10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

1. mál, fjárlög 1927

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það eru aðeins örfá orð, sem jeg ætla að segja út af síðustu orðum hv. þm. Str. (TrÞ). Það má vel vera, að það sje rjett hjá honum, að jeg hafi mismælt mig í fyrri ræðu minni, sagt að sterlingspundið hafi hækkað, í stað þess að jeg ætlaði að segja, að það hefði lækkað. En fyrst hann veit, að þetta var mismæli, hví er hann þá að breiða sig út yfir það og tala um vitleysur úr ráðherrastóli? Getur ekki öllum orðið mismæli, einnig hv. þm. Str? Annars hafði hann ekkert að athuga við það, sem jeg sagði um enska lánið, nema þetta eina mismæli, og öfunda jeg hann ekki af því.

Það, sem jeg vildi sýna og sýndi í ræðu minni, var það, að þegar enska lánið var tekið, fengum við það útborgað í sterlingspundum. Þess vegna þurftum við að selja pund, og við seldum þau til Danmerkur, því að þar voru skuldirnar, sem greiddar voru með enska 1áninu. Við þetta mikla framboð á pundum í Danmörku fjellu þau gagnvart danskri krónu, og það var okkur auðvitað í óhag, sem seljendum þeirra, og varð, til þess að stöðva eða minka fallið, að dreifa sölunni á nokkurn tíma, en á þeim tíma fjell ísl. kr. gagnvart danskri. Þess vegna reiknaði jeg gengi ísl. kr. á þessum tíma 27–28 kr.