28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1814 í B-deild Alþingistíðinda. (1539)

29. mál, almannafriður á helgidögum

Jakob Möller:

Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) vildi halda því fram, að það gæti ekki átt við alstaðar á landinu, sem þó ætti við hjer í Reykjavík, og mætti því ekki telja það svo mjög til meðmæla með frv., þótt það ætti hjer við. Jeg held, að þetta sjeu engin rök, enda ekki rökstutt hjá háttv. þm. Hann benti á einstök atriði í frv., sem honum þótti einkum kenna rangsleitni í. T. d. spurði hann, hvort það væri nokkurt vit í því að leyfa einum manni, sem ekki ætti bryggju, að losa skip, sem öðrum manni á sömu höfn, sem ætti bryggju, væri stranglega bannað að gera. Þetta er tómur misskilningnr hjá hv. þm. Slíkt felst vitanlega alls ekki í frv. Þar er þetta miðað við örugga og ekki örugga höfn. Þar, sem höfn er svo góð, að skip geta legið við bryggju, þar á ekki að vinna við uppskipun á löghelgum degi, en þetta er auðvitað bannað jafnt þeim, er ekki eiga bryggjurnar, eins og hinum. Hinsvegar ber þess líka að gæta, að það er alls ekki bannað að vinna allan daginn, heldur aðeins rúmlega um messutímann.

Hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) talaði um, að samkomulag hefði náðst um þetta hjer í Reykjavík, og væri eins heppilegt að ná slíku samkomulagi yfirleitt milli verkamanna og vinnuveitenda eins og setja þessi lög. En slíku samkomulagi hefir ekki auðnast að ná, og því hefir þetta frv. verið samið af nefnd, þar sem sátu fulltrúar frá báðum þessum aðiljum.

Hv. 2. þm. N.-M. benti á, að þessi lög, sem hjer liggja fyrir, gætu orðið til hindrunar fyrir siglingar landsmanna. Það vill nú svo til, að strandferða- og millilandaskip eru undanþegin ákvæðum laganna. En þá var það útgerðin, sem ekki átti að þola þetta. Um það vil jeg vísa til samninganefndarinnar, sem samdi þetta frv., en í henni sat fulltrúi útgerðarmanna.