni friðartími helgidaganna skuli vera frá kl. 11 árdegis til kl. 3 síðdegis. Að öðru leyti eru brtt. nefndarinnar mest orða- og skipulagsbreytingar. Jeg skal játa það, að nefndin sá, að með þessum ákvæðum væri ekki nægilega trygður almannafriður á helgidögum, þegar og þar sem messað er síðdegis, á stöðum eins og t. d. hjer í Reykjavík, þar sem mest röskun þykir vera á almannafriði. En nefndin hefir ekki komið sjer saman um lengri friðunartíma en í tillögunum er nefndur, eða sjerstakan fyrir síðdegismessur. Hinsvegar flytur hv. þm. Borgf. (PO) brtt. við 1. gr. á þskj. 232, sem gengur í þessa átt, og er hún á þessa leið:

„Í öllum kaupstöðum og kauptúnum, þar sem er kirkja, er bönnuð öll umferð bifreiða á messudögum frá kl. 11 f. h. til kl. 4. síðdegis.“

Þessi till. ákveður ofurlítið annan tíma, einum kl.tíma lengra fram á daginn. Nefndin hefir ekki tekið sjerstaka afstöðu til þessarar till., en jeg býst við, að jeg geti gengið inn á hana, þó hún sje ekki í fullu samræmi við till. meiri hl. nefndarinnar. Það er almenn ósk manna; sjerstaklega hjer í Reykjavík, að þessi löggjöf verði endurnýjuð og færð saman, svo að hún komi betur heim við þau atvik og þær athafnir, sem mestri röskun þykja valda á almannafriði helgidagsins. — Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, en vænti þess, að hv. deild taki þessar óskir til greina og geti fallist á frv. með þeim breytingum, sem meiri hl. nefndarinnar fer fram á.