10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

1. mál, fjárlög 1927

Fjármálaráðherra (JÞ):

Tveir háttv. þm., flokksbræður skólastjórans við alþýðuskóla Þingeyinga á Laugum, hafa tekið allstint upp ummæli þau, er jeg hafði um skólastjórann. Hv. þm. Str. sagðist ekki vita, hvaða ástæðu jeg hefði haft til þessara ummæla, en jeg sagði ástæðuna þegar í byrjun. Jeg vildi sem sje bera af Þingeyingum það ámæli, sem borið hefir verið á þá, að þeir væru annaðhvort andstæðir alþýðumentun eða vildu hana ekki nema hún kæmi frá kaupstöðunum. Jeg var heldur ekki með neinar persónulegar aðdróttanir til skólastjórans, heldur sagði jeg sem satt var, að margir merkir menn teldu hann of ungan og óþroskaðan, og ef til vill fullmikið pólitískt litaðan, til þess að þeir þyrðu að trúa honum fyrir unglingum. — Að þetta hefði átt að vera hefnd fyrir illa meðferð, sem jeg hefði orðið fyrir á fundi í Þingeyjarsýslu, því verð jeg algerlega að vísa frá sem markleysu einni. Enda hefi jeg enga ástæðu til að hefna fyrir neitt, sem gerðist á þeim fundi, því að hann var mjer að öllu leyti einhver hinn ánægjulegasti fundur, sem jeg hefi verið á hjer á landi.

Hv. þm. Str. og hv. þm. N-Ísf. hafa viljað vjefengja það, að hreppsreikningar gefi rjetta hugmynd um hag hreppa. Jeg get auðvitað ekki vitað það, en meðan ekki eru gefnar upplýsingar um það, að hverju leyti þeir gefi skakka hugmynd um ástandið, þá verður að taka þá trúanlega. Og jeg verð að segja það, að mjer finst ekki til of mikils ætlast, þó að þess sje krafist af þeim, sem sækja um eftirgjöf lána úr viðlagasjóði, að þeir gefi nægar upplýsingar. Jeg ætla ekki að hafa neitt á móti því, að verulega illa stæðum hreppum sje rjett hjálparhönd, ef þeir gefa nægar upplýsingar um, að hagur þeirra sje svo slæmur, að þess sje þörf. En ef þessa væri ekki krafist, þá væri erfitt að neita öðrum, sem sæktu um slíkt, ef til vill án þarfar, en notuðu sjer það, að nákvæmra upplýsinga væri ekki krafist

Jeg ætla svo að endingu aðeins að kvitta fyrir þá samlíkingu, sem hv. þm. Str. gerði á sjer og einum vopndjörfum fornaldargarpi. Jeg er hræddur um, að honum hafi ekki tekist að vega mann í því höggi, þó að hann, eftir áliti hv. þm., lægi vel við. Jeg hefi heldur ekki haldið því fram að Bandaríkin hafi stofnað til tollstríðs út af því, að íslenska fjeð væri blandað, heldur gat jeg þess, að við hefðum gefið tilefni til slíks, með því að við hefðum ekki gætt velsæmis í milliríkjaviðskiftum á öðru sviði.